Ég les

María Eyþórsdóttir

Rán er fimmta skáldsaga Álfrúnar Gunnlaugsdóttur. Sögusviðið er Genf og Barcelona. Sjónarhornið er Íslendings í útlöndum, konunnar Rán en hún er gift svissneskum manni, Hansjürg og býr í Genf. Rán þarf að fara heim til Íslands vegna erfðamála en maður hennar vill ekki fara með henni og hverfur sporlaust.

Hún ákveður að koma við í Barcelona á leið sinni til Íslands en þar var hún við nám á sínum yngri árum og kynntist stóru ástinni, Roberto. Þetta er á valdatíma Francos, tíma þegar spænskir borgarar þora ekki að gagnrýna stjórnvöld nema í hálfum hljóðum. Lesandinn fær óljósa mynd af því að Roberto sé þátttakandi í stúdentasamkomum sem eru leystar upp og uppreisnarseggirnir teknir til  yfirheyrslu. Þegar Rán verður barnshafandi kemur í ljós að sambandið heldur ekki. Hún fer heim til Íslands og eignast drenginn Val sem hún missir í hendur fjölskyldu sinnar.

Á rölti sínu um götur Barcelona er eins og hún sé að takast á við fortíðina, minningarnar kvikna ein af annari þar til lesandinn fær nokkuð heillega mynd af lífi hennar. Frásagnarhátturinn er ýmist í 1. eða 3 persónu og sýnir persónuna bæði innan og utan frá. Einnig er skipting á milli tímasviða mjög ör svo lesandinn má stundum hafa sig allan við að halda þræðinum.

Ég las þessa bók í leshring með skemmtilegum konum og mæli með henni því hún vekur upp margar spurningar. Hver var t.d. maðurinn sem veitti Rán eftirför um Barcelona og vantaði aðeins ljáinn, að því er Rán fannst?

María Eyþórsdóttir, apríl 2009.

María vinnur í Sólheimasafni Borgarbókasafns.

Álfrún Gunnlaugsdóttir: Rán. Mál og menning, 2008

Þú getur fundið bókina sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál