Ég les

Eva Hafsteinsdóttir: Ég lesÁ haustin breytast lesvenjur mínar allverulega þegar ég skipti út skáldsögum fyrir fræðigreinar og námsbækur. Þó reyni ég nú að koma eins og einni ,,afþreyingarbók” fyrir í dagskránni, enda eru þær tilvaldar til að létta lundina og draga mann frá hversdagsamstrinu, þó það geti verið hættulegt að falla niður í heim skáldskaparins þar sem oft reynist erfitt að rífa sig frá honum og einbeita sér að námsefninu á ný. Fyrir stuttu rakst ég hins vegar á frábæra lausn á þessu vandamáli í formi teiknimyndabókar. Þá hafði kærastinn minn farið á bókasafnið og náð sér í sinn skammt af lesefni, sem inniheldur iðulega ríkulega fjölbreyttan skammt af teiknimyndasögum. Hingað til hef ég ekki tekið þetta bókmenntaform mjög alvarlega, en í þetta sinn hvatti kærastinn mig til að lesa eina bókina með þeim orðum að ég ætti pottþétt eftir að elska hana. Ég fór því að hans ráðum og las bókina Blue Pills, a Positive Love Story eftir Frederik Peeters, í enskri þýðingu Anjali Singh frá þessu ári. Skemmst er frá því að segja að hann hafði rétt fyrir sér; ég féll gjörsamlega fyrir bókinni, bæði hvað varðar söguna sjálfa og formið, enda var þarna fullkomin ,,skyndiafþreying” fyrir önnum kafna námsmey.

Þessi teiknimyndasaga myndi flokkast undir grafíska sjálfsævisögu (e. graphical memoir), þ.e. teiknimyndasaga sem byggð er á endurminningum höfundarins, en hér er um að ræða upprifjun Peeters af því þegar hann kynnist ástinni sinni og hvernig samband þeirra þróast. Höfundurinn notast við myndir og beina frásögn (textinn í svokölluðum textabólum), ásamt því að birta hugleiðingar sínar bæði í orðum (þá er textinn settur efst í hvern myndaramma sem við á) og myndum, en þessar hugleiðingar leiða söguna áfram. Peeters sameinar þannig tvo listmiðla til að koma sögu sinni á framfæri, annars vegar bókmenntalega í formi smásögu byggðri á eigin ævi, og hins vegar myndlistarlega í formi syrpu af eigin teikningum. Þessi framsetning kemur vel út þar sem einfaldar, beinskeyttar og jafnvel hversdagslegar pensilteikningar með bleki falla vel að hispurslausum og kómískum frásagnarstílnum.

Sagan er þó ekki þessi dæmigerða ástarsaga um strák sem hittir stelpu, þau hefja ástarsamband og lifa hamingjusöm til æviloka, heldur er lesandanum hér komið verulega á óvart þegar stúlkan uppljóstrar stóru leyndarmáli sem hefur víðtæk áhrif á líf hennar og lítils sonar hennar. Í kjölfarið breytist einnig líf Peeters, en hann snertir varla á möguleikanum að flýja af hólmi og gefa ástina upp á bátinn, heldur leggur sig fram við að aðlaga tilveru sína að hennar og þannig hefja þeirra sameiginlega líf; með erfiðleikum og öllu saman. Lesandinn fylgist með þroskasögu Peeters í gegnum þroskasögu ástarsambandsins, enda fylgir ástandi konunnar stöðug endurskoðun á lífsgildum og viðhorfum sem flestir taka sem sjálfsagðan hlut. Þar með er ekki sagt að sagan sé algjörlega laus við ,,hamingjusöm til æviloka”-einkenni, því ástin spilar stærsta hlutverkið í sögunni, og þrátt fyrir ýmis vandamál og erfiðleika sem upp koma heldur hún velli. Sagan er þannig persónuleg ástarsaga en hún fjallar líka um lífið og tilveruna almennt, frá öðru sjónarhorni en fólk á að venjast.

Þrátt fyrir alvarleika stöðunnar, léttir höfundurinn andrúmsloftið með einstökum húmor sem bæði kemur fram í textanum og í teikningunum sjálfum, og hann hefur lag á að snerta við innstu tilfinningum lesandans með þessum einlægu minningarbrotum og hugleiðingum um það sem hann hefur gengið í gegnum. Lestur bókarinnar fór með mig í eins konar tilfinninga-rússíbanaferð og skildi mig eftir með innilega gleðitilfinningu djúpt í maganum. Ég myndi því hiklaust kalla hana ,,feel-good” lesefni, og mæli með henni við alla sem vilja góða ,,skyndiafþreyingu” með almennilegu inntaki.

Eva Hafsteinsdóttir, nóvember 2008

Eva er nemandi í námskeiðinu Ritdómar og bókmenntagagnrýni í H.Í.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál