Jump to content
íslenska

Doktor Proktor og prumpuduftið (Doctor Proctor and the Farting-powder)

Doktor Proktor og prumpuduftið (Doctor Proctor and the Farting-powder)
Author
Jo Nesbø
Publisher
Mál og menning
Place
Reykjavík
Year
2008
Category
Icelandic translations

Um þýðinguna

Barnabókin Doktor Proktors prompepulver eftir Jo Nesbø í þýðingu Eiríks Arnar.

Per Dybvig myndskreytti.

Endurútgefin af JPV árið 2015.

Þessi saga byrjar við friðsæla götu í lítilli borg og endar með rosalegum hvelli. Í millitíðinni kynnumst við hinum örsmáa en eitursnjalla Búa, Lísu vinkonu hans og brjálaða prófessornum doktor Proktor. Við sögu koma líka feðgarnir Þröstur, Þrymur og herra Þráinn, eiturslangan Anna Konda og önnur DÝR SEM ÞÚ VILDIR ÓSKA AÐ VÆRU EKKI TIL, metnaðarfullur lúðrasveitarstjóri, Geimferðastofnun Bandaríkjanna og síðast en ekki síst: Heimsins kröftugasta prumpuduft!

Úr Doktor Proktor og prumpuduftið

1. kafli

Nýi nágranninn

Það var í maí og þegar sólin hafði skinið á Japan, Rússland og Svíþjóð um hríð, reis hún upp yfir Osló. Osló er frekar lítil höfuðborg í frekar litlu landi sem nefnist Noregur. Sólin hóf undireins að skjóta geislum sínum á gula, passlega stóra kastalann, en þar býr kóngur sem ákveður ekki svo margt að það skipti neinu máli, og á Akershus-virkið.

Hún skein inn um gömlu fallbyssurnar sem stóðu út yfir Oslófjörðinn, í gegnum gluggann inn á skrifstofu liðsforingjans og á hurðina sem stóð lengst inni á ganginum en hún lá inn í skelfilegasta fangaklefann í öllum bænum, Dauðsmannsgryfjunni, þar sem einungis hættulegustu og verstu glæpamennirnir fengu að dúsa.

Klefinn var tómur, ef undan er skilin ein rattus norvegicus, lítil norsk rotta, sem hafði ákveðið að fá sér morgunbað í klósettskálinni. Sólin reis smám saman hærra á loft og skein á börnin í lúðrasveit grunnskólans sem höfðu æft sig í að fara eldsnemma á fætur, klæða sig í búninga sem klæjaði undan og sem nú æfðu sig í að marsera og spila næstum þvi´í takt. Ástæðan var einföld. Brátt rynni upp þjóðhátíðardagurinn sautjándi maí, og þá áttu allar grunnskólalúðrasveitir í landinu að fara eldsnemma á fætur, klæða sig í búninga sem klæjaði undan og spila næstum því í takt.

Og sólin reis smám saman hærra á loft og skein á trébryggjuna við Oslófjörðinn, þar sem skip nokkurt frá Sjanghæ í Kína hafði rétt í þessu komið í höfn. Það hrikti í dúandi bryggjufjölunum þegar æstir fætur hlupu fram og til baka og skipuðu upp vörum. Sumir sólargeislanna þröngvuðu sér á milli fjalanna og niður að klóakröri sem lá út í sjó undan bryggjunni.

Og einn stakur geisli náði inn í myrkur klóakrörsins svo það glitraði á eitthvað. Eitthvað hvítt, blautt og mjög beitt. Eitthvað sem minnti óþægilega á tanngarð. Og ef maður vissi eitthvað um skriðdýr, en var annars frekar vitlaus, þá gæti maður trúað að þetta væru allar átján höggtennurnar úr heimsins stærstu og hræðilegustu kyrkislöngu. Risaslöngunni anakonda. En svo vitlaus er nú enginn. Því anakondur lifa í frumskógum, í fljótum Amazon-skóganna í Brasilíu, og alls ekki í klóakrörunum sem liggja þvers og kruss undir friðsamlega smábænum Osló. Anakonda í klóakrörinu? Átján metra löng með kyrkingarvöðva, gapandi kjaft á stærð við björgunarhring og tennur eins og rjómaís á hvolfi? Ha ha! Já, sú hefði nú aldeilis tekið sig vel út!

(5-6)

More from this author

Nemesis (Sorgenfri)

Read more

Djöflastjarnan (Marekors)

Read more