Ég les

Linda Ólafsdóttir

Þær tvær bækur sem ég ætla aðeins að fjalla um eru báðar um fjársjóði að vissu leyti.
 
Bókin Ríki pabbi, fátæki pabbi fjallar um peninga og hvernig á að afla þeirra á sem skynsamastan hátt. Þetta er saga Roberts T. Kiyosaki, sem er annar höfundur bókarinnar, fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum en er japanskur að uppruna. Á æskuárunum er hann undir miklum áhrifum frá tveimur mönnum, annar er faðir hans en hinn er faðir vinar hans. Faðir Roberts er hámenntaður og í góðri stöðu en rétt nær að láta enda ná saman. Hann á aldrei afgang í lok mánaðar og hann leggur það aldrei í vana sinn að spara til elliáranna eða nokkurs annars. Hann treystir á að hið opinbera muni sjá vel fyrir sér þegar þar að kemur. Þegar hann fer á eftirlaun er hann fátækur maður, að mati Roberts. Hinn pabbinn, aftur á móti, bendir Roberti á hvernig maður byggir upp auð og kennir honum að hugsa um peninga á þann hátt að peningarnir séu þrælar hans en ekki öfugt. Hann átti nokkrar verslanir og nóg af aurum, en bar það ekki endilega með sér þegar Robert var að alast upp.

Robert vill með bókinni kenna okkur eftirfarandi: Þeir ríku vinna ekki fyrir peninga heldur láta peninga vinna fyrir sig; allir ættu að fá þjálfun í fjármálalegu læsi, helst frá barnæsku og stefna að því að stunda eigin viðskipti; best er að vinna til að læra á peninga en ekki fyrir peninga. Bókin kennir manni líka að taka ekki áhættu með fé sem maður má ekki missa, og auðvitað að safna sér fyrir því sem mann langar að kaupa frekar en að taka lán, þó það taki langan tíma. Roberti finnst mjög nauðsynlegt að byrja að kenna börnum í grunnskóla hvernig skuli meðhöndla og hugsa um peninga. Mjög lærdómsrík bók að mínu mati.

Seinni bókin, Síðasti musterisriddarinn eftir Raymond Khoury er sannkölluð spennubók. Í henni eru tvær tengdar sögur. Önnur gerist í nútímanum og fjallar um rán í safni í New York á munum sem eru í láni frá Vatikaninu og til sýnis almenningi. Það athyglisverða er, að ræningjarnir fjórir sem fremja ránið á hestbaki fyrir allra augum, eru klæddir sem Musterisriddarar. Hin sagan er um flótta Musterisriddaranna frá Landinu helga til Parísar í þeim tilgangi að koma til skila bréfi um fjársjóð sem glatast þegar skip þeirra ferst. Aðalsöguhetjurnar í þessari bók eru Tess, fornleifafræðingur sem verður vitni að ráninu, og Reilly, alríkislögreglumaður sem rannsakar það.  Verðmætasti hluturinn sem rænt var úr safninu bendir á staðsetningu raunverulega fjársjóðsins sem leitin stendur að. Hann er sá sami og týndist í skipsskaðanum hjá Musterisriddurunum. Einnig kemur til sögunnar Vance, sem einn fróðasti maður um Musterisriddarana en hann á harma að hefna vegna konu sinnar og dóttur. Þau Tess og Reilly lenda í ýmsum ævintýrum og þurfa að ferðast víða til að hafa upp á fjársjóðnum dularfulla, sem á stundum er ekki alveg á hreinu hvað er.
Góðlegur preláti, De Angelis að nafni, fylgist með rannsókninni, en tekur svo til sinna ráða til að geta sjálfur náð fjársjóðnum og þá er allt leyfilegt í nafni kirkjunnar og til að bjarga hennar mikilfenglegu ímynd.

Þessi bók er í anda Da Vinci lykilsins og Við enda hringsins, þar sem „fjársjóðurinn" í þessari bók á að vera staðfesting á sögninni um Jesú og líf hans og dauða, hans eigin dagbók, skrifuð af honum sjálfum. Spennan er á hverri síðu og alltaf þurfa þau Tess og Reilly að passa sig á vondu köllunum sem er ekki alltaf á hreinu hverjir eru.

Linda Ólafsdóttir, apríl 2009.

Linda vinnur í Gerðubergssafni Borgarbókasafns.

Roberts T. Kiyosaki: Ríki pabbi, fátæki pabbi. Íslenska bókaútgáfan 2001
Raymond Khoury: Síðasti musterisriddarinn. Salka Guðmundsdóttir þýddi. JPV útgáfa 2007

Þú getur fundið bækurnar sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál