Ég les

Úlfhildur Dagsdóttir: Þegar péníngarnir hurfu

Fyrir næstum tuttugu árum síðan var ég stödd við Patríarkatjarnir í Moskvu, en einmitt þar missti bókmenntamaðurinn Berlíoz höfuðið snemma í skáldsögu rússneska rithöfundarins Míkhaíls Búlgakofs, Meistarinn og Margaríta, í meistaralegri þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur. Skáldsagan var skrifuð á fjórða áratug síðustu aldar (en var ekki gefin út á rússnesku fyrr en 1966) og kom út á íslensku 1981. Lengi vel las ég hana einu sinni á ári, í það minnsta. Tjörnina var ég þó ekki að heimsækja til að leita að höfði Berlíozar, sem virðist hafa verið bókmenntamaður af einmitt því taginu sem mér lyndir illa við, né heldur í von um að hitta Woland, öðru nafni skrattan sjálfan (þó ég ímyndi mér að mér myndi lynda betur við hann en Berlíoz - allavega skemmtir ýmislegt skrattanum (og mér) í augnablikinu), heldur einfaldlega til að anda að mér andrúmslofti þeirrar skáldsögu sem, að öllum öðrum bókmenntum sem ég hef andað að mér ólöstuðum, hefur líklega haft hvað afdrifaríkust áhrif á bókmenntasmekk minn, að ég ekki segi tilveru mína í heildina séð. 

Tjörnin var lítil og hálfómerkileg eitthvað, stóð enganvegin undir mínum bókmenntavæntingum, en þó gladdist ég og settist á veitingastað í grenndinni (sem var ekki lítið afrek á þessum tíma: - a) að finna veitingahús, b) fá borð og c) þjónustu. En það verður væntanlega ekki vandamál fyrir Íslendinga í framtíðinni). Þarna sat ég með yngismeyjunni Olgu (við deildum elskhuga, en það truflaði ekki vináttu okkar, byggða á sameiginlegri aðdáun á skáldsögu Búlgakofs (þarf ég að segja að elskhuginn jafnaðist engan veginn á við rithöfundinn?)) og hef sjálfsagt drukkið vodka; allavega er það eina næringin sem ég man eftir að hafa innbyrt þessar fimm vikur sem ég ferðaðist um það sem þá voru Sovétríkin, en urðu það ekki mikið lengur eftir ferðina.

Já, góðir lesendur, heimsókn mín til Patríarkatjarna átti sér stað rétt við upphaf (meints) hvarfs marxismans, þetta var í september árið 1989, nokkrum vikum síðar féll Berlínarmúrinn og Olgu heyrði ég aldrei frá síðan (né elskhuganum). Meistaran og Margarítu hitti ég hinsvegar aftur fyrir hér í Bloomsbury í London núna í október 2008, á sama tíma og kapítalisminn hverfur út í Lundúnarþokuna - það er heitt og bjart, en kolamengunarmistur liggur yfir og gefur borgarlandslaginu (ákaflega viðeigandi) impressjónískt yfirbragð. Og hér vantar ekki veitingastaðina, ég setti mig niður á prik á Plógnum við Safngötu og vopnuð hvítvínsglasi las ég mig í gegnum spánnýja myndasöguútgáfu af minni gömlu uppáhaldsskáldsögu.

Það var í ‘málgagninu’, breska dagblaðanu The Guardian, sem ég frétti fyrst af útkomu myndasögu byggðri á þessari uppáhaldsskáldsögu minni fyrr á þessu ári og sá nokkur mynddæmi sem æstu mjög áhuga minn. Í sakleysi hélt ég að það væru Rússar sem væru að dunda við þetta enda nöfnin þannig hljóðandi, Andrzej Klimowski og Danusia Schejbal, en sorrí, þau eru víst barasta baseruð hér í landi Breta. Kannski tóku kynþáttafordómar þarna yfir (þó hvítvínið á Plógnum hafi runnið ljúflega niður í 21 stiga hita um miðjan október), en bókin olli mér nokkrum vonbrigðum. Í mínum huga er Meistarinn og Margaríta bók full af flugeldum, það glampar allt og hver einasta sena er hlaðin brjálæðislegum bakgrunnum, kannski svona í anda síbreytilegra bakgrunna George Herrimans, höfundar Krazy og Ignatz (en þeir bakgrunnar voru frægir fyrir að breytast, þó ‘persónurnar’ stæðu kyrrar). Í meðförum Klimowski og Schejbal er heimur þeirra meistarans og Margarítu frekar kaldranalegur - og sjálfsagt mun meira viðeigandi en mín sýn, sérstaklega miðað við smæð tjarnarinnar - og einfaldur, án þess þó að vera áhrifalaus eða flatneskjulegur. Þau fara þá leið að skiptast á, annað teiknar sögu meistarans, Margarítu og skrattans í svart hvítu, hitt teiknar sögu Pílatusar og Jésú í lit. Þetta virkar vel fyrir utan helsta vandamál sögunnar (og hér kem ég með hefðbundna kvörtun á aðlaganir) - þetta er allt of stutt! Hvar er þessi sena hugsaði ég með mér og af hverju eru möguleikar myndmiðilsins ekki betur nýttir hér og og ... í stuttu máli lenti ég í algerri flækju; því sem aðlögun er sagan þétt og flott og virkar, en. En.

Eins og Pílatus fæ ég hálfgerðan höfuðverk við að sortera þetta út. Hér er í raun allt sem á að vera, tjörnin, hausinn sem rúllar, geðveikin, hræsnin, trúarflækjurnar - og konan sem makar sig með smyrsli sem gerir henni kleift að flúga um á strákústi, beinagrindurnar úr arninum, bókin sem þótti of hættuleg til að vera gefin út; þetta er allt hérna. Og síðast en ekki síst er töfrabragð Wolands sem treður upp sem grímuklæddur galdramaður og sendir handfylli af seðlum út í salinn til trúgjarnra áhorfenda sem uppgötva síðar að þeir eru verðlaus pappír.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2008

Úlfhildur er bókmenntafræðingur og bókaverja á Borgarbókasafni.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál