Ég les

Sara McMahon: Little man, what now? eftir Hans Fallada

Skáldsagan Little man, what now? (Kleiner Mann, was nun) eftir Hans Fallada er verk sem hefur tryggt sér öruggan sess á topplista mínum yfir bestu bækur sem ég hef lesið.

Sagan var fyrst gefin út árið 1932, ári áður en Hitler komst til valda, og fjallar hún í stuttu máli um ungt par, Johannes og Bunny, sem reyna að lifa af kreppuna miklu. Höfundurinn, Hans Fallada, fæddist sem Rudolf Ditzen í Þýskalandi árið 1893. Hann var alla tíð lítill námsmaður og átti fáa vini sem barn, en fann þess í stað huggun í lestri bóka. Um tvítugt gerðist hann vinnumaður á sveitabæ í Þýskalandi og mörgum árum seinna lýsti hann því yfir að þau ár hefðu verið þau ánægjulegustu í lífi hans. Hans fyrsta verk, Young Goedeschal (Der junge Goedeschal) kom út árið 1920 en verkið skrifaði Fallada á meðan hann dvaldi tímabundið á geðspítala eftir að hafa reynt að fremja sjálfsmorð. Fallada glímdi lengi vel við þunglyndi og morfínfíkn og komst oft í kast við lögin vegna fíknar sinnar. Síðustu æviárunum eyddi hann inn og út af geðdeildum og í heljargreipum morfínfíknar. Síðasta verk Fallada, Every man dies alone (Jeder stirbt für sich allein), kom út árið 1947, stuttu fyrir andlát hans.

Skáldsagan Little man, what now? naut mikilla vinsælda þegar hún kom fyrst út en árið 1934 lagði Nasistastjórnin í Þýskalandi bann á bókina þar sem hún þótti óhliðholl málstað hennar og var hún í kjölfarið fjarlægð af öllum bókasöfnum og úr bókabúðum. Sagan gerist í lok Weimar tímabilsins svokallaða, rétt fyrir uppgang nasismans, og fjallar um ung par, Johannes og Bunny, sem ákveða að gifta sig eftir að þau komast að því að þau eigi von á barni. Í fyrstu leikur lífið við þau en þegar kreppan skellur á missir Johannes vinnuna og við taka erfiðir tímar þar sem þau reyna að skrimta á því litla sem þau eiga.

Sagan er mjög blátt áfram og allar lýsingar mjög raunsæar og í anda Neue Sachlichkeit, en þó er ekki um raunsæisbókmenntir að ræða í þeim skilningi. Ritstíll Fallada minnir oft þann stíl sem sjá má í blaðagreinum, mikið er um upptalningar og nákvæmar lýsingar á umhverfi, jafnt sem persónum. Þetta mætti rekja til þess að Fallada vann um nokkurt skeið sem blaðamaður. Höfundurinn lýsir hversdagslífi hjónakornanna á mjög raunsæan hátt, en einnig er mikil áhersla lögð á stórborgarlífið og allt sem því fylgir; tískuna, afþreyingarmenninguna, kaffi- og kvikmyndahús og helgarskemmtun ýmiskonar. 

Sagan er hugljúf og fyndin, en oft á tíðum sorgleg, og þó að persónan Johannes sé á tímum hálf tragísk er ekki annað hægt en að hrífast af honum og Bunny. Persónusköpun Fallada er einstök, við fáum að kynnast hálf sorglegum nýnastista, hjálpsömum núdista og smákrimma með hjarta úr gulli og fáum þannig góðan þverskurð af þýsku samfélagi árið 1932.

Þegar ég las bókina fyrst var góðærið svokallaða enn í fullum blóma, en ætli sagan eigi ekki enn betur upp á pallborðið í dag þar sem hún fjallar einmitt um kreppuárin í Þýskalandi. Þó að bókin sé á köflum sorgleg, þá skilur hún eftir sig notalega tilfinningu að lestri loknum og ég var fullviss um að allt færi að lokum á besta veg, því þó að Johannes og Bunny glati öllum sínum veraldlegu eigum, þá glata þau ekki því mikilvægasta, ástinni.

Sara McMahon, desember 2008

Þess má geta að bókin kom út í íslenskri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar 1934 sem Hvað nú - ungi maður?

Sara er nemandi í námskeiðinu Ritdómar og bókmenntagagnrýni í H.Í.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál