Ég les

Brynja Dís Guðmundsdóttir: Þrjár bækur Yrsu

Í sumar las ég þrjár bækur eftir Yrsu Sigurðardóttir; Þriðja táknið, Sér grefur gröf og Ösku. Vinkona mín hafði fengið að gjöf bókina Ösku og mælti með henni við mig. Ég byrjaði að lesa og áður en ég vissi af var bókin búin, ég gersamlega át hana upp! Aska var skemmtileg lesning og góð tilbreyting frá fyrra lesefni, sem er fræðiefni úr skólanum og getur verið mjög þungt á köflum.

Aska fjallar um lögfræðinginn Þóru Guðmundsdóttur sem tekur að sér mál Markúsar Magnússonar. Hann finnur mannshöfuð í kjallaranum á húsi í Vestmannaeyjum sem er búið að vera undir ösku í rúm 30 ár. Eftir þennan fund finnst lík af vinkonu Markúsar og er hann grunaður um aðild að láti hennar. Þá hefst framvinda rannsóknar og allskyns leyndarmál koma í ljós sem voru falin með þessu höfði. Þegar ég var búin að lesa Ösku ákvað ég nú að lesa fyrri bækur Yrsu sem fjalla einnig um Þóru lögfræðing. Þá hófst lesturinn á Þriðja tákninu sem er sú fyrsta af þessum þremur bókum. Hún fjallar um morð á þýskum sagnfræðinema á háskólasvæðinu í Reykjavík. Þegar lík skiptinemans finnst sést að hann ber teiknuð tákn á líkama sínum. Fjölskylda hans biður Þóru að rannsaka málið, með hjálp frá Matthew Reich sem vinnur fyrir þau. Rannsóknin dregur Þóru og Matthew inn í heim sem var þeim ókunnur, heim gamalla rita, tákna og galdrafársins á Íslandi. Sér grefur gröf er svo önnur bókin í seríunni. Skjólstæðingur Þóru rekur hótel á Snæfellsnesi, en hann hafði beðið hana að taka að sér mál vegna draugagangs á hótelinu. Þegar hún kemur þangað finnst lík af ungri stúlku og dregst Þóra inn í rannsókn á morði hennar sem grefur upp leyndarmál úr fortíðinni. 

Aðalpersónan, Þóra, er einstæð tveggja barna móðir sem á í basli með fjölskyldu- og einkalífið. Hún er meðvituð um sjálfa sig og óörugg um útlit sitt en stendur sig sem lögfræðingur og finnur sjálfstraustið í starfi sínu. Ég hefði viljað byrja á Þriðja tákninu  í stað Ösku vegna þess að þrátt fyrir að allar bækurnar fjalli um mismunandi mál er saga Þóru og fjölskyldu hennar sögð í gegnum allar bækurnar. Þau eru kynnt í Þriðja tákninu og sagan af þeim heldur áfram í næstu bókum. Maður kynnist vel börnum Þóru, vandamálum í samskiptum við fyrrverandi eiginmann og kynnum hennar við Matthew.

Allar þessar þrjár bækur Yrsu eru þægilegar aflestrar, textinn flæðir vel áfram og heldur lesanda við efnið. Þetta eru spennusögur og tekst Yrsu vel að halda uppi spennu. Hún hefur lagt mikið í rannsóknarvinnu við allar bækurnar en lýsingar á rannsóknum Þóru og fundum hennar eru mjög ítarlegar. Bækurnar byrja allar á kafla sem gefur manni hugmynd um söguþráðinn og þá er því lýst sem Þóra rannsakar. Hver bók inniheldur marga, fremur stutta kafla og á hverri blaðsíðu má sjá dagsetningu og ártal. Nákvæmar dagsetningar gefa textanum mikinn rannsóknarbrag og gerir sögurnar því raunsærri. Allir atburðir eiga sér stað á Íslandi en í mismunandi landshlutum sem er mjög skemmtilegt því maður getur staðsett sig í frásögninni.

Yrsa er nýlega búin að láta frá sér fjórðu bókina um Þóru Guðmundsdóttir sem heitir Auðnin. Ég er ekki búin að lesa þá bók en hún gerist á Grænlandi. Miðað við fyrri bækur Yrsu um Þóru lögfræðing þá býst ég sterklega við því að Auðnin verði einnig skemmtileg lestrar og spennandi.

Fyrir þá sem hafa gaman að spennusögum mæli ég með bókum Yrsu, það þarf ekki að gefa sér mjög mikinn tíma í að lesa þær, en þær eru mjög góð og skemmtileg lesning.

Brynja Dís Guðmundsdóttir, nóvember 2008

Brynja Dís er nemi í námskeiðinu Ritdómar og bókmenntagagnrýni í H.Í.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál