Ég les

Bjargey Ásdís Arnórsdóttir mælir með nokkrum barnabókum

Eyja gullormsins (2006) eftir Sigrúnu Eldjárn.
Sagan er sú fyrsta í þríleik um ferðir fjögurra barna til jafn margra eyja. Í upphafi lestursins fær lesandinn fyrirboða um að einhverjir krakkar eigi eftir að lenda í erfiðleikum þegar dularfull kona fylgist með þeim á skjá og lýsir því yfir að hún verði að ná þeim. Hún magnar upp seið til að þetta takist. Börnin sem eru fórnarlömb seiðkonunnar hafa ekkert til þess unnið, en hittast fyrir hreina tilviljun á leið sinni niður að Reykjavíkurtjörn til að gefa öndunum brauð. Við tjörnina finna þau bát og róa á honum út í hólma og þar hefst ævintýrið.

Sögupersónurnar Ýmir, Sunna María, Gunna og Tumi eru á ólíkum aldri og eru hvert um sig með sterk persónueinkenni. Sunna María er sérstaklega grallaralegur og opinskár krakki, en fer mikið í taugarnar á eldri bróður sínum Ými, sem er draumlyndur og viðkvæmur unglingur sem teiknar af ástríðu allt sem fyrir augu ber. Gunna bekkjarsystir hans er hinsvegar raunsæ og hefur mjög rökrétta hugsun sem hún notar skipulega þegar vandamálin fara að steðja að. Tumi litli, ungabarnið sem Gunna er að passa, er fyrst og fremst til að flækja málin, því hann er sá sem hin illu öll sækjast eftir í þessu ævintýri. Lýsingar á persónum barnanna eru mjög góðar og Sunna María er alveg stórskemmtileg með dúkkuvagninn og öll uppátækin sín.

Oft hvarflar sú hugsun að lesandanum, þegar lesnar eru barnabækur eftir færa barnabókahöfunda að lesendur sem halda sig aðeins við lestur fullorðinsbóka séu í rauninni að missa af miklu. Þannig finnst mér þessi bók líka vera skemmtileg lesning fyrir fullorðna, en það á líklega við um flestar bækur Sigrúnar Eldjárn.

Frances Hodgson Burnett: Leynigarðurinn (1992)
Leynigarðurinn
veitir skemmtilega sýn inn í annan heim. Hún er full af  dulúð og leyndardómum sem á endanum leysast. Aðalpersónan Mary er spillt og dekruð í byrjun bókarinnar  þegar hún kemur frá Indlandi, þar sem hún hafði haft þjóna til að hugsa um sig, en í sögunni fáum við að fylgjast með henni þroskast í ábyrga stelpu sem hægt er að líta upp til. Persónan Dickon er ein sú eftirminnilegasta, en töfravald hans yfir bæði mönnum og dýrum er heillandi. Hvernig enn önnur persóna, Colin, nær að brjótast undan „fötlun” sinni sýnir okkur að ekkert er ómögulegt svo lengi sem hjartað er á réttum stað. 

Carol  Barton: Ósk einhyrningsins (2009)
Magda Níelsar er hrifin frá ísköldum veruleika þar sem hún verður að þola háðsyrði bekkjarfélaganna um spangir og ljótar freknur og er allt í einu og óvænt orðin þáttakandi í baráttu við sjálfa ísdrottninguna um að bjarga litlum einhyrningi sem á þá einu ósk að fá að komast til mömmu sinnar. Magda hverfur inn í ævintýraheim með heillandi ungum töframanni sem heitir Sebastian og hún gleymir raunum sínum á meðan. Þegar hún er komin til baka í hversdagsleikann aftur fær lesandinn þá tilfinningu að hún sé orðin sterkari og færari um að takast á við skólafélagana.

Bjargey Ásdís Arnórsdóttir, apríl 2009.

Bjargey vinnur í Foldasafni Borgarbókasafns.

Sigrún Eldjárn: Eyja gullormsins. Mál og menning, 2006
Frances Hodgson Burnett: Leynigarðurinn. Jóhanna G. Erlingsson þýddi. Skjaldborg, 1992
Carol Barton: Ósk einhyrningsins. Margrét Tryggvadóttir þýddi. Vaka-Helgafell, 2009


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál