Ég les

Erla Kristín Jónasdóttir: Góðar en kannski gleymdar!Verðlaunabækur Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka (þessi verðlaun heita nú Íslensku barnabókaverðlaunin). Sú fyrsta sem valin var úr 45 innsendum handritum var Emil og Skundi eftir Guðmund Ólafsson, spennandi, hjartnæm og á pörtum sorgleg saga um strák sem langar svo mikið í hund, verður að vinna sér inn fyrir honum með blaðasölu, fær síðan ekki að koma með hann heim, flýr til afa norður í landi og lætur engan vita....

Mig langar að vekja athygli á fjórum næstu verðlaunabókunum Franskbrauð með sultu eftir Kristínu Steinsdóttur, Fugl í búri eftir Kristínu Loftsdóttur, Álagadalurinn eftir Heiði Baldursdóttur og Í pokahorninu eftir Karl Helgason. Allar mjög skemmtilegar og hæfa krökkum á aldrinum sjö til ellefu ára.

Sossa sólskinsbarn eftir Magneu frá Kleifum er  skemmtileg  fyrir bæði börn og fullorðna. Hún segir frá lífi lítillar telpu í sveit í upphafi 20. aldar á afar notanlegan hátt. Þrjár aðrar bækur um Sossu eru Sossa litla skessa, Sossa skólastúlka og Sossa sönn hetja en í þeirri síðustu er Sossa orðin ung kona.
 
Ramsor och tramsor om Bill och Bolla (á sænsku) eftir höfund Einars Áskels Gunillu Bergström. Mig hefur alltaf dreymt um að þessi bók yrði þýdd og gefin út á Íslandi. Þetta er yndisleg bók, ljóð um litla fatlaða stúlku og fjölskyldu hennar. Um það hvernig þau upplifa sorgina þegar fötlun hennar uppgötvast og þegar þau átta sig á því að Bolla er jú glöð...
Frábærar teikningar eftir Bergstöm.

Sofias egen bog er frábær. Hún er eftir finnsku skáldkonuna Märta Tikkanen og er um fatlaða dóttur hennar. Bókin er á dönsku en kom upprunalega út á sænsku.

Dagur er eftir norsku skáldkonuna Tordis Örjasæter. Hún fjallar um fatlaðan son hennar. Fljótlesin en lærdómsrík bók.
  
Berin á lynginu kom út árið 1980 hjá merkilegu forlagi, Bjöllunni, sem gaf einnig út fræðibækur fyrir börn en á þessum árum var mikill skortur á slíkum bókum. Berin á lynginu er með stuttum og skemmtilegum ljóðum og sögum frá ýmsum löndum. Bjallan gaf einnig út svipaða bók Gestir í gamla trénu.

Erla Kristín Jónasdóttir, apríl 2009.

Erla vinnur í aðalsafni Borgarbókasafns.

Guðmundur Ólafsson: Emil og Skundi. Vaka-Helgafell 1986
Kristín Steinsdóttir: Franskbrauð með sultu. Vaka-Helgafell 1987
Kristín Loftsdóttir: Fugl í búri. Vaka-Helgafell 1988
Heiður Baldursdóttir: Álagadalurinn. Vaka-Helgafell 1989
Karl Helgason: Í pokahorninu. Vaka-Helgafell 1990
Magnea frá Kleifum: Sossa sólskinsbarn, 1991; Sossa litla skessa, 1995; Sossa skólastúlka, 1997; Sossa sönn hetja, 1998. Allar gefnar út af Máli og menningu
Gunilla Bergström: Ramsor och tramsor om Bill och Bolla. Rabén och Sjögren 1985
Märta Tikkanen: Sofias egen bog. Lindhardt og Ringhof 1982
Tordis Örjasæter: Dagur. Bryndís Víglundsdóttir þýddi. Bjallan 1978
Anine Rud (ritstj.): Berin á lynginu: Ævintýri og ljóð frá ýmsum löndum. Þorsteinn frá Hamri valdi íslenska efnið og þýddi. Bjallan 1980
Anine Rud (ritstj.): Gestir í gamla trénu: Ævintýri og ljóð frá ýmsum löndum. Þorsteinn frá Hamri valdi íslenska efnið og þýddi. Bjallan 1980

Þú getur fundið bækurnar sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál