Ég les

Sigurbjörg Júlíusdóttir mælir með

Harper Lee: To kill a Mocking Bird        
Þessi margverðlaunaða saga er byggð á æskuminningum höfundar. Hún hefur meðal annars fengið Pulitzer verðlaunin og einnig var hún valin ein af bestu skáldsögum síðustu  aldar. Hún hefur verið þýdd á 40-50 tungumál en það er undarlegt að hún hefur aldrei verið þýdd á  íslensku. Sagan gerist í Suðurríkjum Bandaríkjanna í kreppunni og er sögð frá sjónarhóli 9 ára gamallar stúlku. Pabbi hennar er lögfræðingur sem er fenginn til að verja blökkumann sem er ásakaður um að hafa nauðgað hvítri stúlku. Mér finnst þetta  í einu orði sagt frábær bók sem hægt er að lesa  aftur og aftur. Bókin hefur verið kvikmynduð með Gregory Peck í hlutverki lögfræðingsins og fékk hann Óskarsverðlaunin fyrir það hlutverk. Höfundurinn, Harper Lee samdi aðeins þessa einu bók, sem er mjög sérstakt.

Anita Shrive: Light on Snow        
Þessi fallega saga inniheldur endurminningar þrítugrar konu. Þegar hún var tólf ára bjó hún ásamt foreldrum sínum og tveggja ára systur í New York. Mamma hennar og systir láta lífið í bílslysi. Tilvera stúlkunnar, og pabba hennar vitaskuld, hrynur og þau ákveða að byrja nýtt líf úti á landi. Þau flytja í lítinn bæ þar sem þau reyna að aðlagast breyttum aðstæðum. Á hverjum degi fara þau í göngutúr í skóginum nálægt heimili þeirra. Dag einn í desember, í miklum kulda og snjó, heyra þau eitthvert hljóð sem líkist væli í ketti. Þau ganga þá að nýfæddu barni sem hefur verið borið út. Þau bjarga barninu en gera sér alls ekki grein fyrir hvílíkar breytingar það hefur í för með sér fyrir tilveru þeirra. Ég vil ekki segja meira frá efninu en ráðlegg bara öllum að lesa þessa bók. Hún er líka til á hljóðbók og er sérlega vel lesin. 

Sigurbjörg Júlíusdóttir, apríl 2009.

Sigurbjörg vinnur í Gerðubergssafni Borgarbókasafns.

Harper Lee: To Kill a Mocking Bird. Til í ýmsum útgáfum en fyrst gefin út 1960
Anita Shrive: Light on Snow. London: Little Brown 2004

Þú getur fundið bækurnar sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál