Ég les

Áslaug Óttarsdóttir: Skáldin í hverfinu

Lengi hefur blundað í okkur starfsmönnum Sólheimasafns að hreykja okkur dálítið af því hversu mörg skáld búa eða hafa búið í hverfinu okkar. Við settumst niður, létum hugann reika og fyrr en varði voru nöfnin á listanum yfir skáld og rithöfunda hverfisins orðin í kringum 30. Þegar ég renni augum yfir þennan langa lista læðist að mér sú spurning hvers vegna hverfið hafi ekki haft þessi áhrif á mig? Hvers vegna ég sé ekki skáld eftir að hafa búið hér nánast alla mína ævi eða í um 50 ár?

Í þessum pistli ætla ég að fjalla stuttlega um nokkrar af þeim fjölmörgu bókum sem ég hef lesið eftir skáldin í hverfinu.

Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur. Ég man enn þegar ég fékk þessa bók í hendur nýútkomna. Ég sleppti henni ekki fyrr en ég hafði klárað hana. Fjölskyldan var algerlega afskipt þessa helgi. Mér fannst bókin frábær. Ég hef ekki lesið hana aftur, veit ekki hvernig hún hefur elst á þeim rúmu 20 árum sem liðin eru frá útkomu hennar, en tilfinninguna við lesturinn man ég vel enn þann dag í dag. Alda, aðalsöguhetja bókarinnar, er mér enn ofarlega í minni.

Fólkið í steinunum eftir Einar Má Guðmundsson. Þessa skemmtilegu barnabók las ég mikið fyrir yngstu stelpuna mína, okkur báðum til mikillar ánægju. Það var ekki verra að geta sagt henni að þetta væru æskustöðvar mínar og þannig upplifði hún að mamma myndi nú tímana tvenna. Hún fylltist einnig áhuga á því sem eftir var af holtinu en yfir þann hluta gengum við daglega á leið okkar til og frá leikskóla.

Mín káta angist eftir Guðmund Andra Thorsson. Ég hafði mjög gaman að þeirri bók þegar hún kom út og las hana reyndar aftur fyrir skömmu og skemmti mér vel. Ég kynntist bókinni og söguhetjunni Agli um svipað leyti og hljómsveitinni Spöðum þegar ég fékk snælduna Lukkan Lukkan að gjöf. Ég sá alltaf aðalsöguhetjuna Egil fyrir mér þegar ég hlustaði á Andra syngja blúsinn. Ég held að Egill hafi samið nokkra af textum Spaðanna: “Ég stökk á eftir strætó, hljóp of hægt og varð of seinn.....”
Þess má til gamans geta að textarnir sem Spaðar syngja eru að mestu ættaðir úr Vogunum þar sem aðaltextasmiðirnir, þeir Guðmundur Andri og Aðalgeir Arason, ólust upp.

Ég hef ekki aðeins búið í hverfinu mestalla mína ævi, lokið barnaskóla- lands- og stúdentsprófi frá skólunum þar heldur hef ég einnig starfað innan hverfisins á fleiri stöðum en í Sólheimasafni þar sem ég vinn núna. Ég afgreiddi í mjólkurbúðinni, passaði börnin á leikskólanum og kenndi fimm vetur í Vogaskóla. Þar kynntist ég Mikael Torfasyni en ég kenndi honum þegar hann var 12 ára. Það kom mér skemmtilega á óvart að hann skyldi verða rithöfundur – það stefndi ekki í það þennan vetur sem við unnum saman í grunnskólanum, held hann hafi ekki skrifað staf þá. Hann sendi mér síðar fyrstu bókina sína – Falskan fugl. Bókin hélt athygli minni óskiptri og mér fannst hún afar óhugnanleg. Þarna kynntist ég framandi heimi sem ég sem betur fer þekki ekki til og vill ekki kynnast. Þrátt fyrir óhugnaðinn og framandleikann fannst mér bókin trúverðug. Mér er það líka mjög minnisstætt hversu spenntar eldri dætur mínar voru fyrir bókinni, þá 15 og 18 ára.

Bíbí eftir Vigdísi Grímsdóttur. Að lokum langar mig að fjalla um bók sem ég hef nýlega lesið eftir eitt af skáldunum úr hverfinu, fyrstu og vonandi ekki síðastu ævisöguna sem Vigdís Grímsdóttir skrifar. Þarna er um að ræða þroskasögu íslenskrar hvunndaghetju, Bíbíar Ólafsdóttur, sem Vigdís skilar mjög vel til okkar lesenda. Í bókinni er fjallað án æsings um viðkvæm og erfið mál, en lífshlaup Bíbíar Ólafsdóttur er afar sérstakt. Samfélagslýsingin á tímum sem nú virðast órafjarri, en eru þó ekki svo langt frá okkur í tíma er einnig góð. Sögusvið bókarinnar er að hluta Múlakampur sem er ekki svo langt frá hverfinu okkar.

Það er umhugsunarvert að svona mörg skáld og rithöfundar hafi alist upp og eða búið á ekki stærra svæði innan borgarinnar. Hvað er það í umhverfinu sem hefur þessi áhrif? Gæti það verið litla snotra bókasafnið í miðju hverfisins?

Áslaug Óttarsdóttir, apríl 2008

Áslaug er safnstjóri í Sólheimasafni Borgarbókasafns.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál