Um bókina
Árið er 1918 og frá Reykjavík má sjá eldgosið í Kötlu mála himininn nótt sem dag. Lífið í höfuðstaðnum gengur sinn vanagang þrátt fyrir náttúruhamfarir, kolasort og styrjöldina úti í hinum stóra heimi. Íslendingar búa sig undir að verða fullvalda þjóð.
Drengurinn Máni Steinn lifir í kvikmyndunum. Sofandi dreymir hann myndirnar í tilbrigðum þar sem vefur atburðanna er slunginn þráðum úr hans eigin lífi. Vakandi hefst hann við á jaðri samfélagsins.
En þá tekur spænska veikin land og leggur þúsundir bæjarbúa á sóttarsæng, sviptir hundruð lífinu. Skuggar tilverunnar dýpka. Í brjósti Mána Steins ólmast svartir vængir. Það súgar milli heima í veröld þar sem líf og dauði, veruleiki og ímyndun, leyndarmál og afhjúpanir vegast á.
Úr Mánasteini
Hún birtist á klettabrúninni líkt og gyðja risin úr dýpstu hafdjúpum, ber við logandi himin litaðan af jarðeldunum í Kötlu, stúlka engum öðrum lík, klædd svörtum leðursamfestingi sem dregur fram allt sem honum er ætlað að hylja, með svarta hanska á höndum, kúptan hjálm á höfði, hlífðargleraugu og svartan trefil fyrir vitum.
Stúlkan dregur niður klútinn, lyftir gleraugunum upp á hjálminn. Varirnar eru rauðar sem blóð. Augun kringd svörtum farða sem lætur púðrað hörundið virðist hvítara en hvítt.
Sólborg Guðbjörnsdóttir, Sóla Guðb-.
Drengurinn hvíslar:
- Ég vissi það!
Og svo nefnir hann tvífara hennar:
- Musidora ...
+
Það er rúmt ár frá því að drengurinn uppgötvaði þessa stúlku. Líkt og örskotsstund hefði honum gefist röntgensjón og hann sá hana eins og hún raunverulega er.
Hann hafði vitað hvað hún hét, hvar hún átti heima, hverja hún umgekkst, hverra manna hún var – þau eru á líkum aldri og í bæ með aðeins fimmtán þúsund íbúa verður ekki hjá því komist að jafnaldrar viti hver af öðrum – en allt var það utan seilingar og ofar þeim skika samfélagsins sem hann tilheyrði. Hann hafði því ekki veitt henni meiri athygli en öðrum af hennar tagi.
Uppgötvunina gerði hann á fyrri laugardagssýningu á Blóðsugunum í Gamla Bíói. Hann sat á sínum venjulega stað og lét fara í taugarnar á sér hvísl og fliss sem barst frá hópi jafnaldra hans í betri sætunum fyrir framan hann. En í því að hann ætlaði að kalla á þau að hafa sig hæg, fólk væri komið til þess að hafa gaman af myndinni en ekki mökunarlátum í betri borgara börnum, þá heyrði hann eina af stúlkunum segja að hún nennti ekki lengur að eyðileggja sýninguna fyrir öðrum.
Og þegar stúlkan stóð upp til þess að fara gerðist það. Augnablikið sem skuggi hennar féll á sýningartjaldið runnu þær saman, hún og persónan í kvikmyndinni. Hún leit við og geislinn varpaði andliti Musidoru á andlit hennar.
Drengurinn fraus í sæti sínu. Þær voru nákvæmlega eins.
+
Þá heyrir drengurinn kallað ofan af klettinum:
- Máni Steinn Karlsson, ég veit að þú ert þarna!
Hann hörfar lengra inn á milli víðirunnanna.
Stúlkan dregur rauðan klút úr vasa á samfestingnum, kastar honum fram af klettinum, fylgist með honum svífa til jarðar. Hún dokar við. En þegar ljóst er að drengurinn gefur sig ekki skellir hún upp úr og snýst á hæli.
Mótorhjólið er ræst og hún ekur á brott.
Drengurinn kemur fram úr fylgsni sínu. Hann tekur upp klútinn, ber hann að vitum sér. Silkimjúkt efnið er enn volgt af líkamshita stúlkunnar og ilmar af kvenlegum sætleika.
- Ó, Sóla Guðb-...
(12-4)