Ég les

Dagur Þorleifsson: Ein til frásagnar eftir Immaculée Libagiza

Mér var öðru sinni ekki alls fyrir löngu litið í bók með titlinum Ein til frásagnar eftir tútsíska konu sem mig minnir heita Immaculeé að fornafni. Bókin hefur verið þýdd á íslensku og er efni hennar jafn athyglisvert og það er óhugnanlegt. Hér er semsé sagt frá þjóðarmorði Hútúa í Rúanda á Tútsum, löndum sínum, er átti sér stað 1994. Um áttahundruðþúsund manns ef ekki fleiri létu lífið í þessari helför Tútsa. Í helför gyðinga voru um sex milljónir manna myrtar, eftir því sem yfirleitt er talið, en það gerðist á nokkrum árum og með hliðsjón af framleiðninni í morðum koma þýsku nasistarnir út sem fúskarar í samanburði við hútúsku rasistana. Framleiðnin í umræddum morðum þeirra síðarnefndu var fjórum til sex sinnum meiri en hjá nasistum í helför gyðinga miðað við það sem ég hef séð skrifað um þetta. Fjöldamorðin í Rúanda voru þaulskipulögð löngu fyrirfram. Þýskur almenningur reyndi að láta sem hann vissi ekki um útrýminguna á gyðingum, af hálfu hútúsks almennings var hinsvegar um að ræða mikla þátttöku í morðunum á Tútsum, enda gekk þetta furðu fljótt fyrir sig þótt tæknin hjá Hútúum væri minni en hjá Þjóðverjum. Þeir síðarnefndu notuðu, eins og menn vita, einkum eiturgas við umræddar framkvæmdir, Hútúar hinsvegar sveðjur. Framundir miðja síðastliðna öld voru gyðingar þjóð án eigin lands og hafði svo staðið í um átjánhundruð ár. Svipað var ástatt fyrir Tútsum. Þeir eru dreifðir um nokkur lönd í Mið-Afríku en allsstaðar í miklum minnihluta, líka í Rúanda og Búrúndi þar sem flestir þeirra eru. Lengi höfðu Tútsar bróðurpart valdanna í þessum löndum báðum, en því lauk að minnsta kosti í Rúanda þegar löndin tvö sem um nokkurra áratuga skeið voru undir yfirstjórn Belga urðu fullsjálfstæð ríki um 1960.

Í þessu samhengi er eðlilegt að nefna hið fyrsta af meiriháttar þjóðarmorðum tuttugustu aldar, það sem Tyrkir frömdu á Armenum í fyrri heimsstyrjöld og næstu árin þar á eftir. Þá lét meirihluti fólks af armensku þjóðerni lífið. Ekki heldur Armenar höfðu þá eigið ríkið en voru dreifðir einkum um Tyrkjaveldi. “Hver man nú eftir Armenum?” sagði Hitler tæpum tveimur áratugum eftir fjöldamorðin á þeim. Hann vissi vel um þau og sennilegt er að hann hafi haft þau að fyrirmynd. En yfirleitt er ekki mikill gaumur gefinn að morðunum á Armenum af því að menn vildu hafa Tyrki góða eða af áhugaleysi um þetta efni yfirleitt.

Alþjóðasamfélagið var, þrátt fyrir umgetin þjóðarmorð fyrr á öldinni, furðu seint til viðbragða 1994 í Rúanda. Kanadískur foringi friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna í Rúanda hafði fengið upplýsingar um hvað til stæði og nokkrum sinnum sent viðvaranir til þeirrar deildar Sameinuðu þjóðanna í New York sem með friðargæslu alþjóðasamtaka þessara hafði að gera. Forstjóri deildar þeirrar var þá Gana-maðurinn Kofi Annan sem skömmu síðar varð framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Hann og starfsmenn hans gerðu nánast ekkert í málinu og létu öryggisráðið ekki einu sinni vita af viðvörununum. Og svo var að heyra að þáverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Egyptinn Boutros-Ghali, reyndi fyrst að drepa málinu á dreyf með því að kalla fjöldamorðin “ættbálkaerjur” og eftir viðbrögðum fjölmiðlaheimsins að dæma höfðu fjöldamorðin staðið í marga daga ef ekki vikur áður en þeir áttuðu sig á því hvað var að gerast í Rúanda.

Dagur Þorleifsson, mars 2008

Dagur er trúarbragðafræðingur.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál