Ég les

Sigurbjörg Björnsdóttir

Appelsínustelpan eftir Jostein Gaarder er yndisleg saga um lífið og ástina.  Georg er fimmtán ára strákur sem býr með móður sinni, stjúpa og hálfsystur.  Faðir Georgs dó úr krabbameini þegar hann var fjögurra ára. Hann man því frekar lítið eftir honum. Dag einn þegar hann kemur heim úr skólanum bíða afi hans og amma eftir honum með bréf sem þau fundu í gömlum barnavagni. Bréf þetta er þykkt og það sem meira er þá reynist það vera frá pabba hans. 

Það tekur hann langan tíma að lesa bréfið og hann fer líka að skrifa niður sínar tilfinningar og þannig fléttast saga þeirra feðga saman.  Bókin er stundum ansi tilfinningahlaðin en það skemmir hana ekki.  Þetta er bæði ljúf ástarsaga og umfjöllun um lífið og dauðann sem bíður ógnandi á næsta leiti.   

Drengnum líður mun betur eftir lestur bréfsins og samband hans við móðurina styrkist til muna.  Mér finnst þessi bók virkilega benda okkur á hversu nauðsynlegt það er að vera einlæg og tala saman. Lífið heldur alltaf áfram þó ástvinur hverfi og við verðum að læra að lifa með þeirri reynslu sem á vegi okkar verður. 

Bókin Ilmvötn er ein af bókunum í ritröðinni Hið ljúfa líf. Hún er hvorki stór né þykk en veitir samt ótrúlega miklar upplýsingar um sögu ilmvatnsins.  Hið alþjóðlega orð yfir ilmvatn „perfume” er komið af latneska orðasambandinu per fumum sem þýðir „gegnum reyk” og er það talið benda til þess að ilmandi efnum hafi verið fórnað til að öðlast velþóknun guðanna. 

Í bókinni er minnst á mörg náttúruleg efni sem notuð eru til ilmvatnsgerðar.  Rakin er saga hinna ýmsu ilmvatna og einnig fá hönnuðir smá kynningu. Lesandinn fær einnig að vita hvernig nöfnin urðu til og hvers vegna sum ilmvötn urðu frægari en önnur.  Skemmtilegar sögur liggja oft að baki nafngiftinni. Að lokum bendi ég á að í bókinni er smá kafli um það hvernig best er að velja ilmvatn. Tilvalin bók til að blaða í og fá grundvallarupplýsingar um ilmvötn.

Aðrar bækur í ritröðinni eru:  Súkkulaði. Kaffi, Kampavín, Viskí og Vindlar.

Sigurbjörg Björnsdóttir, apríl 2009.

Sigurbjörg vinnur í Ársafni Borgarbókasafns.

Ilmvötn. Atli Magnússon þýddi. Íslendingasagnaútgáfan 2001
Jostein Gaarder: Appelsínustelpan. Sigrún Árnadóttir þýddi. Mál og menning 2005

Þú getur fundið bækurnar sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál