Um þýðinguna
Alice's adventures in Wonderland eftir Lewis Carroll í þýðingu Þórarins Eldjárn. Myndir eftir Anthony Browne.
Þýðingin endurútgefin árið 2017 í breyttri útgáfu, Angústúra: Reykjavík.
Úr Ævintýrum Lísu í Undralandi
Þetta var hvíti kanínukarlinn sem kom lallandi til baka. Hann skimaði áhyggjufullur í kringum sig á leiðinni, eins og hann hefði týnt einhverju; og hún heyrði hann muldra við sjálfan sig: Hertogaynjan! Hertogaynjan! Ó, loppurnar mínar! Ó, við feld minn og kampa! Hún lætur taka mig af lífi, það er jafnvíst og að merðir eru merðir! Hvar í ósköpunum hef ég getað misst þetta? Lísu flaug strax í hug að hann væri að leita að blævængnum og hvítu hönskunum, og byrjaði af hreinum almennilegheitum að gá að þeim, en þessa hluti var hvergi nokkurs staðar að sjá - allt virtist hafa breyst síðan hún synti í pollinum og gangurinn stóri með glerborðinu og litlu dyrunum var gjörsamlega horfinn.
Það leið ekki á löngu þar til kanínan tók eftir Lísu þar sem hún var að skima í allar áttir og hann kallaði reiðilega til hennar: Hverslags er þetta, María Anna, hvað ert þú eiginlega að vilja hér? Hlauptu heim eins hratt og þú getur og sæktu mér hanska og blævæng! Svona, flýttu þér nú! Og Lísa varð svo dauðskelkuð að hún hljóp umsvifalaust þangað sem hann benti, án þess svo mikið sem að reyna að leiðrétta misskilninginn.
s. 27 - 28.