Ég les

Þorkell Már Ingólfsson

Bækurnar sem ég mæli með eru allar eftir sama höfund, J.R.R. Tolkien og má alveg líta á þær sem eitt heildarverk. Bækurnar eru Silmerillinn, Hobbitinn og Hringadróttinssaga.
 
Silmerillinn er grundvallarrit fyrir önnur verk Tolkiens. Þar er saga hins sérstaka heims hans rakin frá a til ö. Þarna er greint frá upphafi heimsins eins og hann er í verkum Tolkiens. Þetta er nánast í formi goðsagna enda fannst karlinum enskar goðsögur fátæklegar og ákvað bara að búa til sínar eigin. Hann sækir töluvert í norrænan arf og bætir svo helling við frá eigin hugmyndaflugi. Þarna er greint frá upphafi álfa, manna, dverga, drísla og hobbita ásamt ýmsu fleiru. Frásögnin og allar lýsingar eru svo nákvæmar að nánast er eins og um sagnfræði sé að ræða. Lesandinn dettur gjörsamlega inn í þennan heim og lesturinn veitir virkilega hvíld frá því sem er að gerast í þjóðfélaginu og öðru daglegu amstri.
 
Hobbitinn er létt og hressileg saga sem hentar öllum aldurshópum frá 10 - 12 ára aldri.  Hún greinir frá skemmtilegu og spennandi ferðalagi hobbita nokkurs og 13 dverga en hobbiti er smávaxin mannvera með loðnar lappir og þykkar iljar og þarf því ekki skó. Galdramaðurinn Gandalfur slæst í förina með hléum, aðallega til að redda fjórtánmenningunum út úr alls konar vandræðum. Sagan endar með því að hópurinn lendir í gríðarlegum bardaga eftir ýmsar aðrar raunir eins og glímu við dreka nokkurn, en á endanum stendur hobbitinn uppi lifandi og sterkefnaður ásamt flestum dvergunum.
 
Hringadróttinssaga er frægasta verk Tolkiens. Þetta er stórskemmtileg langloka sem gerist í sama heimi og Hobbitinn. Bókin skiptist í þrjú bindi sem hvert um sig er rit í fullri lengd og vel það. Ekki er verra að hafa lesið Silmerillinn og jafnvel líka Hobbitann áður en Hringadróttinssaga er lesin til að setja sig vel inn í bakgrunn og allar aðstæður. Sagan greinir frá máttarbaug einum sem Sauron nokkur vill komast yfir og beitir til þess ýmsum ráðum. Hann hefur í þjónustu sinni margs konar illþýði en góðir menn, álfar, nokkrir ráðagóðir hobbitar og fleiri gera það sem í þeirra valdi stendur til að hindra áform Saurons. Þetta er sniðuglega fléttað og  endar auðvitað allt saman vel.
 
Það spillir ekki fyrir að bækurnar eru frábærlega þýddar af sama einstaklingi, Þorsteini Thorarensen og þess vegna er ekkert síðra að lesa þær á íslensku en frummálinu sem er enska. Hafi menn ekki fengið nóg eftir að hafa lesið Silmerillinn, Hobbitann og Hringadróttinssögu er til ýmislegt annað á ensku eftir höfundinn. Síðan mætti bendi á bókina Tolkien og hringurinn eftir Ármann Jakobsson og auðvitað kvikmyndirnar þrjár um Hringadróttinssögu.    

Þorkell Már Ingólfsson, apríl 2009.

Þorkell vinnur í Ársafni Borgarbókasafns.  

J.R.R. Tolkien: Silmerillinn. Þorsteinn Thorarensen þýddi. Fjölvi, 1999
J.R.R. Tolkien: Hobbitinn, eða Út og heim aftur. Þorsteinn Thorarensen þýddi. Fjölvi, 2007
J.R.R. Tolkien: Hringadróttinssaga (3 bindi). Þorsteinn Thorarensen þýddi. Fjölvi, 1980
Ármann Jakobsson: Tolkien og hringurinn. Forlagið, 2003

Þú getur fundið verkin sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál