Ég les

Hrafnkell Tryggvason: Frankenstein eða hinn nýi Prómóþeus

Ég las þýðinguna að bókinni Frankenstein eða hinn nýi Prómoþeus. Þessi þýðing er mjög góð og vandað til hennar á margan máta. Þýðandinn er rithöfundurinn Böðvar Guðmundsson og rennur hún mjúklega áfram. Höfundurinn, Mary Wollstonecraft, fæddist í Lundúnum, hún lauk við að skrifa bókina í maí 1817 og var hún gefin út  1. janúar 1818.  Bókin er um vísindamanninn Viktor Frankenstein sem býr til skrímsli úr líkamsleifum á rannsóknarstofu sinni. Hann heillast af verkefninu en skrímslið, sem er mjög ljótt ásýndum, á eftir að valda skapara sínum miklum vanda og ógæfu.
Í seinni hluta bókarinnar hefst mikill eltingarleikur Frankensteins við skrímslið, eins konar ferðalag um heiminn  sem berst á norðurhvel jarðar. Þar kemst Frankenstein örmagna um borð í skip, segir sögu sína og deyr. Skrímslið lifir skapara sinn, en það hefur þá drepið alla bestu vini hans og eiginkonu.

Þetta er hörmungarsaga, sem lætur mann ekki ósnortinn. Skrímslið eyðileggur líf Frankensteins  smátt og smátt og segir honum einnig hvað það muni gera honum til miska í framtíðinni, sem veldur enn meira hugarangri.

Athyglisvert er hvernig ýmis slæm atvik í sögunni eru kynnt áður en þau í raun eru látin gerast. Það býður upp á aukna spennu. Uppbyggingin er bein frásögn og sendibréf á víxl. Þetta er bók sem óhikað má mæla með til lestrar.

Hrafnkell Tryggvason, desember 2008

Hrafnkell er nemandi í námskeiðinu Ritdómar og bókmenntagagnrýni í H.Í.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál