Ég les

Kristín Ragna Gunnarsdóttir: Myndabók fyrir eldri börn og fullorðna eftir Shaun Tan

Mig langar til að segja ykkur frá bók sem ég fann á ólíklegum stað, innan um upplitaðar túristabækur á sólríkri eyju. Þetta er myndabók fyrir eldri börn og fullorðna sem heitir The Arrival. Bókin kom út árið 2006 og er eftir margverðlaunaðan ástralskan höfund, Shaun Tan. Titill bókarinnar er eini textinn og því reynir verulega á myndlestrar- og athyglisgáfu lesandans.

Bókin er í sex köflum og brúntóna blýantsteikningar í raunsæjum stíl birtast ýmist í myndaseríum eða heilsíðumyndum. Líkt og í myndasögum er frásögnin drifin áfram með mörgum litlum myndarömmum. Þeir sýna atburðarásina af mikilli nákvæmni og sjónarhornið verður smám saman víðara eins og í kvikmynd. Frásögnin hægir síðan á sér þegar stórar myndir sviðsetja atburðina.

Bókin hefst á tilfinningaþrunginni senu þegar aðalpersónan, karlmaður á besta aldri, kveður konu sína og dóttur. Margar myndir í röð af slitnum persónulegum hlutum segja sögu af högum fjölskyldunnar. Myndir af handahreyfingum sýna okkur náin samskipti hjónanna og síðan birtist heilsíðumynd úr eldhúsi fjölskyldunnar. Hjónin leggja álút hendur sínar saman á ferðatösku og innsigla það ferðalag sem framundan er. Hægt er að lesa margt úr svipbrigðum dótturinnar í nærmyndasyrpu sem fylgir í kjölfarið. Opnumynd sýnir síðan fjölskylduna úr mikilli fjarlægð á göngu í þéttbyggðri, fátæklegri borg er minnir á völundarhús. Það vofir ógn yfir þeim í líki ótal drekahala sem þræða öll skúmaskot. Maðurinn er að flýja slæmt ástand og horft er eftir honum í myndaröð af lest er minnkar og minnkar þar til hún hverfur. Móðir og dóttir ganga einar til baka upp brekku, húsaraðir byrgja sýn og ógnandi halarnir eru enn á lofti.

Í öðrum kafla bókarinnar er ferðalagi mannsins yfir hafið lýst. Tíminn er sýndur með mismunandi skýjamyndum er ná yfir heila opnu og gefa þær tilfinningu fyrir óralangri siglingu á fjarlægar slóðir. Svona er sögunni komið á framfæri á táknrænan hátt og tilfinningar eins og söknuður, hræðsla og von eru myndgerðar af miklu innsæi. Fantasíu og raunsæi er blandað saman og virkar það vel til að túlka upplifun mannsins er hann kemur á framandi stað. Fólk er sýnt á raunsæjan hátt en farartæki, húsbúnaður og dýr eru framandgerð og ímyndunarafli höfundar eru engin takmörk sett. Jafnvel maturinn er allt öðruvísi útlítandi en við eigum að venjast, líkist furðuverum með hala og brodda. Lesandinn á því auðvelt með að samsama sig við manninn er hann reynir að fá botn í umhverfi sitt. Hann þarf að læra á nýtt táknkerfi, fer í langa röð innflytjenda til að fá skilríki og myndaröð af líkamstjáningu mannsins sem örvæntingarfullur reynir að gera sig skiljanlegan er átakanleg.

Maðurinn gefst þó ekki upp og reynir að finna sér húsnæði og mat og þá grípur hann til teikninga til að geta tjáð sig. Á sama hátt og höfundurinn kemur söguþræðinum á framfæri við lesendur með því að teikna myndir notar aðalpersónan myndir til að gera sig skiljanlega og koma sér fyrir á nýjum stað. En hann þarf að fá vinnu til að geta séð sér farborða og þá rekur hann sig á erfiðleika sem fylgja því að skilja hvorki tungumálið né ritmálið. Eftir að vera ítrekað hafnað fær hann það starf að hengja upp veggspjöld. En hann snýr þeim öllum öfugt og endar að lokum í einhæfri færibandavinnu.

Maðurinn kynnist smám saman öðru fólki sem hjálpar honum og segir honum sína sögu. Þær frásagnir birtast í annarskonar myndarömmum er minna á gömul myndaalbúm eða í grátóna teikningum til aðgreiningar frá aðalsöguþræðinum. Allt hefur þetta fólk mátt þola ofsóknir eða styrjaldarástand. Smæð einstaklingsins gagnvart kringumstæðum er myndgerð á áhrifaríkan hátt með því að ýkja stærðarhlutföll. Ógnirnar eru risavaxnar í samanburði við flóttafólkið.

Það birtist einnig lítil hliðarsaga um fugl sem byggir hreiður í glugga mannsins og kemur ungum sínum þar á legg. Þessi saga kallast á við aðalsöguþráðinn því eftir langa mæðu kemur fjölskylda mannsins svífandi í loftbelg og það verða fagnaðarfundir. Í síðasta kafla bókarinnar fer verkið í hring, myndirnar spegla myndabrotin af heimilismunum úr fyrsta kaflanum og það birtist samskonar sena úr eldhúsi fjölskyldunnar. En nú sitja þau öll brosandi saman við eldhúsborðið, eru greinilega búin að koma sér vel fyrir og teikningar barnsins af nýjum heimahögum þekja veggina. Bókinni lýkur er ný kynslóð tekur við. Dóttirin hjálpar nýbúa, sem er í sömu sporum og faðir hennar var, að lesa á kort og sagan heldur áfram.

Verkið vísar út fyrir sig í sambærilegar aðstæður ótal fólks sem hefur þurft að segja skilið við heimaland sitt og fjölskyldu vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Tan gefur þessu fólki andlit á saurblöðum bókarinnar og rammar þannig verkið inn. Þetta beinir sjónum lesenda að því að þessi saga er saga margra og þessi saga á mikið erindi við okkur á tímum aukinnar fjölþjóðamenningar á Íslandi. Ég hvet ykkur til að þræða vefslóðina http://www.shauntan.net. Þar getið þið séð myndir úr bókinni og lesið meira um þennan frábæra höfund, Shaun Tan.

Kristín Ragna Gunnarsdóttir, apríl 2008

Kristín Ragna er teiknari og bókmenntafræðingur.

Shaun Tan, The Arrival, Lothian Books, Australia, 2006


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál