Ég les

Rannveig Káradóttir: Sterkar konur og vængjaðir faraóar

Þetta er seinni hluti af pistli Rannveigar, þann fyrri má lesa hér fyrir neðan.

Bókin Eine Frau in Berlin / Dagbók Berlínarkonu (þýðandi Arthúr Björgvin Bollason, Stöng 2004) fjallar um hörmungar seinni heimsstyrjaldar. Sagan er byggð á dagbók sem söguhetjan, ung kona, skrifar í nokkrar stílabækur og á lausa miða og er meira og minna á dulmáli, en annað gat verið hættulegt. Hún segir frá síðustu dögum stríðsins frá apríl til júlí ársins 1945 og lýsir hörmungum hinna langsoltnu kvenna, barna og fárra karlmanna sem óhæfir voru til að gegna herþjónustu. Þetta fólk bjó í hálfhrundum húsum, þar sem oft á dag dundu yfir sprengingar, og hafðist einnig meira og minna við í loftvarnarbyrgjum eða kjöllurum sem smátt og smátt létu undan sprengiregninu og hrundu að mestu.

Fæðan samanstóð af skemmdum kartöflum, rófum og brenninetlum (ekki veit ég til þess að við Íslendingar tínum brenninetlur og matreiðum, en kannski kemur að því). Fengjust baunir og kjötbiti var slegið upp veislu. Rússar eru fyrri til að hertaka þann hluta Berlínar sem höfundur býr í og þá koma ný vandamál til sögunnar. Sigurliðið hreiðrar um sig í húsum sem enn standa uppi og nú á að nýta sér ástandið: nauðganir – endalausar árásir hermanna á varnarlausar konur og kornungar stúlkur.

Dagbókaskrifarinn er vel menntuð kona sem kann fleiri tungumál og það kemur sér vel fyrir hana að geta rætt við hermennina. Hermennirnir rússnesku eru margir hverjir sveitapiltar, orðnir hálfgerðir villimenn eftir styrjaldarátökin og þeir fara um í smáhópum að ræna og nauðga. Þegar söguhetjan spyr ungan og fallegan hermann hvernig þeir geti hagað sér svona horfir hann niður fyrir sig og segir dapur, þýskarar nauðguðu og drápu systur mínar.
Eftir að hafa verið nauðgað margsinnis ákveður hún að skásti kosturinn sé að fá sér óargadýr eða ,,úlf", að finna einn háttsettan sem verndi hana og aðra, frekar en eiga sífellt von á árás. Henni tekst að ná í yfirmann sem kemur í veg fyrir frekari innrásir fjöldanauðgara og hann færir henni og vinum hennar vín og mat. En hún fórnar sér líkamlega.

Hún lýsir þessum ógnardögum og nær að sjá hið grátbroslega eins og t.d. þegar „verndarinn”, sem kom jafnan með hóp með sér, er að fá sér mat við hið eina verðmæta sem eftir er af eigum efnuðu ekkjunnar sem hún býr hjá, þar sem heimili hennar sjálfrar er í rúst. Þeir skera síld og rúgbrauð á gljáfægðu maghoni-borðinu og sópa beinum og rusli á gólfteppið og drekka óspart. Er líða tekur á kvöldið rekur yfirforinginn menn sína út og nóttin tekur við.

Þetta er ekki ein af þykku, áberandi bókunum sem auglýstar eru fram og aftur en ég greip þessa bók af tilviljun á bókasafninu og las hana af áhuga.

Fjölmargar bækur hafa verið skrifaðar um styrjaldir og þá oftast um karlmenn og hetjudáðir þeirra og sigra en einnig oft um hörmungar þeirra á styrjaldartíma. Miklu sjaldnar er skrifað um konurnar sem eru varnarlaus fórnarlömb sigurvegaranna, og koma margsvívirtar og niðurlægðar úr átökunum. En á meðan eru karlmennirnir í brjáluðum styrjöldum fjarri varnarlausum sveltandi konum og börnum.

Konurnar drýgja samt sem áður hetjudáðir, ekki síður en hermennirnir. Þær hjálpast að og vernda hver aðra með öllum ráðum. Í þessari bók er meðal annars sagt frá því að kona sem er læknir hafi verndað fjölda ungra stúlkna með því að koma þeim fyrir í íbúð og setja upp auglýsingar á fleiri tungumálum um að þarna geysi taugaveiki.

Einhvern veginn finnst mér að þessi saga hafi gerst fyrir óralöngu og sé ekki til að lesa í dag, en eru ekki allar styrjaldir eins – ofbeldi, dráp og nauðganir? Eru ekki bara örfá ár síðan tveir íslenskir stjórnmálamenn, án þess að spyrja okkur þjóðina, samþykktu innrás í annað land ásamt fleiri vinaþjóðum? Hvernig má þetta vera?

