Ég les

Kristín Viðarsdóttir

Af einhverjum ástæðum komu þónokkrar þýðingar sem tengjast helförinni út hér á síðasta ári. Ég hef lesið þrjár þessara bóka en þær eru Dagbók Hélène Berr, Bókaþjófurinn og Strákurinn í röndóttu náttfötunum.

Tvær þær síðarnefndu eru skáldsögur en sú fyrsta, og að mínu mati áhrifamesta, er raunveruleg dagbók franskrar stúlku af gyðingaættum sem bjó í París en lést í Auswitch rétt áður en bandamenn yfirtóku búðirnar. Bókin var ekki gefin út í Frakklandi fyrr en á síðasta ári, en hún var varðveitt af unnusta Hélène og gefin út af systurdóttur hennar. Dagbókin, sem er skrifuð á árunum 1942 – 1944, er vitnisburður um aðdáunarvert hugrekki og æðruleysi þessarar ungu konu sem var bæði víðsýn og haldin ríkri réttlætiskennd. Hún neitar að beygja sig fyrir kúguninni og þrátt fyrir óbærilegt efnið lokar maður bókinni með ótrúlega jákvæðum huga.

Hélène bjó í París og gekk í Sorbonne. Hún var af vel stæðum gyðingaætttum og allt virðist hafa verið í lukkunnar velstandi í fjölskyldunni fram að hernámi Frakklands. Hún stúderar enskar bókmenntir, spilar á fiðlu, er menntuð og víðsýn og á fullt af vinum. Bókin byrjar sem hefðbundin dagbók þar sem Helene segir frá daglegu lífi, ástarflækjum og pælingum um það sem hún er að lesa, en fljótlega fer stríðið og ofsóknir á hendur gyðingum að spila stærri rullu. Hún hættir að skrifa í nokkra mánuði og það eru greinileg skil í bókinni milli fyrri hluta hennar og þess seinni þegar hún hefur að skrifa aftur 1943. Þá hefur hún tekið ákvörðun um að hún sé að skrifa fyrir lesendur, beinlínis til að skilja eftir sig vitnisburð um það sem á sér stað. Hún er mjög meðvituð um hugsanleg örlög sín og um leið yfirveguð og ótrúlega staðföst í þeirri ákvörðun sinni að láta ekki óttann um eigin örlög ná tökum á sér. Holl lesning sem ég mæli eindregið með. 

Skáldsögurnar tvær eru af alls ólíkum toga, en þær eiga það þó sameiginlegt að geta flokkast hvort sem er sem barna/unglingabækur eða fullorðinsbækur – eða hvort tveggja í senn. Strákurinn í röndóttu náttfötunum eftir Írann John Boyne segir frá Bruno sem er átta ára og býr í Berlín með foreldrum sínum og eldri systur. Einn daginn kemur maður sem Bruno kallar Firringin (Fury á ensku) í heimsókn og í framhaldinu flytur fjölskyldan til „Ásviptis” í Póllandi þar sem pabbi Brunos er gerður að yfirmanni fangabúðanna. Drengurinn veit ekki að þetta eru fangabúðir, enda er honum aldrei sagt neitt, hann kemst t.d. fyrst að því að þau eru að flytja þegar hann sér að verið er að pakka niður í töskur. Hann veit heldur ekkert um ofsóknir á hendur gyðingum, er bara leiður yfir flutningunum og því að skiljast við vinina, líkt og búast má við hjá hverju öðru barni við venjulegar aðstæður. Sagan er sögð frá þessu sjónarhorni barnsins sem ekkert veit, en furðar sig á því sem hann sér á nýja heimilinu – þar er gaddavírsgirðing og hinum megin við hana er fullt af fólki í röndóttum náttfötum sem strákurinn má ekki eiga nein samskipti við. Pabbi hans segir honum að þetta sé í rauninni ekki fólk, en þessi furðulega staðhæfing vekur ekki þau harkalegu viðbrögð barnsins sem maður gæti átt von á. Hann er einangraður í húsi fjölskyldunnar, en einn daginn þegar hann stelst í gönguferð kynnist hann strák sem býr hinum megin við girðinguna og þeir hittast á laun upp frá því. Þeir komast að því að þeir eru fæddir sama dag, hafa báðir þurft að yfirgefa heimili sín og eru núna þarna einir og vinalausir, hvor sínu megin við girðinguna. Bruno laumar mat til stráksins en virðist þó ekki gera sér neina grein fyrir hryllingnum sem vinurinn býr við og strákurinn segir honum aldrei frá því sem á sér stað þótt þeir hittist margoft. Vinátta þessara stráka, sem virðast svo líkir en eru um leið í hrópandi mótsögn hvor við annan er falleg, en samt nokkuð yfirborðskennd – bara það að þeir skuli ekki vera forvitnari um hag hvor annars er ótrúverðugt og það er líka afskaplega erfitt að trúa því og sætta sig við að Bruno sé jafn ótengdur og raun ber vitni, þótt hann sé bara átta ára. Hann virðist ekkert vita um stríðið og raunar alls ekki um neitt nema sinn allra þrengsta hring. Fullorðinn lesandi sem þekkir sögu helfararinnar áttar sig auðvitað strax á því um hvað þetta snýst allt saman og sjónarhornið verður þannig tvöfalt, en barnungur lesandi tekur sjónarhorni Brunos sennilega með minni fyrirvara, allavega til að byrja með. Áhrifamáttur sögunnar er fyrst og fremst fólginn í þessari tvöfeldni, sakleysi barnsins er fallegt og vinátta drengjanna virðist fölskvalaus og sönn, en lesandinn veit um hryllinginn sem býr á bakvið girðinguna og sakleysið verður þannig í senn hættulegt og skilur eftir vægast sagt beiskt bragð í munni. Þótt þetta sé söguleg skáldsaga ber augljóslega að taka hugtakið „söguleg” með nokkrum fyrirvara hér. Sagan endar svo með ósköpum og í þeim lokahnikk kemur í ljós hvernig grimmdin, feluleikurinn og vanþekkingin getur að lokum líka snúist gegn þeim sem valdið hefur.

Í Bókaþjófinum eftir hinn ástralska Markus Zusak er barn líka í miðpunkti en sögumaðurinn er hins vegar dauðinn sjálfur. Þjófurinn er þýska stelpan Lisella sem er níu ára í upphafi sögu, hún er ekki gyðingur en er send í fóstur til fátækrar fjölskyldu í úthverfi München þegar mamma hennar þarf að fara í felur vegna stjórnmálaskoðanna sinna. Sagan segir frá næstu fjórum árum í lífi Lisellu þar sem stríðið færist nær og nær. Fósturfjölskylda hennar felur gyðinginn Max í kjallaranum hjá sér og Lisella tekur ástfóstri við hann og raunar fjölskyldan öll.

Bókin hentar sérstaklega vel fyrir unglinga og unga lesendur. Þrátt fyrir söguefnið er hún á vissan hátt ævintýrarleg og sviðið sem Zusak teiknar upp er mjög myndrænt og er t.d. auðvelt að sjá það fyrir sér í kvikmyndaformi. Hann skapar heim sem er allt að því goðsögulegur, það er ákveðinn töfrablær yfir lífinu þarna mitt í allri eymdinni og fátæktinni. Persónurnar vekja flestar mikla samúð lesandans, og þótt dauðinn sé sögumaður er hann ekki ógnvekjandi heldur finnur hann til með sálunum sem hann þarf að sækja og segir frá lífi þeirra af mikilli samlíðan. Ýmsum gæti virst sem þarna fari safaríkur karakter fyrir lítið, eða möguleikinn á slíkum öllu heldur, en þessi nálgun er í fullu samræmi við stílinn sem jaðrar reyndar við sentímentalisma á köflum, sérstaklega undir lokin. Foreldrar Zukaks fluttust til Ástralíu frá Þýskalandi og Austurríki og það er auðvelt að ímynda sér að hér endurómi að einhverju leyti frásagnir frá gamla landinu.

Samband Lisellu við fósturföðurinn, jafnaldrann Rudy og gyðinginn Max eru fyrirferðamestu söguefnin og svo samband hennar við orð og bækur. Ein eftirminnilegasta mynd sögunnar er sú hvernig Max málar yfir textann í Mein Kampf Hitlers og skrifar þar yfir sína sögu, sem hann síðan gefur Lisellu. Max tekur sér semsagt það vald að skrifa ofaní sögu Hitlers (sem verður þá eins konar uppskafningur) -  hún liggur að vísu sögu Max til grundvallar, en hann skapar sína engu að síður þar ofan á – og það er sú saga sem Lisella (og lesandinn) hefur í höndunum. Og þetta minnir okkur svo aftur á Hélene Berr, sem skrifaði sína sögu fyrir ástvin sinn – og okkur hin.

Það væri svo efni í sérstakan pistil að fjalla um hvernig allar þessar bækur fjalla bæði um þöggun og vald orða - um það hvernig ofbeldi og kúgun þrýfst í skjóli þess að ekki er talað um það sem þó í raun blasir við. Helene Berr gerir þetta að sérstöku umtalsefni í dagbókinni sinni, saga stráksins í röndóttu náttfötunum gengur algjörlega út á þetta, þó þar sé (ótrúlega) skilningsvana barn í aðalhlutverkinu og í Bókaþjófinum er dregin upp mynd af þagnarbandalagi fólks sem óttast um sig og sína nánustu, fetti það fingur út í það sem er að gerast í kringum það.

Kristín Viðarsdóttir, júní 2009.

Markus Zusak:  Bókaþjófurinn. Ísak Harðarson þýddi. JPV útgáfa 2008.
John Boyne: Strákurinn í röndóttu náttfötunum. Áslaug Agnarsdóttir þýddi. Veröld 2008.
Hélene Berr: Dagbók 1942-1944. Ólöf Pétursdóttir þýddi. Salka 2008.

Þú getur fundið bækurnar sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál