Ég les

Sigríður Sólveig Runólfsdóttir: Bækur Isabel Allende

Einn af mínum uppáhalds rithöfundum er skáldkonan Isabel Allende. Hún er fædd í Perú árið 1942, bjó svo bæði í Bólivíu og Líbanon áður en hún fluttist með fjölskyldu sinni til Chile árið 1958. Ættarnafn hennar gerði fjölskyldunni erfitt fyrir eftir valdarán hersins í Chile í september árið 1973 og flúði hún því land skömmu seinna til Venesúela og bjó þar í 13 ár áður en hún fluttist til Bandaríkjanna og er hún bandarískur ríkisborgari í dag.

Allende byrjaði feril sinn sem blaðamaður í Chile og áður en hún gaf út sínar frægustu bækur skrifaði hún barnabækur. Það var ekki fyrr en 1982 þegar hún gaf út skáldsöguna Hús andanna að hún vakti heimsathygli. Eftir það var ekki aftur snúið og hún hefur gefið út fjöldann allan af bókum sem hafa notið vinsælda um allan heim og gerðar hafa verðið kvikmyndir eftir nokkrum þeirra. Stíll bóka Allende einkennist af mikilli frásagnarsnilld og fjölskyldusögum. Sögurnar eru áhugaverðar og ævintýralegar svo vægt sé til orða tekið.

Fyrsta bókin sem ég las eftir hana var Eva Luna sem er gefin út árið 1987 en kom ekki út í íslenskri þýðingu fyrr en árið 1990. Þegar ég las þessa bók, þá 14 ára gömul, opnaðist fyrir mér algjörlega nýr heimur bókmennta sem ég hafði aldrei áður kynnst. Ég hafði áður bara lesið þessa dæmigerðu barna og unglingabækur og eitthvað annað í bland en ekkert í líkingu við þessa skáldsögu. Hér kynntist ég frásagnarlistinni eins og hún getur best verið. Bókin fjallar um Evu Lunu, sem er munaðarleysingi og sagt er frá uppvaxtarárum hennar í ótilgreindu landi í Suður-Ameríku sem svipar til Chile að mörgu leyti. Bókin fjallar í rauninni um einstakan hæfileika sögupersónunnar sjálfrar, frásagnarhæfileikann. Hún lifir fyrir það að segja fólki sögur sem tvinnast svo saman við þær miklu samfélagslegu breytingar sem áttu sér stað í Suður-Ameríku á árunum frá 1950 og fram á 9. áratuginn. Bókin er löng en er svo skemmtilega skrifuð og persónur hennar svo áhugaverðar að það er ekki hægt annað en að njóta hverrar línu.

Næsta bók sem ég las eftir Allende var Hús andanna. Hún er í mörgu mjög lík Evu Lunu nema að því leyti að hér eru sögurnar bundnar við eina fjölskyldu og sögð er saga hennar í þrjár kynslóðir. Margar áhugaverðar persónur er hér að finna svo sem Clöru og Esteban Trueba. Clara er sem barn skyggn og veit t.d. í fyrsta skiptið sem hún sér Esteban að hann muni seinna verða eiginmaður hennar þó að hann sé kominn á heimili foreldra Clöru til þess að biðja um hönd systur hennar. Esteban reynist seinna vera algjör harðstjóri sem stjórnar fjölskyldu sinni og búgarðinum harðri hendi og fjölskyldan verður meira og minna öll andsnúin honum, reyndar svo mikið að t.d. hættir Clara að tala við hann í mörg ár. Þessi bók er mun lengri í blaðsíðum talið heldur en Eva Luna en það kemur ekki að sök því að hér er um einstaka fjölskyldusögu að ræða. Kvikmynd eftir þessari sögu var gerð árið 1994 með Meryl Streep, Jeremy Irons, Winonu Ryder og Antonio Banderas í aðalhlutverkum. Kvikmyndin er bara nokkuð góð en mörgu varð þó að sleppa úr bókinni.

Ég hef lesið flest allar bækur eftir Isabel Allende en það eru þessar tvær sem standa upp úr. Þær sem hafa komið á íslensku á seinustu árum, t.d. Dóttir gæfunnar og Paula (skrifuð sem bréf sem Allende ritar til dóttur sinnar sem er nú látin), hafa ekki verið eins góðar og þær tvær bækur sem ég las fyrst eftir hana. Hún hefur á undanförnum árum gefið út
bækur sem ég hef ekki  komist yfir að lesa og hafa ekki komið út í íslenskri útgáfu og því get ég ekki dæmt um gæði þeirra. En þrátt fyrir þetta er hún einn af þeim rithöfundum sem vöktu áhuga minn sem unglingur á því sem kalla mætti alvöru bókmenntir. Eftir lestur þessara tveggja bóka fór ég að lesa mun fjölbreyttari bækur og las ekki lengur  aðeins það sem var beint að mínum markaðshópi sem unglingur.

Sigríður Sólveig Runólfsdóttir, desember 2008

Sigríður er nemandi í námskeiðinu Ritdómar og bókmenntagagnrýni í H.Í.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál