Ég les

Gróa Finnsdóttir: Helena HenschenHelena Henschen:
I skuggan av ett brott. Stockholm: Brombergs, 2005
Hon älskade. Stockholm: Brombergs, 2008


Þann 28. september síðastliðinn hlaut sænski rithöfundurinn, Helena Henschen, Evrópsku bókmenntaverðlaunin sem þá voru veitt í fyrsta skipti. Auk hennar hlutu verðlaunin 11 aðrir rithöfundar frá jafnmörgum Evrópulöndum. Verðlaunin hlaut Henschen fyrir bók sína I skuggan av ett brott, en auk þess hefur hún skrifað bókina Hon älskade sem kom út á síðasta ári en báðar þessar bækur teljast til sögulegrar skáldsagnagerðar. Sömuleiðis hefur hún skrifað og myndskreytt barnabækur, en hennar aðalstarf hefur þó verið grafísk hönnun og var hún einn af stofnendum hins þekkta sænska hönnunarfyrirtækis Mah-Jong.

Rithöfundaferill Helenu Henschen er margra hluta vegna óvenjulegur. Eftir að hafa starfað alla tíð við hönnun og myndskreytingar ýmis konar þá gefur hún út sína fyrstu „alvörubók“,  64 ára gömul - og það enga venjulega bók. Með henni opnar hún á ný gáttir að skelfilegu morðmáli sem hvíldi lengi á sænsku þjóðinni, máli þar sem mörgum spurningum var látið ósvarað. Auk þess tekur hún heilmikla persónulega áhættu með skrifum sínum því morðinginn var móðurbróðir hennar sjálfrar, Fredrik von Sydow, og einn hinna myrtu var afi hennar, stjórnmálamaðurinn og formaður Sænska vinnuveitendasambandsins, Hjalmar von Sydow. 

Það tók Henschen fjögur ár að rannsaka þá atburði sem hún síðan skrifar um í bók sinni I skuggan av ett brott því um þá hafði aldrei verið rætt í fjölskyldunni og hún fékk ekki að vita um þá fyrr en af tilviljun við fimmtán ára aldur. Allt frá þeim tíma hvíldi skuggi morðanna yfir henni og fjölskyldunni þangað til hún ákvað að skrifa um þau.

Atburðarásin var í stórum dráttum sú að þann 7. mars 1932 fannst hinn velmegandi yfirstéttarmaður Hjalmar von Sydow myrtur á heimili sínu í miðborg Stokkhólms ásamt tveimur þjónustustúlkum sínum. Höfðu þau öll verið barin til dauða, trúlega með straujárni og voru líkin mjög illa farin. Það var móðir Helenu Henschen, þá aðeins fimmtán ára gömul, sem kom fyrst heim eftir voðaatburðina og mun hún aldrei hafa jafnað sig eftir það áfall. Böndin bárust fljótt að hinum 23ja ára gamla syni von Sydows, Fredrik, og ungri konu hans, Sofie, sem saman áttu litla stúlku. Fredrik hafði stundað nám við Uppsalaháskóla og lifað hátt á góðum dagpeningum frá föður sínum, sem hafði þó hætt greiðslum til hans eftir að hann komst að mikilli áfengisdrykkju og eiturlyfjaneyslu sonarins. Er það talin vera helsta ástæða morðanna og einnig mikil geðræn veila. Við rannsókn málsins kom í ljós að eftir ódæðið höfðu Fredrik og Sofie farið á veitingahúsið Tegnér í Stokkhólmi, komið við hjá klæðskera, í apóteki, á öðru veitingahúsi og í bakaríi. Að því búnu óku þau til Uppsala á veitingahúsið Gillet og snæddu þar um kvöldið ásamt nokkrum vinum. Þar fann lögreglan þau og bað þjónana um að kalla á parið fram í anddyri veitingahússins. Þessi áhrifamikla atburðarás endaði síðan þannig að Fredrik skaut konu sina og síðan sjálfan sig með skammbyssu þarna á veitingahúsinu Gillet i Uppsala.

Þessir atburðir sem vöktu gríðarlega athygli á sínum tíma höfðu skiljanlega mjög djúp áhrif á eftirlifandi fjölskyldumeðlimi og ekki að undra að þau hafi reynt allt til að gleyma þeim. Skugginn hvíldi samt alltaf yfir fjölskyldunni og það var ekki fyrr en Helena Henschen, þá 60 ára gömul, ákveður að fylla upp í þær eyður sem blöðin sögðu ekki frá með því að tala við fólk sem lifði á þessum tíma, rannsaka lögreglu- og réttarskýrslur og kafa djúpt í skjalasöfn til að safna sem ítarlegustum heimildum. Hún las einnig öll persónuleg bréf innan fjölskyldunnar sem hún náði í og smám saman gat hún búið til heilsteypta atburðarás um það sem raunverulega gerðist og þá miklu sálfræðilegu togstreitu og veilu sem að baki morðunum lá. Höfundur hlífir engum þótt allt þetta fólk hafi verið bundið henni fjölskylduböndum, heldur dregur fram á mjög trúverðugan og hófstilltan hátt atferli og daglegt líf þessa unga fólks sem lifði óhömdu lífi hinna ríku yfirstéttar í Svíþjóð millistríðsáranna. Með næmu auga fyrir smáatriðum (t.d. hvernig Sofie hallar til höfðinu um leið og hún dregur að sér reyk sígarettunnar í munnstykkinu...) tekst höfundi að skapa nánast áþreifanlegt andrúmsloft tíðarandans, þar sem léttúð og skeytingarleysi fyrir morgundeginum voru allsráðandi. Einnig er sérstaklega áhugaverð nákvæm lýsing á öllum staðháttum og byggingum í miðborg Stokkhólms á þessum tímum. Þar eru öll fínu veitingahúsin á sínum stað og rétta fólkið, hárrétt klætt samkvæmt tísku samtímans.

Það má einnig skoða bókina út frá sálfræðilegri hlið þar sem leitast er við að svara þeirri spurningu hvað það sé sem fær fólk til að fremja morð. Er það alfarið sök þeirra aðstæðna sem samfélagið skapar einstaklingunum hverju sinni eða eru það erfðafræðilegir þættir sem liggja þar að baki?

Síðari bók Helenu Henschen, Hon älskade, sem ég nefndi hér í upphafi kom út á síðasta ári en er um flest gjörólík þeirri fyrri. Þó leitar Helena hér aftur til fjölskyldu sinnar varðandi efnivið því nú skrifar hún um föðurömmu sína, Signe Thiel, síðar Henschen. Hún var fædd árið 1885 og var dóttir verðbréfasalans Ernest Thiel sem var um hríð ríkasti maður Svíþjóðar.  Signe giftir sig mjög ung og eignast barn innan við tvítugt, en hjónabandið hélt ekki lengi og giftir hún sig í annað sinn lækninum og vísindamanninum Folke Henschen og eignast með honum fimm börn í viðbót. Folke var samt ekki stóra ástin í lífi hennar því það er einmitt hann sem kynnir hana fyrir hinum fræga þýska heilasérfræðingi og vísindamanni Oskar Vogt. Þau verða brátt miklir vinir og elskendur og svo fer að Signe skilur við mann sinn þegar hún er komin á fimmtugsaldur. Oskar, sem var fimmtán árum eldri en Signe skildi hins vegar aldrei við konu sína, Cécile, sem einnig var vísindamaður, en hún vissi vel af ástarsambandi manns síns og Signe.

Þótt þetta gæti hljómað sem þriðja flokks þríhyrningsástarsaga þá fer því fjarri að svo sé. Hér er af nærfærni farið höndum um forboðið ástarsamband sem samfélagið er alla jafna ekki tilbúið að viðurkenna. Bókin fjallar um óvenjulega sterka konu sem sýnir kjark til að standa með tilfinningum sínum og fylgja þeim, hvort sem um ást, heiðarleika eða réttlæti er að ræða. Fyrst brýtur hún gegn vilja fjölskyldunnar með því að giftast bráðung og skilja, giftast aftur - og skilja, og síðan að gerast ástkona kvænts manns í öðru landi. Auk þess tekur hún ung þátt í róttækum fundum kvenréttindakonunnar Ellen Key í Stokkhólmi  og hrífst af málflutningi þeirra sem berjast fyrir auknum réttindum kvenna.

Þegar síðari heimstyrjöldin geisar þá aðstoðar hún gyðinga að flýja til Svíþjóðar og skýtur skjólshúsi yfir þá, jafnframt sem hún fer eins oft og kostur er til síns elskaða Oskars í Þýskalandi sem sjálfur var gyðingur og mikill vísindamaður og rannsakaði meðal annars heila Lenins.

Eftir lát ömmu sinnar árið 1969 fær Helena Henschen í hendur litla kistu úr eigu Signe. Kistan stendur þó óhreyfð um árabil eða þar til Henschen fyrir tilviljun rekst á hana í geymslu sinni á ný. Þar finnur hún fjölda bréfa, minnismiða, ýmsa smáhluti og síðast en ekki síst nákvæmar dagbækur ömmu sinnar og eru þessar merku heimildir grunnurinn að bók hennar Hon älskade. Þar er hins vegar að finna aðeins eitt bréf frá Oskari til hennar, skrifað skömmu fyrir andlát hans árið 1959 en sýnir það ótvírætt hve heitt hann hefur elskað þessa stórbrotnu konu.

Í nákvæmri erfðaskrá sinni skiptir Signe eigum sínum á milli allra sex barna sinna ásamt fyrirmælum um það að á legsteini sínum skuli standa: „Hon älskade“ - Hún elskaði. Það fer þó svo eins og alltof algengt er að börn hennar verða ósátt um arfshluta sinn og hunsa algjörlega fyrirmæli móður sinnar um grafskriftina. Það var því ekki fyrr en Helena Henschen fór að undirbúa ritun bókarinnar um Signe að hún lét setja þessa áletrun á legsteininn og í kjölfarið kom bókin út sem lýsir sterkri ást sterkrar konu sem þorði að feta ótroðnar slóðir bæði hvað ást og réttlæti snerti.

Þótt þessar tvær bækur Helenu Henschen séu afar ólíkar hvað efniviðinn varðar þá er stíllinn svipaður. Með trúverðugleika spinnur hún samtöl og fyllir í eyður sögunnar út frá þeim heimildum sem hún hefur úr að spila þannig að bækurnar mynda hver um sig sannfærandi heild. Smáatriðum er gefinn gaumur, málfarið er fallegt og blæbrigðaríkt og það ríkir einhver hófstillt kyrrð yfir allri frásögninni, hvort sem verið er að lýsa hryllilegum atburðum eða ástríkum samfundum.

Það er mikil nautn að lesa þessar bækur og óskandi að þær fái að koma fyrir augu íslenskra lesenda í þýðingu sem allra fyrst.

Sjá um Helenu Henschen á vef forlagsins Brombergs  sem gefur bækurnar út í Svíþjóð.

Gróa Finnsdóttir, október 2009.

Gróa er fagstjóri Bóka- og heimildasafns Þjóðminjasafns Íslands.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál