Bókmenntaborgin Reykjavík

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO

Reykjavík útnefnd Bókmenntaborg UNESCO
- komin í hóp skapandi borga á heimsvísu

Reykjavíkurborg hefur verið útnefnd ein af Bókmenntaborgum UNESCO. Tilkynning þess efnis barst borgarstjóra og Menningar- og ferðamálasviði borgarinnar þann 4. ágúst 2011.

Í útnefningunni segir meðal annars að Reykjavík státi af framúrskarandi bókmenntahefð í formi ómetanlegra miðaldabókmennta sem varðveittar eru í borginni og eru Íslendingasögurnar, Eddukvæði og Íslendingabók nefnd sérstaklega. Þá segir að þessi rótgróna hefð sýni sig í varðveislu, miðlun, bókmenntakennslu og kynningu bókmennta í dag.  Einnig er tekið til þess að svo fámenn borg sinni bókmenntum af jafn miklum krafti og raun ber vitni, með þátttöku og samvinnu ólíkra aðila sem koma að bókmenningu og miðlun bókmennta, svo sem útgefenda, bókasafna og rithöfunda.

Sem Bókmenntaborg UNESCO mun Reykjavíkurborg, ásamt samstarfsaðilum sínum, renna enn frekari stoðum undir bókmenninguna í borginni, meðal annars með því að koma á fót miðstöð orðlistar í Reykjavík auk þess sem lestrarhvetjandi verkefni og samstarf við skóla mun skipa veglegan sess. Sérstök áhersla verður lögð á að styrkja ímynd Reykjavíkur sem bókmenntaborgar bæði innan lands og utan. Reykjavíkurborg leggur áherslu á góða samvinnu við alla þá mörgu aðila sem koma að bókmenningu í borginni, því Bókmenntaborgin Reykjavík er fyrst og fremst sameign þeirra allra svo og íbúa borgarinnar. 

Reykjavík er fimmta borgin í heiminum til að hljóta þennan titil, en fyrir í samtökum Bókmenntaborga UNESCO eru Edinborg í Skotlandi, Iowa City í Bandaríkjunum, Melbourne í Ástralíu og Dublin á Írlandi.  Reykjavík er því fyrsta borgin utan enska tungumálasvæðisins til að hljóta titilinn, sem er varanlegur að því tilskyldu að borgirnar standi undir skuldbindingum sínum. 

Bókmenntaborgirnar tilheyra svo stærra neti Skapandi borga UNESCO (Creative Cities Network) sem samanstendur af borgum sem leggja áherslu á tónlist, handverk og alþýðulist, kvikmyndir, hönnun, margmiðlunarlist og matargerðarlist, auk bókmenntanna.

Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar hafði veg og vanda að umsóknarferlinu í nánu samstarfi við Bókmenntasjóð Íslands, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Rithöfundasamband Íslands, Borgarbókasafn Reykjavíkur og Menntasvið Reykjavíkurborgar.

Hér má lesa umsókn Reykjavíkurborgar:
Umsóknin á íslensku
Umsóknin á ensku

Hafðu samband: bokmenntaborgin@reykjavik.is

Sjá vef Bókmenntaborgarinnar hér.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál