Ég les

Jónína Óskarsdóttir: Skagen heillar

Þegar vorboðinn ljúfi birtist þá kemur hann með Se og hør og Alt for damerne fyrir mig, síðan ligg ég í íslenskri sól og dönskum huggulegheitum fram eftir sumri. En undanfarið hef ég aðallega lesið bækur um Skagen, annað árið í röð. Þær fæ ég lánaðar á Borgarbókasafninu, í bókasafni Norræna hússins og kaupi í gegnum skagensmuseum.dk. Þarna á meðal eru bækurnar; Balladen om Marie (Krøyer) eftir Tonni Arnold og At male sit privatliv: Skagensmalernes selviscenesættelse sem Skagens Museum gaf út. Þar er sýnt hvernig þessir málarar máluðu heimilislíf sitt og hver annan. Eins get ég nefnt Skagen før og nu eftir Ölbu Schwartz, ömmu Malene Schwarts leikkonu sem lék fínu frúna Maude Varnæs í Matador og Portrait of a Marriage sem er gefin út af Skagensmuseum og Gl. Holtegaard í tilefni sýningar um þau hjónin Maríu og P.S. Krøyer.

Bókin sýnir líf þeirra hjóna með ljósmyndum, texta og síðast en ekki síst málverkum, en María var aðalfyrirsæta Krøyers á ótal myndum. Hún þótti kvenna glæsilegust á sínum tíma og var sjálf myndlistarlærð og ein þeirra sem stofnaði myndlistarskóla kvenna í Kaupmannahöfn á þeim tíma þegar konum var ekki hleypt inn í akademíuna. Hennar kraftar nýttust þó ekki á þeim vettvangi, en á heimilismyndum Krøyers koma vel í ljós hæfileikar hennar í hönnun og innanhúsarkitektúr. Þetta er saga frægasta Skagenmálarans og fallegu konunnar hans. Líf þeirra var í fáum orðum sagt draumur sem endaði í martröð vegna geðveiki Krøyers og flagarans og tónskáldsins Hugo Alvén sem María féll fyrir. Eitt þekktasta verk Skagensmuseum er einmitt eitt verka Krøyers, Sommeraften på Skagen Sønderstrand frá 1893, en þar ganga þær María og Anna Ancher hvítklæddar eftir ströndinni í blárri kvöldbirtunni.

Um myndlistarkonuna Önnu Brøndum Ancher, mömmu hennar, systur og frænkur má meðal annars lesa í Damerne på Skagen eftir Lise Svanholm og bókinni Martha, Maria og Anna eftir Maríu Helleberg. Það er líka gaman að skoða bókina Marie Krøyer Alvén - maleri tegninger og interiør sem sýnir verk Maríu. Ævisaga Peder Severin Krøyer eftir Peter Michael Hornung setur mann síðan ennþá betur inn í lífið og tíðarandan á þessum tíma. Síðast en ekki síst vil ég nefna bók H.C. Andersens Skagen og En historie fra klitterne þar sem hann segir frá Brøndum gistihúsinu þar sem hann gisti hjá foreldrum Önnu Ancher og upplifun sinni á Skagen löngu fyrir tíma málaranna.

Skagen er mikill draumastaður – minnir á Seltjarnarnesið okkar og Eyrarbakka.

Nú er ég hins vegar að lesa Þar sem vegurinn endar eftir Hrafn Jökulsson, Storm Einars Kárasonar og bók um Einar Sveinsson arkitekt og húsameistara Reykjavíkur eftir Pétur H. Ármannsson.

Mig langar líka til að mæla með hlustun á hljóðbækur. Uppáhaldslesarinn minn er Hjalti Rögnvaldsson. Ég hlusta á allt sem hann les, sama hvað það er, og nýt þess.

Jónína Óskarsdóttir, á tímum októberbyltingarinnar á Íslandi árið 2008.

Jónína er bókavörður í Ársafni Borgarbókasafns.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál