Ég les

Björn Unnar Valsson: Svarthvítar myndasögur

Þegar ég er hérna við vinnu í Borgarbókasafninu líður ekki sá dagur að fólk víki sér ekki að mér og spyrji, nánast orðrétt: ,,Hvar eru svarthvítu myndasögurnar ykkar og hvers vegna eru þær ekki komnar í pokann minn nú þegar?"

Jafnvel þegar ég er rétt kominn inn um dyrnar, ennþá að hnýta á mig bindið og varla tekinn til við að vaxa yfirvaraskeggið, þá fæ ég yfir mig heilu holskeflurnar af gæðablóðum sem þyrstir svo sárt í svarthvítar myndasögur að augun eru sokkin í tóftirnar og það brakar í lófum þeirra.

Já, svei, á leið minni í vinnuna hvern einasta dag rekst ég á hundruðir safngesta sem hugsa ekki um annað en svarthvítar myndasögur, lesa hvaða snifsi sem þeir komast yfir og líta hvorki við lituðu myndefni né ómyndskreyttu bókmáli. Þessar blessuðu sálir festa upp veggspjöld, halda styrktarfundi, sitja á ræðustólum, berja sér á brjóst og veiða hvali, allt í nafni svarthvítra myndasagna.

En nú vill ef til vill svo til að lesandi þessa bréfs sé ekki einn þeirra? Þá skal hann gjöra svo vel að líta á þessar bækur:

Stray Bullets eftir David Lapham
Sögur af börnum og ofbeldismönnum sem hanga saman á ofbeldi, Star Wars og eymd. Persónurnar eru margar og sögusviðið nokkuð breitt en takturinn er fastur og kemur alltaf niður á því sama: mannfólkið er eigingjarnt, þröngsýnt og grimmt, og þeim sem minnst mega sín er undantekningalaust fleygt á eldinn.
Fleira svarthvítt og gott eftir sama höfund: Murder Me Dead og Silverfish.

Queen and Country eftir Greg Rucka
Á eftir gömlu góðu hryðjuverkamönnunum eru það helst yfirmennirnir sem ógna lífi bresku spæjaranna. Þessar grey verur eru reknar áfram af rómantík, reffilegum níhilisma og/eða sjálfshatri og lenda í spennandi ævintýrum þar sem líf þeirra er einskis virði og það vita það allir. Rucka hefur tóninn mestanpart úr bresku sjónvarpsþáttunum The Sandbaggers, en áhugasamir gætu líka kíkt á Tinker, Tailor, Soldier, Spy eða Smiley's People, sem eru báðar til á safninu.
Fleira svarthvítt og gott eftir sama höfund: Whiteout.
Rucka hefur líka skrifað skáldsögur í Queen and Country-línunni. Tvær þeirra, Private Wars og A Gentleman's Game, eru til á safninu.

Three Fingers eftir Rich Koslowski
Mikki mús, Andrés önd, Kalli kanína, kötturinn Sylvester og allir hinir voru til í alvörunni. En þeir tilheyrðu minnihlutahópum og þurftu að þola ýmislegt misjafnt til að komast að í skemmtanabransanum á þriðja, fjórða og fimmta áratugnum. Three fingers er heimildamynd frá síðustu aldamótum þar sem tekin eru viðtöl við teiknimyndapersónur, framleiðendur, myndatökumenn, fyrrum eiginkonur og sagnfræðinga, og spurt hversu langt allir hlutaðeigandi gengu í blekkingum og ofbeldi til þess að halda teiknimyndamaskínunni gangandi.
Fleira svarthvítt og gott eftir sama höfund: The King.

Goldfish og Fortune and Glory eftir Brian Michael Bendis
Áður en Bendis fór á mála hjá Marvel lét hann dæluna ganga í svarthvítum 'indí'-myndasögum. Og ganga og ganga og ganga. Sjálf sagan í Goldfish er engin meistarasmíð (glæpasaga í svartari kantinum, sem er fín út af fyrir sig) en höfundurinn hefur næmt eyra fyrir því hvernig fólk talar, og samræðurnar halda bókinni uppi.

