Eiríkur Örn Norðdahl

Eiríkur Örn Norðdahl fæddist í Reykjavík þann 1. júlí 1978. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1999 og stundaði síðar þýskunám í Berlín árið 2003. Auk ritstarfa hefur Eiríkur fengist við ýmis störf í gegnum tíðina, hann hefur verið leiðbeinandi í grunnskóla, málari í skipasmíðastöð, næturvörður á hóteli, stuðningsfulltrúi á sambýlum, fengist við umönnun aldraðra, káetuþrif á skemmtiferðaskipi og verið kokkur á leikskóla svo sitthvað sé nefnt. Hann er einn stofnmeðlima í Nýhil, útgáfufyrirtæki sem gefur út skáldskap ungra höfunda og stendur að auki fyrir menningarviðburðum þar sem skáldskapur ungra höfunda er í öndvegi.

Á vegum Nýhil hefur Eiríkur tekið þátt í skipulagningu fjölda hátíða og ljóðadagskráa, svo sem Nýhilkvölda í Berlín veturinn 2002 – 2003, Ljóðapartýs Nýhils um Ísland sumarið 2003, The Mugihil Vestfjarðatúrs ásamt tónlistarmanninum Mugison (Örn Elías Guðmundsson) og fjölda annarra Nýhilkvölda í Reykjavík, Berlín og á Ísafirði. Hann var framkvæmdastjóri Alþjóðlegrar ljóðahátíðar Nýhils 2005 sem haldin var í Klink og Bank og Norræna húsinu um verslunarmannahelgina og sömu hátíðar 2006 sem haldin var í Stúdentakjallaranum 10. og 11. nóvember. Fjöldi íslenskra og erlendra skálda tóku þátt í þessum hátíðum. Eiríkur Örn var einnig útgáfustjóri Traktors, undiforlags bókaútgáfunnar Bjarts á Ísafirði, sem skyldi leggja sérstaka áherslu á ferskar og skelmislegar bókmenntir innlendra sem erlendra höfunda.

Fyrsta útgefna bók Eiríks Arnar er ljóðabókin Heilagt stríð – runnið undan rifjum drykkjumanna, sem hann gaf út sjálfur í 50 eintökum árið 2001. Árið áður hafði hann þó sent frá sér þrjár smásögur í jafn mörgum bæklingum. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur á vegum Nýhils, bæði á íslensku og ensku, auk skáldsagna. Ljóð hans hafa líka birst í safnritum og tímaritum á Íslandi og erlendis. Eiríkur Örn er ötull þýðandi og hefur bæði þýtt skáldverk erlendra höfunda á íslensku og verk af öðrum toga. Að auki hefur hann skrifað greinar og pistla um bókmenntir og þjóðfélagsmál fyrir blöð og tímarit og flutti pistla í Speglinum í RÚV sumarið 2005. Meðal annars hefur hann skrifað um bækur fyrir Morgunblaðið, vefsíðuna ljóð.is, tímaritið Mannlíf og Bæjarins besta á Ísafirði og tekið viðtöl fyrir tvö síðastnefndu blöðin.  Hann er einnig afkastamikill bloggari og heldur úti síðunni norddahl.org, auk þess sem hann hefur tekið þátt í bloggi á öðrum síðum, t.d. ljóðavefnum Tíu þúsund tregawött og á vef Nýhil. Á þessum vefjum má lesa ótal pistla eftir Eirík Örn auk ljóða hans og ljóðaþýðinga.

Eiríkur Örn Norðdahl býr í Oulu í Finnlandi.

Forlag: Nýhil / Mál og menning.

Mynd af höfundi: Aino Huovio.


Til baka


Senda Senda Prenta Prenta Senda á FacebookSkipta um leturstærð


Tungumál