Jump to content
íslenska

Segðu mömmu að mér líði vel (Tell Mom I´m Doing Fine)

Segðu mömmu að mér líði vel (Tell Mom I´m Doing Fine)
Author
Guðmundur Andri Thorsson
Publisher
JPV-útgáfa
Place
Reykjavík
Year
2008
Category
Novels

Um bókina

„Við kysstumst. Svo losaði hún sig mjúklega úr faðminum, brosti til mín og lyfti hendinni í kveðjuskyni áður en hún settist upp í bílinn. Ég man að við horfðumst í augu og ég sagði eitthvað um að ég ætlaði að kaupa bjúgu í kvöldmatinn – eins og ég gerði stundum – hrossabjúgu – og hún gretti sig glaðlega yfir þreyttu gríni og sagðist ekki vita hvort hún kæmi í mat, hún myndi hringja ...“
 
En það dregst að Kata hringi og á meðan fer Einar í göngutúr með Pjatta, rifjar upp sambandið við fröken Suðurlandsbraut og hlakkar til árlegrar veiðiferðar í Hálogaland með gömlum vinum. Hann hugsar um Kötu og son hennar og son sinn, um pabba sinn sem hann hefur búið með alla tíð – drykkfelldan saxófónleikara í Danshljómsveit Binna Frank sem gerði garðinn frægan á árum áður – og um mömmu sína, söngkonu og sveitastúlku frá Hálogalandi, um samofin örlög þessa fólks og lífsins gang ... Allt þar til síminn gellur og ekkert er sem áður.

Úr Segðu mömmu að mér líði vel

Ég ætla að skrifa um Kötu

Ég þarf að segja frá atburðum með skipulegum og skýrum hætti, allt frá því að ég hóf að undirbúa veiðiferðina upp á Hálogaland með þeim Óma og Palla blek og til þess sem fylgdi.

En fyrst ætla ég að skrifa um Kötu.

Ég held að hún finni það daglega djúpt inni í sér að tilveran er alvarleg. Sé eitthvert orð vel til þess fallið að lýsa henni þá er það einmitt orðið. Hún er alvarleg - hún er alvörugefin. Það er orðið sem hún notar sjálf um sig og það er orðið sem hæfir henni. Fólkið í kringum hana gæti hugsanlega viljað hafa orð á því að hún sé með hvítan drengjakoll og sé hæglát eða einræn, bláeyg, grannvaxin, feimin, tónelsk ... En hún sagði mér einu sinni að þegar hún horfi til dæmis á börn eða gamalt fólk þá finni hún alvöru lífsins umlykja sig. Og líka þegar hún hugsar um einhverja bíómynd eða bók sem fjallar um hlutskipti fólks. Hún laðast að alvörunni. Á kvöldin vill hún hlusta á Joni Mitchell og Sandy Denny og sötra hvítvín, lesa, prjóna, horfa á mig, horfa á sjóinn sem sést svo vel út um gluggann hennar, horfa og hugsa. Hún vill sitja við gluggann og hafa golftreyju á herðunum á sér. Hún hefur engan áhuga á því að horfa á Sex and the City og borða kúlusúkk eða hanga í símanum, hún er ekki gefin fyrir að masa. Hún sagði einu sinni við mig að sér fyndist alvaran vera létt og tær í eðli sínu, því hún hefði sterkast fundið til alvöru lífsins á þeim stundum þegar hún hefði fundið til mestrar sælu. Hún átti náttúrulega við það þegar hún eignaðist Halla. Og stundir sínar með Halla. Hún lýsti því fyrir mér með lágri rödd sem varð enn þýðari en venjulega þegar Halli svaf á maganum á henni á meðan húm dormaði í þreytusælunni sem tók við af kvölunum við að koma honum í þennan kalda heim þar sem allt var fjandsamlegt og ankannalegt nema hún og maginn hennar mjúki þar sem hann kannaðist loksins aftur við sig. Hún var hans heima. Ég sé þetta: Þau eru komin aftur heim af fæðingarheimilinu og hún liggur með hann uppi í rúmi og hjalar við hann og strýkur mjúkan og stinnan magann og hann skríkir. Svo líða mánuðir og samt ekki, skyndilega er allt svo hljótt í rökkrinu og hún tekur hann og hagræðir honum í örmum sér og gefur honum brjóst og hann horfir á meðan í augu hennar þessum augum sem eru augun hennar og augun hans ... Og svo líða mánuðir og svo líður ár, vikur líða og mánuðir og samt ekki. Ég finn feginleikann þegar hann hættir að gráta og hún er búin að hugga hann. Ó þá fögru steina. Ég finn hvernig hún var hans heima.

Hún sagði við mig: Þegar Halli var lítill og við vorum tvö þá var allt einhvern veginn létt og bjart en samt alvarlegt. Svo þagnaði hún og beit í vörina og strauk fingrum gegnum snöggklippt hárið sem orðið var hvítt og strítt: Eiginlega ætti ég að nota orðið heilagt, sagði hún. Kannski er það heilaga einmitt alltaf svo einfalt.

---

Svona töluðum við oft saman. Hún sagði mér frá því að þau hefðu bara verið tvö í heiminum og það hefði oft verið kalt úti og dimmt, veðrin hefðu dunið á gluggum og sjálfur ofsinn heimtað að fá að koma inn svo að rúðurnar léku á reiðiskjálfi en það hefði samt verið allt í lagi því að þau hefðu verið tvö inni og allt hitt bara verið úti. Hún sagði honum sögur um dreng sem hét Hrólfur og kunni að breyta sér í alls konar kvikindi og hann sagði henni á móti sögur um dreng sem hét Snjólfur og átti heima í gulu húsi við veginn inn í skóginn. Svo liðu mánuðir og þannig liðu dagar og samt ekki og þau sögðu hvort öðru sögur um Snjólf og Hrólf. Það var allt í lagi þó að veðrið geysaði og hríðarnar dyndu á glugga og ofsinn sjálfur heimtaði að koma inn á meðan mánuðirnir liðu og dagarnir. Stundum skreið Halli um gólfið og nagaði og reif og það var allt í lagi. Þetta var paradís. Þau töluðu saman og allt var alltaf í lagi. Þegar hann vantaði eitthvað stökk hún til og allt var alltaf í lagi.

Alvaran umlukti þau. Einu sinni var strákur sem hét Bjólfur og hann fór út í garð, segir hún.

Hann: Fór hann út í garð?

Hún: Já, og hann fór lengst út í garð.

Hann: Og hvað svo?

Hún: Hann hitti ... (hugsar sig um) hann galdraði (hugsar enn) ... hann galdraði sig ... í blóm. Það var fullt af litlum blómum úti í garði sem voru alls konar á litinn og eitt þeirra var fjólublátt og hann sagði hæ blóm.

Hann: Og svo kom ljót kelling ...

Hún: Var það?

Hann: Já, og hún hét Skrækja.

Hún: Var það? Hét hún Skrækja Skyr?

Hann: Ha ha ha ...

(21-3)

More from this author

Mín káta angist

Read more

Valeyrarvalsinn (The waltz of Valeyri)

Read more

Sæmd (Honor)

Read more

Nach Island

Read more

Afmæli

Read more

Bládjúp

Read more

Ég vildi að ég kynni að dansa (I Wish I Could Dance)

Read more

Íslandsförin (Going to Iceland)

Read more

Íslenski draumurinn (The Icelandic dream)

Read more