Fortune and Glory er sagan af því þegar Bendis seldi kvikmyndaréttinn að Goldfish, skrifaði kvikmyndahandrit upp úr bókinni og reyndi síðar að selja Torso (sem hann skrifaði ásamt Marc Andreyko) til Hollywood. Persónurnar eru einfaldar skrítlufígúrur og Bendis notar sömu myndirnar trekk í trekk í stað þess að teikna hvern ramma frá grunni, en hér eru það aftur samræðurnar og brandararnir sem skipta máli. En þetta er án nokkurs efa fyndnasta myndasaga um kvikmyndaiðnaðinn fyrr og síðar.
Fleira svarthvítt og gott eftir sama höfund: Jinx og Torso.

Tommysaurus Rex eftir Doug TenNapel
Hundurinn hans Ely verður fyrir bíl, en stuttu seinna finnur hann risaeðlu til að leika sér við. Það er í raun óþarfi að rekja söguna eitthvað frekar. Teikningarnar eru hvort í senn realískar og skrípakenndar, sagan full af aulahúmor og þungum boðskap. TenNapel líður ágætlega þarna mitt á milli og afraksturinn er góður fyrir sálina.
Fleira svarthvítt og gott eftir sama höfund: Creature Tech, Earthboy Jacobus, Gear.

How to Be an Artist eftir Eddie Campbell
Já, kápan er fráhrindandi. En Campbell er fyndinn gaur sem fer vel að segja hversdagslegar sögur í hráum myndum. Jafnframt því að gefa út skáldskap hefur hann skrifað og teiknað ævisögu sína í gegnum árin og hér segir hann af því þegar hann hætti að vinna í verksmiðjunni og ákvað að gerast listamaður. Í framhaldi af því kemur sagan af myndasögubólunni á níunda áratugnum eins og hún horfði við Campbell og upphafið af samstarfinu við Alan Moore, en saman gerðu þeir meistaraverkið From Hell. Svo er þetta líka ævisaga eftir hvítan, miðaldra karlmann. Frá Bretaveldi! Það er alltaf skortur á svoleiðis.
Fleira svarthvítt og gott eftir sama höfund: Alec: The King Canute Crowd, After the Snooter, Three Piece Suit.

Box Office Poison eftir Alex Robinson
Robinson breiðir duglega úr sér í þessari hnausþykku bók. Í henni er varla neitt sem hægt er að kalla heildstæða sögu (hún skiptir meira eða minna um aðalpersónu áður en yfir lýkur), miklu frekar samsteypu af smásögum um glás af fólki sem tengist hvort öðru á einn eða annan veg. Enda er persónusköpunin það fyrsta og síðasta í bókinni. Robinson snertir á öllu milli himins og jarðar; foreldrum, samböndum, drykkju, leigusölum, sölumennsku, jólasveinum, myndasögum, sagnfræði, myndasögusagnfræði, hárkollum, kvikmyndaaðlögunum, gæludýrum og dauða. Lesist með hægð.
Fleira svarthvítt og gott eftir sama höfund: Tricked.

Lone Wolf and Cub eftir Kazuo Koike og Goseki Kojima
Tuttugu og átta bækur af eintómri dýrð. Sagan af síðasta samúraíanum. Sería þar sem ein heil bók er tekin undir hreint frámunalega dramatískan bardaga, þar sem menn sneiða sundur styttur með sverðum sínum og faðir kennir syni sínum að gerast demón og morðingi með tómt augnaráð.
Fleira svarthvítt og gott eftir sama höfund: Samurai Executioner.

Björn Unnar Valsson, apríl 2009

Björn vinnur í aðalsafni Borgarbókasafns í Tryggvagötu.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál