Ég les

Kristín Viðarsdóttir: Jane Austen leshringurinn og Kafka on the Shore
 

Tvær síðustu bækur sem ég las eru gjörólíkar en mér finnst alveg vert að benda á þær báðar. Ég rakst á þá fyrri í útstillingu á bókasafninu mínu um daginn og greip hana með mér heim, hafði hvorki heyrt um hana né þekki ég höfundinn. Það var bara titillinn, Jane Austen leshringurinn, sem laðaði mig að bókinni, mér finnst gaman að lesa bækur Austen og var reyndar nýbúin að sitja lítið námskeið um þær, sem má alveg líta á sem nokkurs konar leshring. En semsagt bókin er eftir bandaríska höfundinn Karen Joy Fowler, kom út árið 2004 og samnefnd bíómynd leit svo dagsins ljós 2007. Íslenska þýðingin er eftir Evu Hrönn Stefánsdóttur og Ölvar Gíslason.

Mér fannst bókin áhugaverð að mörgu leyti þótt hún sé líka dálítið klisjukennd. Hún er byggð upp í kringum fundi hjá leshringnum sem eru jafnmargir skáldsögum Austens, eins og reyndar meðlimir hópsins. Hver bók og persóna fær þannig sinn kafla og ákveðnar hliðstæður eru skapaðar með lífi viðkomandi persónu og bókarinnar sem er til umfjöllunar hverju sinni. Í leshringnum eru sex konur og einn karl, sumar konurnar hafa þekkst lengi og einar mæðgur eru í hópnum, en karlinn er ókunnur þeim öllum þegar klúbburinn tekur til starfa. Hann er líka sá eini sem ekki þekkir bækur Austen fyrir, hans áhugasvið eru vísindaskáldsögur og fantasíur sem hann reynir að fá aðalsprautuna í leshringnum til að lesa líka. Lesendur kynnast svo þessum sjö persónum í nútíð og fortíð, en sumar þeirra standa á ákveðnum krossgötum í lífi sínu, eru að takast á við skilnaði, flutninga, einsemd eða bara sig sjálfar - og um leið eru settar fram spurningar um bækur Jane Austen sem áhugafólk um þær getur skemmt sér við að pæla í með leshringnum. Ég mæli því sérstaklega með þessari bók fyrir áhugafólk um Austen, en það má þó auðveldlega hafa gaman af henni þótt fólk þekki ekki bækur hennar. Hún er líka ágætis hugmyndabanki og innspýting fyrir leshringi, hvort sem er um bækur Austen eða einhverjar aðrar. Í framhaldi af lestri bókarinnar horfði ég svo á bíómyndina, en fannst hún nú frekar þunn og átakalítil, persónurnar eru litlausar og einhvern veginn alltof sléttar og felldar þrátt fyrir þau innri átök sem þær glíma við.

Seinni bókin sem ég er nýbúin að lesa er Kafka on the Shore eftir Haruki Murakami, sem ég las í enskri þýðingu Philip Gabriel. Ég þekki Murakami betur sem höfund en Fowler og hef ekki enn orðið leið á bókunum hans. Þótt það megi alveg finna galla á þessari bók ef mann langar til (t.d. eru ýmsir lausir endar sem ég sakna að meira sér gert með og sums staðar hefði alveg mátt þétta frásögnina) greip textinn mig þannig að ég átti erfitt með að leggja þennan tæplega 500 síðna doðrant frá mér. Það er eitthvað við bækur Murakami sem sogar mann til sín og gerir lesturinn að hreinni nautn, jafnvel þannig að maður hálfpartinn ánetjast textanum. Mér fannst t.d. voðalega leiðinlegt að vera búin með bókina þegar ég kláraði, en það má þá jú alltaf bara lesa aðra eftir sama höfund (sem ég er einmitt núna að gera).

Kafka on the Shore segir frá 15 ára strák sem strýkur að heiman frá Tokyo og endar fyrir röð tilviljana á litlu einkabókasafni í borginni Takamatsu. Hann tekur upp nafnið Kafka Tamura, endurtekur í sífellu við sjálfan sig (að hluta til í gegnum persónuna Crow sem virðist vera einhvers konar hliðarsjálf hans, en við fáum að vita að tékkneska orðið kafka þýði einmitt kráka) að hann þurfi að vera “sterkasti 15 ára strákur í heimi”, og hefur nýtt líf á bókasafninu með hjálp sérstæðra starfsmanna þess. Kafka er móðurlaus og man hvorki eftir móður sinni né ættleiddri eldri systur sem hann veit þó að hann átti, þær mæðgur yfirgáfu heimilið þegar hann var smábarn og hann veit ekkert um hverjar þær eru né hvar þær eru niðurkomnar. Samkomulag þeirra feðga er vægast sagt slæmt og því strýkur Kafka, en ferðalagið sem hann leggur upp í er einum þræði klassísk leit að sjálfi og uppruna. Goðsöguleg temu koma enda mjög við sögu og er Ödipusarsagan einna sterkust. Samhliða sögu Kafka er svo saga gamals manns, Nakata, en hann varð fyrir dularfullri geislun (eða óútskýrðum atburði) í æsku sem rændi hann fyrra minni og hæfileikanum til að læra nema allra einföldustu hluti. Hann hefur þó þá náttúru að geta talað við ketti, en hann vinnur við það að leita katta sem hafa horfið frá heimilum sínum. Hann tekur sér svo líka óvænta ferð á hendur ásamst ungum vörubílstjóra sem hann kynnist og sagan af ferðalagi þeirra er sögð á víxl við sögu Kafka, en sögurnar skerast svo einnig. Atburðarásin tekur á sig ýmsar myndir, en það eru fyrst og fremst hugsanir og draumar sögupersónanna og goðsöguleg og fantastísk minni sem halda sögunni uppi. Frásögnin er fyndin, falleg og stórfurðuleg þar sem draumar, draugagangur og minningar skipa stóran sess og persónurnar eru mjög lifandi og eftirminnilegar.

Fyrir þá sem ekki þekkja verk Murakamis held ég að þessi bók gæti verið góð byrjun, þrátt fyrir lengdina. Þrjár bóka hans hafa verið þýddar á íslensku af Ugga Jónssyni, Sunnan við mærin, vestur af sól (2001), Spútnik-ástin (2003) og nú síðast Norwegian Wood (2006), svo ef fólk vill heldur lesa móðurmálið er það líka hægur vandi.

Kristín Viðarsdóttir, október 2008

Kristín er verkefnastjóri á Borgarbókasafni


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál