Ég les

Sigurður Jón Ólafsson á fjölmargar uppáhaldsbækurJónas Hallgrímsson: Ritsafn
Ekkert annað ljóðskáld íslenzkt stenzt samjöfnuð við listaskáldið góða, ástmögur þjóðarinnar.

Halldór Laxness: Heimsljós
Heimsljós er einfaldlega áhrifaríkasta skáldsaga HKL, sem ég hefi lesið. Hún fjallar um fátækt, skáldskap, trú – en grunntónn hennar er fegurðin.

Brennu-Njáls saga
Njáls saga er hápunktur íslenzkra miðaldarita. Hún er í senn tragísk og húmorísk, dramatísk og frábæralega vel stílfærð.  Grunntónninn er kristilegur boðskapur.

Grettis saga
Grettis saga er hnitmiðuð saga, sem fjallar um lífsferil einstaklings frá vöggu til grafar. Grettir er tragísk hetja; á honum sannaðist að sitt er hvað gæfa eða gjörfileiki.

Þórbergur Þórðarson: Ofvitinn
Þórbergur er einhver bezti stílisti og ævisagnaritari, sem við höfum átt. Og einstaklega fyndinn. Ofvitinn er feikn skemmtileg bók, sem hægt er að lesa aftur og aftur.

Björn Th. Björnsson: Þingvellir, staðir og leiðir
Enginn staður á Íslandi er mér jafn kær og Þingvellir. Bók Björns Th. er yfirgripsmesta og nákvæmasta lýsing á þessu svæði.

Tryggvi Emilsson: Fátækt fólk
Sjálfsævisögur Tryggva Emilssonar verkamannas vöktu feikna athygli á sínum tíma enda óvenju vel skrifaðar af lítt skólagengnum einstaklingi að vera. Fátækt fólk er fyrsta bókin af þremur.

Thor Vilhjálmsson: Morgunþula í stráum
Thor skrifar gagnmerka og djúphugula skáldsögu sem byggir á ævi Sturlu Sighvatsson, eins helzta forystumanns Sturlunga, einkum suðurgöngu hans. Þessa skáldsögu þarf að lesa með hægð, drekka í sig hvert orð, til að njóta hennar til fulls.

Svava Jakobsdóttir: Gunnlaðar saga
Svava nýtir sér hér goðsögnina um Gunnlöðu, sem geymdi skáldamjöðinn, á afar persónulegan og nýstárlegan máta. Ein bezta íslenzka skáldsaga á seinni hluta síðustu aldar.

Michael Endi: Mómó
Bezta þýdda barnabók, sem ég hefi lesið. Sérstök og eftirminnileg með góðum og skýrum boðskap.

Stefán Jónsson: Óli frá Skuld
Stefán Jónsson kennari var einhver afkastamesti og ritfærasti barnabókahöfundur á öldinni sem leið. Óli frá Skuld er tvímælalaust ein af hans allra beztu sögum.

Páll Skúlason: Í skjóli heimspekinnar
Páll hefur ritað margt um heimspekileg efni og á máli, sem ætti að vera skiljanlegt hverjum lesanda. Hér er að finna margar af hans athyglisverðari greinum.

Þorsteinn frá Hamri: Það talar í trjánum
Þorsteinn er að mínu mati fremsta núlifandi ljóðskáld okkar. Hann hefur sjálfur sagt, að sér þyki vænzt um þessa bók af þeim, sem hann hefur sent frá sér.

Harald Öglænd: Stúfur
Stúfur er ein af þessum klassísku sögu fyrir yngstu lesendur/hlustendur enda hefur hún komið út sex sinnum á íslenzku. Ég hefi líklega verið sex ára, þegar ég kynntist henni fyrst.

Andri Snær Magnason: Draumalandið, sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð
Einhver magnaðasta ádrepa á þá, sem liggja flatir fyrir gróðafíkn erlendra einokunarhringa og einhæfni í orkufrekum iðnaði. Grunntónninn er samt sem áður lofgjörð til íslenzkrar náttúru.

Sigurður Jón Ólafsson, apríl 2009.

Sigurður Jón vinnur í Seljasafni og aðalsafni Borgarbókasafns.

Þú getur fundið bækurnar sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál