Um bókina
Skemmtisaga fyrir lengra komna. Hallgerður og nánustu vinkonur hennar, Melkorka, gift þumbaranum Agli Þormóði, og Þórdís, nýfráskilin og frjáls, leggja mikið upp úr því að vera leiðandi í samkvæmis- og athafnalífi Reykjavíkur. Þegar spyrst að gömul skólasystir þeirra úr MR og tíður gestur breskra glanstímarita, sjálf Stefanía Brown-Huntington, sé skilin við breska jarlinn Matthew og flutt aftur til Íslands, ríður á miklu að vinkvennaklíku Hallgerðar takist að ná henni til sín.
Þannig hefst atburðarás um reykvíska samtíð þar sem grátbroslegar persónur, raunverulegar sem ímyndaðar, mæta galvaskar til leiks.
Úr bókinni
Laufgræn rúða litaði birtuna, eins og úti í skógi, svo dulúðuga slikju lagði yfir andlit Hallgerðar sem saup á Guinness-bjór um leið og hún hreiðraði makindalega um sig í hornsætinu á breskri krá við Ægisíðuna. Aðeins rúðan í horninu var lituð í þessum dumbgræna barlit sem minnti á rigningardag í London, annars blasti við sumardagur úti í góða veðrinu; nokkrir góðlátlegir borgarar sátu úti að snæða fiskiböku og dreypa á kaffi eða drykk - eftir því sem klukkuvísirinn nálgaðist þrjú fjölgaði drykkjunum. Laugardagur í sólskini kallaði á að fólk gerði vel við sig.
Kráin tilheyrði Hallgerði sem hafði síðustu árin fundið æ ríkari köllun hjá sér til að rækta samfélagið eins og garðinn sinn með því að stinga niður vaxtarsprotum og skapa aðstæður fyrir blómlegt mannlíf, atvinnusköpun og félagslega velsæld. Hún hafði uppskorið eins og hún hafði sáð, kráin var dæmi um vel heppnað framtak sem fékk nærumhverfið til að blómstra; einn vinsælasti samkomustaðurinn í Reykjavík þar sem fjölbreyttustu hópar runnu saman í eins konar bræðingssamfélag og fólk úr ólíkum fögum og menningarkimum kom saman til að slaka á, vinna í fartölvu við notalegar aðstæður og gera sér glaðan dag. Þarna gátu setið saman auðkýfingar og unglingar, vinstri sinnað stjórnmálafólk og nýfrjálshyggjukapítalistar, ferðamenn, fjölmiðlafólk, listafólk, frumkvöðlar og gamlar, stundum tipsí, ömmur. Hallgerði, sem var alin upp í litlu þorpi á Austfjörðum, hjá gömlu tegundinni af íhaldsfólki, var borgaraleg ábyrgðarkennd í blóð borin, á þann hátt að hún þurfti stöðugt að finna að hún uppfyllti hlutverk sitt sem skyldi.
Andspænis henni sat Melkorka, æskuvinkona Hallgerðar, og drakk hvítvín, meðvituð um að dreypa á sódavatninu jöfnum höndum á við áfengið. Melkorka trúði því staðfastlega að víndrykkju mætti núlla út með jafn mikilli vatnsdrykkju og Hallgerður þóttist taka mark á því í návist hennar, þó að fyrir sitt leyti hefði hún aldrei heyrt annað eins bjöllusauðarbull. Svona höfðu þær svo oft setið áður að stundin var á einhvern hátt eilíf, núna var alltaf. Þær höfðu ekki um neitt sérstakt að tala, samt erti þögnin Melkorku svo hún sagði: Svo æðislegt veður, þetta verður gott sumar, ég finn það á mér!
Eins gott - miðað við allt sem þarf að láta sig gerast, sagði Hallgerður um leið og lifnaði yfir henni. Þegar Hallgerður sagði þetta fann Melkorka samstundis fyrir spennuþrungnum fiðringi eins og alltaf þegar Hallgerður var með eitthvað í bígerð.
Eins og hvað? spurði hún áköf.
Nú allt þetta vanalega, sagði Hallgerður í fyrstu áfjáð, ekki laust við leyndardómsfull, þó að allt væri svona vanalegt, en svo var eins og dofnaði yfir henni: Endalaust eitthvað sem þarf að sinna. En, þegar þú segir það, kannski er allt við sitt sama. Við þurfum að gera eitthvað nýtt Melkorka!
Ég veit það ekki ennþá, svaraði Hallgerður, mátulega dularfull á svip, eins og hún nyti þess að láta sig dreyma um hið óþekkta. Nýjar áskoranir, ný ævintýri!
(s. 7-9)