Um Lygarann
Í júlí árið 1972 takast Bobby Fischer og Boris Spassky á um heimsmeistaratitilinn í skák í Laugardagshöll. Augu umheimsins eru á íslandi og valdatafl kalda sríðsins er í algleymingi. En þegar lögreglunni berst myrk gáta er ljóst að stríði fer fram annars staðar en á taflborðinu.
Í mars 2011 komast Vera Ragnarsdóttir og félagar hennar í neðanjarðarfréttahópi á snoðir um leka ársins sem varðar hinn dularfulla Eimreiðarhóp, en menn á borð við Davíð Oddsson og Geir H. Haarde tilheyrðu honum. Faðir Veru dregst óvænt í málið og reynist eiga sér leyndarmál frá sumrinu 1972 sem mun breyta tilveru hennar að eilífu.
Úr Lygaranum
Það rigndi látlaust. Bragagata minnti á fljót frekar en götu. Vera steig út úr bílnum en beint ofan í poll.
„Andskotinn,“ muldraði hún og flýtti sér inn í bakhúsið. Allir hinir voru mættir. Það var kaffilykt í loftinu í bland við tóbaksreyk Kára. Vera hristi regndropana úr hárinu og bauð góðan dag.
Kári stóð á fætur. Ekkert þeirra vissi enn hvers vegna hann hafði boðað þau. Í skilaboðunum sem hann hafði sent út snemma í morgun hafði aðeins komið fram að mjög mikilvægt væri að allir kæmu. Þá vissu þau að alvara var í spilinu. Kári leit á armbandsúrið sitt. Klukkuna vantaði nákvæmlega átta mínútur í tvö.
„Okkur bárust önnur skilaboð frá vini okkar í Lundúnum,“ sagði Kári.
„Flautublásaranum,“ skaut Patti inn hæðnislega.
„Og hvað sagði hann?“ spurði Ásta Lilja.
Kári brosti. „Hann lofaði að hringja í dag klukkan tvö. Ég sagði ykkur að hann myndi leysa frá skjóðunni.“ Kári settist við fartölvuna sína og opnaði póstinn frá manninum.
Ásta Lilja gekk yfir til hans og hallaði sér upp að honum. Þótt Kári tæki ekki eftir neinu vissi Vera hvað vakti fyrir henni, nýskilin og aftur komin á markaðinn. Ekki spillti fyrir að Kári var bæði myndarlegur og skemmtilegur.
„Sagði hann eitthvað meira?“ spurði Ásta Lilja og hallaði sér nær svo brjóstin á henni snertu bakið á honum.
„Nei.“ Kári var varla búinn að sleppa orðinu þegar síminn á skrifstofunni fór að hringja. Augu allra leituðu til hans. Hann gekk umsvifalaust að símanum, lyfti upp tólinu og ýtti á speaker.
„Góðan dag,“ sagði Kári.
„Hver er þetta?“ spurði maður á hinum endanum. Hann hljómaði taugaóstyrkur.
„Ég heiti Kári Gústafsson. Við hvern tala ég með leyfi?“
„Engin nöfn,“ sagði maðurinn hranalega.
„Allt í lagi. Það gleður mig að þú skyldir loksins hringja.“
Maðurinn þagði.
„Jæja, ætlarðu að segja mér um hvað þetta allt saman snýst?“
Maðurinn hugsaði sig um. „Þetta snýst um sannleikann,“ svaraði hann skömmu síðar.
„Hvaða sannleika?“
„Sannleikann um allt! Um allt sem gerðist. Um allt sem hefði gerst. Um svikult upphafið og blóðug endalokin,“ útskýrði maðurinn og var mjög mikið niðri fyrir. Erfitt var þó að meta hvort hann var reiður vegna þess sem hann vissi eða hvort hann var hreinlega tæpur á geði.
„Ertu að tala um hrunið?“ spurði Kári varfærnislega.
„Nei, ég er ekki að tala um helvítis hrunið. Ég er að tala um svo miklu meira.“
„Hvað?“
„Hvernig get ég treyst ykkur fyrir þessum upplýsingum?“
„Eins og ég hef margoft sagt þér er ómögulegt að rekja þær aftur til þín með einföldum dulmálskóðum.“
„En allir munu vita að það var ég sem lak þessu. Það kemur enginn annar til greina.“
„Þú myndir ekki trúa því hversu víða upplýsingar leynast. Ég er viss um að fjölmargir aðrir kæmu til greina.“
„Nei, það er bara ég.“
„Hvers vegna segirðu mér ekki um hvað málið snýst?“
Maðurinn blés þungt frá sér. „Ég veit ekki einu sinni hvar ég á að byrja.“
„Hvað með á byrjuninni? Það er yfirleitt best.“
„Ég geri ráð fyrir því að þið hafið heyrt um Eimreiðarhópinn. Þá sérstaklega Vera Ragnarsdóttir. Er hún ekki annars hennþá hluti af þessari sellu ykkar?“
Kári leit undir eins á Veru. Það var svo sem ekkert leyndarmál að hún tilheyrði hópnum, enda nokkuð þekkt nafn á Íslandi sökum skáldsagna sinna, en samt var óþægilegt að heyra manninn nefna hana, því þau höfðu reynt að halda persónum sínum utan við samtökin.
„Jú, það passar,“ svaraði Kári.
„Það er ótrúlegt hversu lítið hefur verið fjallað um hópinn á Íslandi.“
„Hvað viltu segja með því?“
„Ef íslenskir fjölmiðlar stæðu sig væru þeir fyrir löngu búnir að beina kastljósinu að Eimreiðarhópnum og grafa upp sannleikann.“
„Sannleikann um hrunið?“
„Aftur ertu að tala um hrunið. Skilur enginn á þessu helvítis skeri að þetta varðar meira en fjandans hrunið. Sjálfar undirstöður landsins byggjast á ormétinni lygi!“
„Þú hlýtur nú að skilja hvers vegna fátt annað kemst að í huga Íslendinga en hrunið.“
„Nei, en það er líka vegna þess að ég veit hvað hefði getað gerst. Hrunið var það besta sem gat komið fyrir Íslendinga.“
„Hvað áttu við með því?“
„Það stöðvaði geðveikisleg áform Eimreiðarhópsins. Almenningur má þakka fyrir að hrunið skyldi verða haustið 2008. Ári seinna hefði það verið of seint.“
(34-7)