Ég les

Ásthildur Helen Gestsdóttir: Ég les

Fyrir skólafólk eru sumarfríin hentugur tími til að sökkva sér í einhvern kjarngóðan lestur. Ekki er verra að leggja land undir fót og dvelja um vikutíma eða svo í orlofshúsi. Þá er gott að bóka sig vel upp og eyða kvöldstundunum uppi í rúmi með gott lesefni. Í einni orlofsferðinni í sumar sökkti ég mér í bókina Skugga-Baldur eftir Sjón. Þessi bók var vel til þess fallin þar sem sögusviðið kallaðist á við tengsl mín við náttúruna. Sagan samanstendur af tveimur frásögnum, annarsvegar hrakningum prestsins Baldurs Skuggasonar að veturlagi og hinsvegar sögunni um Friðrik grasafræðing og vangefnu stúlkuna Öbbu. Þessar tvær frásagnir virðast í fyrstu ekki tengjast en undir lokin fær nafn Baldurs aukna merkingu.

Hrakningasögur tengjast frásagnaraðferð fyrri tíma þar sem formið er greinilega byggt á Íslendingasögunum. Þar má nefna stíl textans og ljóðræna hrynjandi. Þá fylgir frásögnin ferðamönnum úr hlaði og áfram í gegnum raunir þeirra. Lesandinn er tekinn með í ferðalag þar sem náttúran grípur öll völd af ferðalöngunum, öræfi Íslands verða að dularfullum og hættulegum stað. Hrakningasögurnar eru sveipaðar þjóðsagnakenndum brag þar sem yfirnáttúrulegir atburðir eiga sér stað.

Það er greinilegt að Sjón sækir í hefð þjóðsagna og svaðilfara. Á þriðja áratug tuttugustu aldar skrásetti Pálmi Hannesson hrakningar manna á 19. öld. Fyrsta bók hans af þremur, Mannraunir, kom út árið 1959. Hún er samansafn af áður birtum frásögnum af hrakningum manna um öræfi Íslands en þar er einnig að finna úrval framsöguerinda sem hann flutti við ýmis tilefni. Megintilgangur skrifa Pálma var að uppfræða lesendur um land og þjóð. Hann vildi opna óbyggðirnar fyrir almenningi og fá þjóðina til að leggja land undir fót og kynnast öræfunum. Frásagnir hans eru hlaðnar upplýsingum um umhverfið sem hann kortleggur fyrir lesendur. Hann veitir þeim upplýsingar um staðhætti og tilgreinir örnefni staðanna. Það má segja að hann sé að gera tilraun til að reisa ferðamönnum minnisvarða: ,,En þú, vegfarandi, sem ferð um Fjallabaksveg, legðu krók á leið þína og komdu við á nafnlausu öldunni suður af Kaldaklofi. Þar hefur íslenzk alþýða skráð lítinn þátt úr langri sögu sinni og staðfest hann með dauða fjögurra ferðamanna“. (83) Hann vill að við minnumst þeirra sem sem lögðu líf sitt að veði og urðu öræfunum að bráð. Hann skráði einnig sögu þeirra sem lifðu af og komust að lokum til byggða. Ein þeirra er saga Kristins Jónssonar en hann villtist af leið þegar hann var að smala inni í botni Eyjafjarðar. Hann gekk þvert yfir hálendi Íslands og kom niður í Árnessýslu nær dauða en lífi.

Thor Vilhjálmsson vinnur með þetta hrakningaminni í smásagnasafninu Foldu. Bókinni er skipt niður í þrjár skýrslur. Sú fyrsta, og sú áhugaverðusta að mínu mati, ber heitið Hrakningar. Þar segir frá hrakningum fimm leitarmanna í janúarmánuði. För þeirra er lesandanum ráðgáta, hann fær ekki að vita hver tilgangur hennar er fyrr en langt er liðið á söguna. Ferðalangarnir lenda í ýmsu og má þar nefna draugagang, draumsýnir og fantasíur. Einnig fléttast þjóðsagan af landnámsmanninum Bárði Snæfellsás inn í atburðarásina.

Sögupersónur Sjóns og Thors halda út í óbyggðirnar sem eru vettvangur hins yfirnáttúrulega. Þær mæta ýmsu sem þeim hefði ekki órað fyrir. Höfundarnir sækja efniviðinn aftur til fortíðar og nýta til þess bæði frásagnaraðferð Íslendingasagna og ævintýralegan brag þjóðsagna. Enda er ,,þjóðsaga” undirtitill Skugga-Baldurs og sögutíminn árið 1883, en á því tímabili gerast þær frásagnir sem Pálmi Hannesson skráði. Skugga-Baldur og Fyrsta skýrsla: Hrakningar eru auðveldar aflestrar og hrein unun að  lesa upphátt. Textarnir eru liprir og hrynjandinn einstakur. Lesandi fær það á tilfinninguna að hann sé að lesa Íslendingasögu. Sögurnar einkennast af auðugu myndmáli og skondnum senum.

Ásthildur Helen Gestsdóttir, nóvember 2008

Ásthildur er nemi í námskeiðinu Ritdómar og bókmenntagagnrýni í H.Í.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál