Úr Ljóðum:
Æska
ég varð bara að hringja
ég gat ekki annað
sagði frú Jónína Guðmundsdóttir
þegar hún hafði tal af blaðinu
síðdegis í gær
þessir óknyttastrákar hér í hverfinu
þeir hafa stolið rófunum
og slitið upp megnið af rabbabaranum
já það er allt horfið úr garðinum mínum
alminlegt fólk er ekki lengur óhult
með eigur sínar hér í bæ
fyrir þessum götulýð.....
tveir strákar
klifruðu yfir grindverkið
og veifuðu tautandi konunni
stuttu síðar
sátu þeir sveittir og hlæjandi
átu rófur
og tuggðu rabbabarann ákafir-
undir vegg dúfnakofans.