Ég gladdist þegar ég sá á bókasafninu söguna Vængjaður Faraó eftir Joan Grant (þýðandi Steinunn Briem, Geislar 2008, Leiftur 1960). Þessi bók hefur verið ófáanleg um langan tíma en er nú endurútgefin. Ég las hana að sjálfsögðu enn á ný.

Ég tapaði þessari bók fyrir löngu síðan en hafði í áraraðir lesið hana oft og mörgum sinnum, kann hana nánast utanbókar, en þó var ég að lesa hana einu sinni enn og mun lesa aftur.

Þetta er einhver sú fallegasta saga sem ég hef lesið en ég á erfitt með að lýsa henni. Hún fjallar um egypskan faraó, konu og fjölskyldu hennar, þroskasögu hennar og margra ára nám í musterinu. Höfundurinn, Joan Grant, var sjáandi og þykir lýsa lífinu í Egyptalandi á öldum áður furðu vel og sannsögulega. Ekki ætla ég að dæma um slíkt en sagan, hvort sem hún er sannsöguleg eða ekki, er undurfalleg og þó mér verði hugsað til þess hvernig hin vinnandi og þjónandi alþýða hafi haft það þá er þetta fyrst og fremst saga hinnar vitru og réttlátu stúlku sem var faraó ásamt bróður sínum.

Þessa bók ættu allir að lesa, hún er mannbætandi og svo er hún listavel þýdd af Steinunni Briem.

Steinsmiðurinn eftir Camillu Läckberg (þýðandi Anna R. Ingólfsdóttir, Uppheimar 2008) er bók sem maður vill lesa áfram, helst í einni lotu og getur hæglega verið lesin á einni spennandi andvökunótt – sem var raunin með mig. Þegar það er alveg leyfilegt að sofna ekki fyrr en undir morgun og sofa fram á dag er upplagt að gera það.

Steinsmiðurinn er sakamálasaga og gerist í sjávarþorpi í Svíþjóð. Þetta er þriðja saga höfundar, sem er ung sænsk kona. Henni tekst að flétta saman spennandi atburðarás þar sem fleiri en eitt sakamál koma við sögu.

Ég er annars orðin dauðleið á að lesa um blóðug morð og limlestingar í bókum, og einnig að fylgjast með slíku í sjónvarpsþáttum.

Þarna eru að vísu mjög ljótir atburðir. Sagan stekkur fram og aftur í tíma og dregur meðal annars inn áhrif uppeldis og ættartengsla á æði mikil vandamál.
Anna R. Ingólfsdóttir þýðir ágæta vel. Spennandi bók og ekki alblóðug!

Að lokum vil ég nefna bókina Ætigarðurinn: Handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur (Salka 2005). Ætigarðurinn er bæði fróðleg og skemmtileg bók, skreytt fjölskyldumyndum og fjölskylduteikningum. Eins og nafnið segir til fjallar hún um jurtir, bæði þær sem vaxa úti í náttúrunni og þær sem ræktaðar eru, jurtir sem nýta má í te og til matargerðar eða bara til að gleðja augað.

En Hildur skrifar um ýmislegt fleira en jurtir. Hún skrifar um áhrif árstíða og tímabila – áhrif sólar, tungls og stjarna, veðurs og vinda á allt líf á jörðinni. Hún segir einnig frá lækningamætti jurta og hvernig þær voru og eru enn nýttar, allt frá dögum Hippókratesar (460-377 f. kr.). Margar uppskriftir og leiðbeiningar um matreiðslu eru í bókinni, en ávallt segir hún skemmtilegar sögur jafnframt. Þannig að það má alls ekki líta á þessa bók sem matreiðslubók eingöngu heldur er þetta afar fræðandi, lifandi og hlýleg bók sem hvetur okkur öll til að hlúa að og virða hina gjöfulu náttúru.
Þessi bók hefur verið „uppivið” frá því hún kom út, bæði í sumarbústaðnum og hér heima. Nú bíða vorverkin og því kominn tími til að glugga í hana enn á ný. Þetta er bráðskemmtileg, fróðleg og vel skrifuð bók og ein af þeim sem ætti að vera til á hverju heimili og á skólabókasöfnum. Hún er upplögð til að lífga upp á náttúrufræðikunnáttuna.

Rannveig Káradóttir, mars 2009

Rannveig er fyrrverandi barna-, myndlistar- og íþróttakennari.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál