Jump to content
íslenska

Skuggarnir (The Shadows)

Skuggarnir (The Shadows)
Author
Stefán Máni
Publisher
Sögur
Place
Reykjavík
Year
2017
Category
Novels

Úr Skuggunum

Pabbi hennar var oftar heima eftir að Lovísa flutti inn en það breytti engu. Það var eins og hann tæki ekki eftir Kolbrúnu. Hann sem hafði stundum faðmað hana að sér eftir langan vinnudag og kallað hana ljósið sitt. Langan vinnudag? Hafði hann þá ekki bara verið einhvers staðar með þessari Lovísu? Kolbrún var afskipt, einmana og afbrýðisöm. Þá sjaldan hún reyndi að nálgast pabba sinn eyðilagði Lovísa það. Pabbi hennar sat kannski í sófanum að horfa á fréttirnar. Þá laumaðist Kolbrún til að setjast við hlið hans, svo hallaði hún sér nær og fann hitann frá honum gegnum fötin. En svo kom Lovísa alltaf á harðaspretti á háu hælunum og tróð sér á milli þeirra. Hún færði pabba hennar heitan kaffibolla, ýtti Kolbrúnu lengra til hliðar, setti svo undir sig fæturna og hjúfraði sig að ástinni sinni.

Og pabbi hennar lét sér þetta vel lynda.

Kolbrún fylltist tómleika, reiði og skömm - hún hataði Lovísu, hún hataði sjálfa sig og hún fór meira að segja að hata hann pabba sinn. Og svo fékk hún samviskubit yfir að hata pabba sinn og hataði þá sjálfa sig enn meira. Ekki þýddi að ræða þetta við Rósu, henni fannst Lovísa svoo falleg og fannst allt svo rómantískt og æðislegt við hana og pabba hennar.

Nokkrum dögum áður en Kolbrún byrjaði í nýja skólanum fylltist Nesið allt af krökkum sem höfðu eytt sumrinu á Flórída, í sumarbúðum eða á siglinga- eða reiðnámskeiðum. Kolbrún eignaðist enga nýja vini því Rósa hélt henni út af fyrir sig eins og nammipoka sem hún vildi ekki deila. Þœr voru sko bestu vinir og þurftu ekki á neinum öðrum að halda - as if!

Mamma hennar hvarf smám saman inn í þunglyndismettað lyfjamók og pabbi hennar var ekki til lengur; Kolbrún bjó heima hjá manni sem hét Hilmar og hafði engan áhuga á rósum, hló tilgerðarlega, fór reglulega í ræktina og spilaði golf öll kvöld og allar helgar með konunni sem hann elskaði.

Hver var þessi maður?

Stundum hugsaði hún um gamla húsið þeirra í Smáíbúðahverfinu en myndin af því dofnaði, varð hægt og bítandi óskýr, upplituð og fjarlæg - eins og æskan. Þess í stað þróuðust dagdraumarnir yfir í fantasíur um framtíðina. Um góða og skilningsríka manninn sem hún myndi eignast, um lífið sem þau myndu skapa sér, um fallega húsið sem myndi einn daginn ramma inn líf þeirra, ást og drauma ...

(108-9)

 

More from this author

Noir océan

Read more

Noir Karma

Read more

Nero oceano

Read more

Húsið

Read more

Feigð (Dying)

Read more

Úlfshjarta (Wolf´s Heart)

Read more

Grimmd (Cruelty)

Read more

Svartur á leik (Black´s Move)

Read more

Neðanjarðarljóð

Read more