Ég les

Hadda Þorsteinsdóttir: Að ferðast en færast ekki úr stað

Uppáhaldsbækur mínar í bernsku voru sögurnar um Ferð Gúllivers til Putalands eftir Jonathan Swift og Odysseifur, hinar ævintýralegu frásagnir Hómers endursagðar við hæfi barna. Ég hef enn mikið dálæti á ferðasögum, bæði sönnum og lognum þótt ég eigi mér ekki lengur neina ákveðna uppáhaldsbók, fremur að ég hafi dálæti á einstökum höfundum sem segja ferðasögur á þann máta að ímyndunarafl mitt virkjast.

Fyrir mér er tilhugsun um ferðalag sem ávísun á ævintýri og ég hef afskaplega gaman af því að undirbúa mig fyrir heimsókn á ókunnar slóðir. Að lesa sér til um sögu og menningu tilheyrir, en best þykir mér að lesa um upplifun annarra á mönnum og málefnum. Hvernig ævintýrum sögumenn lentu í og hvernig þeir brugðust við hinum ýmsu uppákomum. Ferðafrásagnir renna oft saman við endurminningar og maður uppgötvar að það er kannski ekki nauðsynlegt að prófa allt á sjálfum sér til að vita hvernig það er.

Síðan ef að eitthvað kemur upp á og í veg fyrir að hægt sé að fara í sjálft ferðalagið, þá hefur maður þó samt farið.

Góður förunautur minn á ímynduðum ferðum er Historischer Weltatlas eftir Putzger. Þessi gamla og lúna kortabók gefur mér yfirlit yfir mikilvæga sagnfræði og pólitískt samhengi auk aðgangs að þokkalegum kortum. Þó að mér finnist Putzger náttúrulega bestur þá má eflaust nýta sér aðra söguatlasa á sama máta.

Herodot tók saman fyrstu ferðalýsinguna sem vitað er um á 5. öld fyrir Krist. Frá tímum krossferðanna eru þekktar margar sögur um Jórsalaferðir. Ferðasaga Marco Polo til Kína seint á 13. öld hefur löngum vakið forvitni og Íslendingar hafa margir skrifað athyglisverðar  ferðalýsingar. Sem dæmi má nefna Reisubók séra Ólafs Egilssonar þar sem hann lýsir Tyrkjaráninu 1627 og ferð sinni frá Alsír til Danmerkur á fund konungs til að biðja hann um að reiða af hendi lausnargjald fyrir Vestmannaeyinga. Einnig má nefna Jón Indíafara og Árna Magnússon frá Geitastekk sem komst til Kína um 1760.

Af íslenskum ferðalöngum samtímans sem draga upp lifandi mannlífsmyndir og segja skemmtilegar ferðasögur má nefna Jón Björnsson og bækur hans Á Jakobsvegi og Með skör járntjaldsins. Múrinn í Kína eftir Huldar Breiðfjörð  og siglingasögurnar, Kjölfar Kríunnar og Kría siglir um Suðurhöf.

Meðal erlendra ferðabóka má nefna klassíkera eins og Jörð í Afríku eftir Karen Blixen, Sjö ár í Tíbet eftir Harrier og News from Tartary eftir Peter Fleming. Samtímaferðasögur þykir mér samt skemmtilegri og ferðasöguhöfundurinn Paul Theroux er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Hann er forvitinn, fyndinn, athugull og nógu vel lesinn til að virka dómbær á það sem fyrir augu ber. Bók hans, Dark Star Safari  segir af ferð hans frá Kairo til Cape Town og er hreint út sagt frábær skemmtun og fræðandi.

Hadda Þorsteinsdóttir, apríl 2009.

Hadda vinnur í aðalsafni Borgarbókasafns.

Jonathan Swift: Ferðir Gúllivers. Heimdallur, 1930-1941. Ferð Gúllivers til Putalands var einnig gefin út fyrir börn og unglinga hjá Máli og menningu 1990 í þýðingu Guðrúnar Magnúsdóttur.
Henrik Pontoppian: Ódysseifur: Ævintýralegar frásagnir úr Odysseifskviðu Hómers. Steinþór Guðmundsson þýddi. Víkingsútgáfan, 1941
Friedrich Wilhelm Putzger: Historischer Weltatlas. Velhagen & Klasing, 1970
Ólafur Egilsson: Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Almenna bókafélagið, 1969
Jón Björnsson: Á Jakobsvegi. Hugsað upphátt á pílagrímsleiðinni til Santiago de Compostela. Ormstunga, 2002
Jón Björnsson: Með skör járntjaldsins. Hugsað upphátt á rafleiðinni frá Gdansk til Istanbúl. Ormstunga, 2006
Huldar Breiðfjörð: Múrinn í Kína. Bjartur, 2004
Unnur Jökulsdóttir: Kjölfar Kríunnar. Mál og menning, 1989
Unnur Jökulsdóttir: Kría siglir um Suðurhöf. Mál og menning, 1993
Karen Blixen: Jörð í Afríku. Gísli Ásmundsson þýddi. Heimskringla, 1952
Heinrich Harrer: Sjö ár í Tíbet. Bókfellsútgáfan, 1955
Peter Fleming: News from Tartary. Frumútgáfa 1936
Paul Theroux: Dark Star Safari.  Penguin, 2003 (frumútgáfa 2002)

Þú getur fundið bækurnar sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál