Ég les

Bragi Ólafsson: Ein blaðsíða á dag

Núna um áramótin tók ég af mér það loforð að lesa eina blaðsíðu á dag í skáldsögu José Saramago, Árið sem Ricardo Reis dó, á spænsku. Bókin, sem er nánast jafn margar blaðsíður og dagarnir í árinu, er auðvitað upphaflega skrifuð á portúgölsku en þessi spænska þýðing nefnist El año de la muerte de Ricardo Reis. Spænskur vinur minn gaf mér hana fyrir um það bil tuttugu árum, og ég hef aldrei lagt í að lesa hana fyrr, enda er orðaforði hennar fullmikill fyrir mína spænskukunnáttu. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að leggja í hana núna var hins vegar sú að ég hafði fengið lánaða hjá eldri syni mínum spænsk/íslensku orðabókina sem kom út nýlega, og ég hugsaði sem svo að það væri uppbyggjandi að byrja vinnudaginn á því að lesa einhvern litríkan texta sem ég þyrfti að hafa svolítið fyrir. Ég hóf lesturinn að morgni annars janúar og las tvær fyrstu blaðsíðurnar; ég þurfti að bæta upp fyrir það að hafa ekki byrjað á fyrsta degi ársins. Mér leist mjög vel á bókina – byrjunin er lýsing á því þegar enska gufuskipið Highland Brigade leggst að bryggju í Lissabon, og fyrsta setningin – Hér endar hafið og landið tekur við – hafði reyndar alltaf hljómað í höfðinu á mér síðan ég fékk bókina. En að loknum þessum fyrsta lestri þurfti sonur minn allt í einu að fá spænsku orðabókina sína aftur – til hvers veit ég ekki nákvæmlega – þannig að ég hef ekki lesið neitt í bók Saramagos síðan. Og þarf þá væntanlega að lesa ansi margar blaðsíður næst, en það fer auðvitað eftir því hvenær ég fæ orðabókina aftur.

Annars var ég að ljúka við að lesa ævisögu Lárusar Pálssonar leikara eftir Þorvald Kristinsson. Ég hafði mjög gaman af þeirri bók, hún er ágætlega unnin og ég held að hún bregði upp sterkri og lifandi mynd af þessum merkilega leikara og leikstjóra. Einnig vakti bókin upp í mér áhuga á að lesa meira um sögu Þjóðleikhússins, það er alveg örugglega mjög áhugaverð saga og hugsanlega svolítið skrítin, ekki í síst í sambandi við mannaráðningar og pólitík. Ég held reyndar að ungt áhugafólk um leikhús hefði gaman af því að lesa þessa bók um Lárus, og ég er alveg viss um að hún geti nýst bæði sem uppörvun og víti til varnaðar fyrir það fólk sem er að hugsa um að fara að læra þetta viðsjárverða fag, leikhúsleik.

Meðal annarra nýrra íslenskra bóka sem ég hef lesið eftir jólin eru þýðingar Sölva Björns Sigurðssonar á prósaljóðum Rimbaud, Árstíð í Helvíti. Ég held að þetta sé mjög fín þýðing, og frábært framtak að gefa þessi ljóð út í heild sinni – þetta er síferskur texti eftir hinn „sanna guð æskunnar“, eins og André Breton lýsti einhvern tíma Rimbaud, og Sölvi rifjar upp í vel unnum eftirmála sínum. Svo hef ég lesið svolítið í nýju útgáfunni á Kommúnistaávarpinu. Þar er ekki síður „síferskur“ texti á ferðinni, texti sem alltaf er hægt að vitna í, hvar og hvenær sem er, hvort sem er á mannamótum eða í einrúmi.

Eftir að Harold Pinter lést á aðfangadag hef ég síðan verið að endurlesa svolítið eftir hann – og um hann. Til dæmis var ég að lesa sjónvarpsleikritið Night School frá 1960, sem hann endurskrifaði svo fyrir útvarp sex árum síðar. Eins og í fleiri af hans fyrstu leikritum er Pinter þarna að fjalla um baráttu persóna sinna fyrir því að fá að vera þar sem þær hafa komið sér fyrir, og hinn átakanlega þykjustuleik þeirra. Í Night School er svolítið eins og maður sé staddur með annan fótinn í The Birthday Party frá 1958, og hinn í The Homecoming frá 1965, en leikritið stendur þó alveg eitt og sér, það er örugglega eitt af fyndnari leikritum þessa einstaka höfundar. Svo las ég líka annað sjónvarpsleikrit eftir hann, A Night Out, sem er ekki síður fyndið og miskunnarlaust. Þessi tvö „næturleikrit“ Pinters tengjast reyndar í huga mínum tveimur bókum sem ég hef verið að lesa í af og til undanfarið, þótt sjómenn séu ekki fyrirferðarmiklir í leikritunum:

Trawling with the lid off eftir John Nicklin, og Hessle Road, a photographer´s view of Hull´s trawling days eftir Alec Gill. Þessar bækur fjalla um sjómenn og aðra íbúa Hull og Grimsby við austurströnd Englands, og það bága ástand sem hefur ríkt á þeim slóðum í kjölfar þorskastríðanna. Og burtséð frá því hversu áhugavert er að lesa um hvernig útþensla Íslendinga á fiskimiðunum þrengdi að enskum sjávarútvegi og afkomu þess fólks sem tengdist honum, þá er engu líkara en að í þessum bókum sé maður staddur í þeim heimi sem Pinter bjó til – eða lýsti – í leikritum sínum, að minnsta kosti fram á miðjan sjöunda áratuginn. En þessar bækur eftir Nicklin og Gill er ekki hægt að lesa nema með hléum; maður þarf að vera í alveg sérstakri stemmningu til að fara inn í hinn enska gráma í hafnarbæjunum.

Bragi Ólafsson, janúar 2009

Bragi er rithöfundur.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál