Jump to content
íslenska

Kantata (Cantata)

Kantata (Cantata)
Author
Kristín Marja Baldursdóttir
Publisher
JPV-útgáfa
Place
Reykjavík
Year
2012
Category
Novels

Um Kantötu:

Ljósmyndarinn smellir af og örlög ráðast. ekki þar og þá heldur annars staðar og síðar. Myndin af parinu er upphaf alls.

 

Þegar Nanna hugar að gróðrinum sér hún að allt er að fara úr böndum; greinarnar teygja sig upp á veröndina go hún hefur ekki lengur yfirsýn. – Finnur hefur svipaða tilfinningu gagnvart bókhaldi hótelanna; þar er eitthvað sem ekki stemmir. Í stórfjölskyldunni er allt í föstum skorðum og yfirborðið kyrrt. En þegar hægláti útlendingurinn birtist á sviðinu breytist hljómfallið skyndilega og snurða hleypur á annars óaðfinnanlegan þráð ...

 

Úr Kantötu:

 

Hunangsflögurnar tapa sér.

 

Ráðvilltar og stjórnlausar rekast þær óþyrmilega á fiðrildin þegar þær steypa sér niður í sumarblómin á sólpallinum. Í samkvæmið ætla þær sér, ef ekki með góðu þá með illu.

 

Könnurnar tvær á borðinu, önnur með ávaxtasafa, hin með ísköldu hvítvíni, hafa seiðandi aðdráttarafl, húsflugurnar sveima hljóðlaust um til að verða ekki bandað frá, eru háttvísari en hunangsflugurnar, en við grindverkið milli rimlanna bíða köngulærnar átekta, þykjast sofa enda liggur þeim ekkert á, þeirra tími mun koma og það vita þær.

 

En Olli hefur á þeim gætur, hann er í hlutverki aeftirlitsaðiila þegar smákvikindi eru annars vegar. Húsbóndinn á heimilinu hefur veitt honum þá sérstöku upphefð að lofa honum að sitja hjá sér meðan hann grillar og Olla finnst aðþað minnsta sem hann geti gert fyrir hann ís taðinn sé að halda kvikindunum frá matnum. Hann urrar ef hunangsfluga nálgast, lítur svo á Gylfa til að kanna vhort hann hafi ekki tekið eftir árvekni hans. Gylfi klappar honum annað slagið, klórar honum bak við eyrað, segir svona kallinn, en fylgist með fótboltaleiknum sem fram fer á flötinni í garðinum hans, kallar hvatningarorð til barnanna, látið þið nú ekki karluglurnar plata ykkur, svona já, taka þá. Finnur og Hjálmar verjast af miklu kappi, sveittir með opnar skyrtur niður á bringu og uppbrettar ermar, verða að hvíla sig annað veifið og súpa á bjórnum sínum sem þeir hafa lagt frá sér við runnana þar sem ný flugnategund heldur kvöldfund um ástandið.

 

Olli hættir sér ekki út í garðinn meðan á leiknum stendur en hefur ekki heldur lagt í eldhúsið þótt þar geti margt gómsætt fallið af borðum. Fætur Nönnu hreyfast of hratt fyrir hans snerpu og Ingdís er hættulega þungstíg að hans mati. Þær snúast hvor um aðra með pönnur og hnífa, opna ísskápinn og loka honum, setja ýmist inn í hann eða taka út úr honum, hafa lagt öll borð undir grænmeti og ávexti í Caravaggiolitum, ferskhvíta fiskinn og ljósrauða kjötið, og ýta Dúa og Sennu til og frá með mjöðmunum ef þau halla sér óvart upp að borðunum sem þær þurfa að komast að.

 

Dúi er að spá í bolla fyrir Sennu og svo niðursokkin eru þau í örlagaríkri framtíð hennar sem birtist í löngum og stuttum kaffirákum innan í hvíta postulíninu að þau steingleyma verkefninu sem þau sjálf höfðu þó eindregið óskað eftir að leysa, að dekka og skreyta borðið úti á sólpallinum.

 

Gylfi stendur með grilltöngina úti, viðbúinn fyrirskipunum úr eldhúsinu, augnablikinu þegar Nanna kemur út með humarinn á hvítu fati og kinkar kolli sem þýðir að nú megi hann hefjast handa. Grillið er löngu orðið heitt.

 

(97-9)

 

More from this author

Chaos sur la toile

Read more

IL SORRISO DEI GABBIANI

Read more

Karitas uden titel

Read more

Die Eismalerin

Read more

Karitas

Read more

Fra hus til hus

Read more

De lach van de meeuw

Read more

Hinter fremden Türen

Read more

Kühl graut der Morgen

Read more