Ég les

Guðrún Tómasdóttir

Bókin sem ég valdi er ævisaga séra Sigurjóns Einarssonar, Undir Hamrastáli, Uppvaxtar og mannlífsmyndir úr Arnarfirði. Bókin er ein sú besta sem ég hef lesið og kom mér mjög á óvart, eiginlega las ég hana af áfergju, því ekki er hún bara ævisaga Sigurjóns sem gegndi sem prestur á Kirkjubæjarklaustri í áratugi, heldur er þarna sögð örlagasaga tveggja kynslóða fólks sem bjó í Arnarfjarðardölum síðari hluta nítjándu aldar og fram á þá tuttugustu. Jafnframt er bókin aldarfarslýsing, atvinnu-, menningar- og pólitísk saga Íslands á miklum umbrotatímum. Mannlífið í fásinninu út við ysta haf hefur verið ótrúlega fjölbreytt og lýsir skrásetjari því af mikilli næmni, allt frá hugarheimi barnsins sem dáist að frostrósunum til baráttu manna við sjávaröflin. Hvernig fólkið sótti í bóklestur, stundaði sjóböð og  setti upp leikrit, milli þess að unnið var myrkranna á milli. Frásögnin nálgast að vera þjóðfræðileg, híbýlahættir, orðtök, atvinnuhættir, skepnuhald, líf og barátta fólksins fyrir brauðinu.

Í síðari hluta bókarinnar rekur Sigurjón námsárin í M.A., með skondnum lýsingum á kennurum og lífi námsmanna á þessum tíma þegar kreppan er allsráðandi, Akureyrarveikin herjaði og menn gengu með skáldadrauma. Á þeim tíma, um 1950 var kalda stríðið í hámarki og Háskólinn var suðupotturinn, en þangað fór höfundurinn í guðfræðinám sitt, blandaði sér í pólitík og var nærri ofsóttur vegna  skoðana sinna.

Ég las bókina aftur 2 árum eftir frumlesturinn og þótti hún jafn skemmtileg og frábærlega skrifuð. Þetta er bók sem ég mæli eindregið með við  lánþega Borgarbókasafns.

Guðrún Tómasdóttir, apríl 2009

Guðrún vinnur í Sólheimasafni Borgarbókasafns.

Sigurjón Einarsson: Undir hamrastáli. Uppvaxtarsaga og mannlífsmyndir úr Arnarfirði. Mál og menning, 2006.

Þú getur fundið bókina sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál