Ég les

Rannveig Káradóttir

Velmeinandi frænka mín gaf mér um jólin bókina Opinská ævisaga gleðikonu í London eftir Belle de jour (þýð. Sigurður Hróarsson 2008). Þessi ágæta frænka veit að ég er ekki svo hrifin af glæpasögum – kýs heldur að lesa til dæmis örlagasögur og fræðandi sálfræðilegar bókmenntir og virðist hafa gert ráð fyrir að bókin væri af slíku tagi.

Ég byrjaði strax að lesa bókina að kvöldi 24. desember.

Og þvílík bók, ég hef varla lesið annan eins óþverra og hef þó lesið margt um dagana! Sagan er af ungri og glæsilegri konu sem hefur lokið háskólanámi og hyggst nú fá sér góða vinnu. En eftir endalausar atvinnuumsóknir og jafnmargar neitanir þá er hún orðin peningalaus og við að missa húsnæðið. Þá grípur hún til eldgamallar atvinnu (örvæntingarfullra kvenna sem engin úrræði sjá), hún gerist vændiskona. Dýr vændiskona.

Nú er sagt frá hinum ýmsu karlmönnum sem sækja til hennar. Karlmönnum sem hafa næg fjárráð (og væntanlega vel borgaða atvinnu). Þeir hafa margir hinar ótrúlegustu hvatir þegar þeir leita til hennar eftir kynlífsþjónustu, oft svo ógeðfelldar að hún neitar þeim um þjónustuna þrátt fyrir loforð um væna borgun.

Margt lætur hún þó yfir sig ganga og að leik loknum hysja þessir öfuguggar upp um sig buxurnar og ganga út í þjóðfélagið. Vel klædd stertimenni.

En þessi mella (hún kallar sig það sjálf) er á stundum býsna ánægð með þá sem hún kallar flotta elskhuga sem hún hittir reglulega meðfram ógeðunum. Og alltaf virðist vera næg eftirspurn eftir þjónustu – ekki svo fáir karlmenn sem sækja heim vændiskonur.
Söguhetjan bloggar á netinu og hefur vakið mikla athygli, hún er kaldhæðin og gerir óspart grín að karlpeningnum og atvinnunni. Er flott og vel klædd og umgengst hina ríku. Hún er fær um að hætta vændinu og er þar langt frá því að vera nokkuð í líkingu við þær konur og stúlkubörn sem eru hnepptar í kynlífsþrælkun og geta sig hvergi hreyft fyrir ofurvaldi þrælahaldaranna.

Vinkona mín, sem fékk áhuga á bókinni eftir lýsingar mínar, fékk hana að láni en kom með hana aftur að bragði og sagðist ekki orka að lesa þetta ógeð. En nú bíða hinsvegar ýmsar konur í kringum mig, þar á meðal tengdamóðir sonar míns, eftir að fá að lesa þessa opinskáu sögu!

Síðasta sumar las ég bók Sigrúnar Davíðsdóttur, Feimnismál (2006). Að mörgu leyti áhugaverð bók en þar tekur hún fyrir feimnismál allra tíma, það er mismun á aldri karla og kvenna í hjónabandi. Í bókinni kemur fram að það sé í himnalagi er til sambands kemur að karl sé tuttugu árum eldri og jafnvel enn meira. En þegar dæmið snýst við og konan er eldri kemur annað hljóð í strokkinn, þá er það jafnvel orðið vandræðalegt og ekki í lagi. Á einum stað, tekur hún sem dæmi, „er 50 ára gamall karlmaður hrifinn af 70 ára gamalli konu.” (Ég er 70 ára í dag og ég væri með... nei guð hjálpi mér, með 90 ára gamlan kall, gamalmenni!).

En aftur að sögunni. Hin rúmlega 50 ára gamla íslenska Edda hefur verið búsett í New York um árabil og er ekkja eftir frægan og ríkan ljósmyndara sem var tuttugu og tveimur árum eldri en hún. Henni fannst aldursmuninn alveg í lagi þar til hann nálgaðist sjötugt. Eftir dauða hans finnur hún, þrátt fyrir söknuðinn, að henni hefur verið hlíft við að upplifa að aldursmunurinn yrði ekki jafn „skemmtilegur” er hrörnunin tæki við.

Í nokkur ár býr hún ein í glæsiíbúð (sem er ein af fleiri eignum) og tekur mikinn þátt í samkvæmislífinu, er vinamörg og jafnframt önnum kafin við að vinna með myndir hins dáða ljósmyndara. En svo hittir hún upprennandi ljósmyndara sem er átján árum yngri en hún og þau taka upp ástarsamband. Best að segja ekki hvernig sú saga endar.

Tvíburarnir eftir Tessu de Loo (þýð. Jóna Dóra Óskarsdóttir 2006) kom út sama ár og Feimnismál en hana las ég strax sama ár. Síðan lánaði ég hana, við erum smá hópur vina og ættingja sem lánum hvert öðru áhugaverðar bækur og ræðum þær og þá er bara að muna að merkja bækur sínar til að þær rati heim!

Er ég fékk þessa bók aftur eftir hringferðina las ég hana á ný.

Sagan segir frá tvíburasystrum sem fæðast í Þýskalandi. Kornungar missa þær foreldra sína með stuttu millibili. Þá birtast ættingjar sem af hugsunarleysi og kulda aðskilja tvíburana. Önnur er flutt til efnaðra ættingja í Hollandi en hin, sem er hraustari og stærri, til afa og föðurbróður sem búa á heldur nöturlegum, snjáðum bóndabæ í sveit í Þýskalandi - en þaðan hafði faðir tvíburanna flúið vegna harðræðis og strangleika föður síns (afans). Systurnar hittast af tilviljun á efri árum og eins nátengdar og þær voru í frumbernsku, eru þær nú svo merktar af gerólíku uppeldi að þær ná ekki að vingast eða tengjast.

Lotta, sem alin er upp í Hollandi, hatar allt sem þýskt er og tengir það hroðalegu ofbeldi hersetunnar, handtöku og drápi á unnustanum og fleiri ættingjum og vinum. Margra ára matarskortur og ótti við að upp komist um vini þeirra, gyðingana sem þau fela fyrir nasistum, beygir þessa viðkvæmu konu sem hafði undurfallega söngrödd og var upprennandi stjarna. En allt brestur í stríðinu og er hún reynir að taka upp þráðinn í söngnáminu að því loknu finnur hún að það tekst ekki.

Anna er alin upp við ótrúlegt harðræði og ofbeldi á bernsku- og unglingsárum á bóndabæ afans, en hefur með dugnaði og krafti rifið sig lausa og menntað sig og fengið vinnu og síðar hjúkrað hermönnum í stríðinu. En einnig hún hefur andstyggð á stríðinu og foringjanum og fer ekki varhluta af hörmungunum. Hún kynnist eiginmanni sínum í stríðinu og eins og margir hermenn hatar hann að taka þátt í hernaðinum. Hann fellur í stríðsátökunum og þar með er hennar fyrsti og traustasti vinur horfinn. Anna er skemmtileg persóna, kraftmikil og hávær og segir óhrædd sína meiningu.

Myndin sem dregin er upp af stríðsátökunum er sterk og fræðandi. Við sjáum djöfulleika stríðsins, sem er hrundið af stað af valdasjúkum, kolbrjáluðum karlmönnum er ná völdum og síðan viðhaldið af undurlægjuhætti, andvaraleysi og ræfilshætti almennings sem lætur geðbilunina yfir sig ganga. Herskylda er vopn í höndum ráðamanna og þeir sem neita herskyldu eða gerast liðhlaupar eru teknir af lífi umsvifalaust. Þetta er gjörsamlega óskiljanlegt en er þó enn í lögum víða um heim.

Bókin er afar vel þýdd af Jónu Dóru Óskarsdóttur og á svo sannarlega skilið að vera lesin og ég mun áreiðanlega grípa til að lesa hana enn á ný eftir nokkurn tíma en það á aðeins við um góðar bækur.

Rannveig Káradóttir, febrúar 2009

Rannveig er fyrrverandi barna-, myndlistar- og íþróttakennari.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál