Jump to content
íslenska

Brynjusnúðar og bretónskar pönnukökur

Brynjusnúðar og bretónskar pönnukökur
Author
Guðrún Eva Mínervudóttir
Publisher
Óskráð
Place
Reykjavík
Year
2000
Category
Other

Uppskriftir og minningar tengdar þeim í bókinni Matarsögur: uppskriftir og önnur leyndarmál úr eldhúsum íslenskra kjarnakvenna. Sigrún Sigurðardóttir og Guðrún Pálsdóttir skráðu.

Úr Matarsögum:

Pönnukökur eru undarlegur matur. Þær eru lokkandi og nautnalegar (kannski af því að litur þeirra og mjúk áferð, séu þær vel heppnaðar, minnir svolítið á mannshörundið) og stundum eru þær rammgöldróttar. Einu sinni heimsótti mig ungur maður og hafði meðferðis hveitisekk og poka með eggjum, skinku og allskyns grænmeti. Ég bauð honum auðvitað inn í eldhús og um leið og hann teygði sig í stóra plastskál sagði hann að ef ég elskaði hann ekki þegar ég hefði bragðað á bretónsku pönnukökunum hans þá hlytu allar frekari tilraunir til að vinna hylli mína að vera gagnslausar. Hann hellti slatta af hveiti í skálina, braut tvö egg ofan í, stráði yfir pínulitlu lyftidufti og salti, hellti mjólk saman við og síðan aðeins meiri mjólk þar til soppan var orðin mátulega fljótandi. Á meðan talaði hann um hákarla, hvað þeir væru sígild og fullkomin hönnun. Þá skar hann niður tómata og sveppi, blaðlauk og papriku, opnaði dós með spergli og danskri skinku og reif mjólkurost á rifjárni og fór með nokkrar haustvísur, því þetta var um haust.
Hann sagði að undir fyllinguna í pönnukökunum væri lag að nota tilbúna spaghettísósu, t.d. frá Paul Newman, en að alvöru menn byggju til sósu úr:
tómatkrafti
ólífuolíu
dropa af balsamediki
hvítlauk
og pestósósu, eða basiliku

Hvítlaukurinn er marinn og skorinn í mjög litla bita og allt hrært saman með gaffli. Nú er væn smjörklípa brædd á pönnu og smjörinu hellt saman við soppuna. Þá fer fyrsta ausufyllin á pönnuna og pönnukakan er bökuð þar til hún er gullin á steiktu hliðinni. Því næst er henni snúið við og nú verður að hafa snör handtök að smyrja tómatsósunni á, raða tómatsneiðum, skinku, aspas, sveppum og blaðlauk, dreifa ostinum yfir allt saman og leggja síðan pönnukökuna saman í hálfmána og steikja hana báðum megin þar til osturinn er bráðnaður og deigið gegnsteikt. Það er gott að setja svolítið af góðum smurosti ofan á pönnukökuna og best að borða hana á meðan hún er heit. Þess vegna hentar þessi réttur vel fyrir tvo. Þá er hægt að baka eina pönnuköku í einu og skipta henni á milli (þær eru stórar og matarmiklar), baka síðan aðra og endurtaka leikinn þar til báðir eru mettir.

Pönnukökutælingin gekk upp; við skiptum á milli okkar nokkrum pönnukökum og síðan höfum við skipt hér um bil öllu á milli okkar.

(s. 98-99)

More from this author

Il circo dell arte e del dolore

Read more

The Creator

Read more

Allt með kossi vekur (Wakes the World With a Kiss)

Read more

Rencontres

Read more

Les pieds de la libraire

Read more

Á brún alls fagnaðar: ljóð handa Hrafni (On the Edge of Pure Joy: Poems for Hrafn)

Read more

Á meðan hann horfir á þig ertu María mey (While He Watches You, You are the Virgin Mary)

Read more

Nukentekijä

Read more

Il creatore

Read more