Oddný Eir Ævarsdóttir

Blátt blóð: í leit að kátu sæði

Ár: 2015
Staður: Reykjavík
Útgefandi: Bjartur

 Blátt blóð: í leit að kátu sæði 

Um bókina:

Kona leitar að nógu kátu sæði til að frjóvga örvæntingarfull egg, sem fer óðum fækkandi. Hún lætur sig jafnvel dreyma um aðstoð kynskiptings, drykkjurúts eða nasista með blá augu. Eftir misheppnaðar tilraunir endurskoðar hún væntingarnar til móðurhlutverksins í sárri sorg og veikri von.

Úr bókinni:

Gelding

Ástmann minn dreymdi hundinn allar nætur. Samband þeirra var svo fallegt að ég hafði aldrei kynnst öðru eins. Þeir skildu hvor annan. Og ég elskaði líka þennan hund. En þegar hann stækkaði og var orðinn eins og skógarbjörn, pungurinn þrútinn af karlhundarhormónum, nefið iðandi við alla ókunna bletti, þá velti ég því fyrir mér hvort hann myndi opna hjúpinn fyrir barnssálinni eða fylla sjálfur upp í rýmið, vandlega merkjandi sér það með hlandi.

Ég fór með hann út á afgirt opin hundasvæði og þar ógnaði hann hinum hundaeigendunum, þeir voru hræddir um þessa smáhunda sína og ég óskaði þess að til væru sérstök smáhundasvæði. Tvær stelpur í snjóþvegnum gallabuxum öskruðu á mig að ég skyldi snauta áður en smáhundarnir þeirra yrðu að buffi, hvort það væri það sem ég vildi? Ha? Ég reyndi að svara en það kom engin rödd, ég gerði einhverja hreyfingu með hendinni en sneri svo baki við þeim, hljóp grátandi á eftir hundinum.

Svo missti ég takið á honum í næsta göngutúr í hverfinu okkar og hann réðst á annan hund. Þegar ég hugsa til baka finnst mér ég hafa misst takið á lífi mínu um leið og ég missti takið á þessu ástkæra villidýri mínu.

Ég stakk upp á að láta gelda hann. Ég treysti honum til að bíta ekki í manneskjur en hvernig gátu samborgarar mínir treyst því? Ég vildi ekki hræða þá. Einhver gæti til dæmis misst fóstur í hugaræsingi þegar risastór blóðhundur nálgaðist.

Láttu punginn á Ósírisi í friði, sagði minn maður ákveðinn þegar ég stakk aftur upp á geldingu.

Ég hélt þá áfram að reyna að efla með hundinum kvenlegu hliðina, hnoðast í honum og strjúka um pung og lendar, mýkja hann, hundaþjálfarinn sagði að það væri æskilegt þegar um svona hunda væri að ræða, það væri búið að espa upp hráa karlmennsku í genunum heldur lengi.

(27-8)


Til baka


Senda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál