Ég les

Ingibjörg Hafliðadóttir

Eitt af því mikilvægasta í lífinu tel ég að vera í góðu sambandi við barnið í sjálfri mér. Til að svo megi vera verð ég að leggja rækt við þetta samband. Ein aðferðin sem ég nota er að lesa bækur þar sem höfundarnir fjalla um börn og barnæsku, sína eða annarra.

Ég ætla að benda á fjórar af  þeim  bókum sem ég hef mætur á í þessu sambandi.  Kynni mín af þeim eru mismunandi löng, en allar hafa þær hrifið mig hver með sínu móti.

Fyrst ætla ég að nefna bókina sem ég las fyrst af þessum fjórum. Það er bókin 1919 Árið eftir spönsku veikina eftir Jón Dan.  Sagan spannar eitt ár í lífi sögupersónanna og er sögð vera skáldsaga-ástarsaga. Lesandann grunar þó fljótlega að hún eigi sér dýpri rætur í huga höfundar en að um tilbúnar persónur sé að ræða.  Þær standa ljóslifandi í gleði sinni og sorgum og lesandinn á létt með að skynja andrúmsloftið í litlu baðstofunni suður með sjó sem er að mestu sögusviðið.

Næsta bók heitir Drengurinn í Mánaturni eftir Anwar Accawi, í snilldar þýðingu Gyrðis Elíassonar. Þetta er ævisaga höfundar sem er fæddur og uppalinn í Suður-Líbanon. Þarna býður höfundurinn okkur  að fylgjast með sér í  gegnum æsku sína og uppvöxt. Hann lýsir því hvernig þorpið hans breytist úr því að vera algerlega sjálfu sér nægt, einangrað fjallaþorp, í að verða nútímanum að bráð með öllu sem því fylgir og sogast að lokum inn í langvinna styrjöld, sem varð til þess að höfundur varð að flýja land. Sögusviðið er óneitanlega framandi fyrir okkur Íslendinga, en hugrenningar drengsins eru ekki  svo frábrugðnar hugleiðingum þeirrar sem alin var upp á köldum ströndum Íslands. Stíllinn á þessari bók er sérlega skemmtilegur og hispurslaus.

Þá eru það tvær ljóðabækur sem ég glugga gjarnan í. Tek þær inn í skömmtum eins og lýsið og verð álíka gott af, jafnvel betra. 

Fyrri bókin er eftir Þórð Helgason og heitir Þórðarbókin. Hann semur sérstaklega skemmtileg ljóð um barnæsku sína í sveitinni þar sem hann er smám saman að uppgötva leyndarmál lífsins og sagan býr í hverri þúfu. Ljóðin eru bæði lifandi og skemmtileg.

Hin ljóðabókin heitir Sagði mamma og er eftir bandaríska rithöfundinn Hal Sirowitz í þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar. Sirowitz yrkir talsvert óvenjuleg ljóð um samskipti sín við móður sína og hittir oft skemmtilega í mark þegar hann lýsir heilræðum hennar.

Ingibjörg Hafliðadóttir, apríl 2009.

Ingibjörg starfar í aðalsafni Borgarbókasafns

Jón Dan: 1919: Árið eftir spönsku veikina. Keilir 1987
Anwar Accawi: Drengurinn í Mánaturni. Gyrðir Elíasson þýddi. Mál og menning 2001
Þórður Helgason: Þórðarbókin. Ljóðasafn. Nykur 2008
Hal Sirowitz: Sagði mamma. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson þýddi. Dimma 2001

Þú getur fundið bækurnar sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál