Um bókina
Að hálfu horfin er saga þriggja kynslóða litaðra kvenna í Bandaríkjunum, saga af lygum, leyndarmálum og því að tileinka sér sjálfsmynd annars kynþáttar í leit að betra lífi.
Tvíburasysturnar Stella og Desirée alast upp í smáþorpi í Louisiana þar sem allir eru af blönduðum uppruna. Þegar systurnar strjúka að heiman sextán ára gamlar árið 1954 til að freista gæfunnar í New Orleans gera þær sér ljóst að ýmsar dyr geta opnast því fólki sem eru nógu ljóst yfirlitum … svo framarlega sem það tileinkar sér hætti hvítra.
Og þar skilur leiðir: Önnur systirin tekur skrefið yfir í veröld hvíta fólksins og afneitar uppruna sínum en hin flytur að lokum aftur til heimabæjarins. En örlög þeirra fléttast óvænt saman aftur með næstu kynslóð.
Úr bókinni
Hún tók ekki eftir því að rútubílstjórinn fylgdist með henni. Hún tók varla eftir neinum sem starði á hana lengur og ef hún gerði það þá vissi hún nákvæmlega hvers vegna fólk horfði svona.
Hún fór ekki fram há neinum. Dökk á húð, já, en líka hávaxin og grönn, alveg eins og faðir hennar sem hún hafði hvorki séð né heyrt frá í tíu ár. Hún fór annan rólegan hring, reyndi að finna staðinn í snjáðri bókinni með laskaða kilinum. Hún hafði elskað glæpasögur síðan hún var lítil, hún var vön að sitja á veröndinni á meðan kærasti móður hennar þreif byssuna sína og sagði henni frá karlmönnunum sem hann elti uppi.
Seinna virtist þetta undarleg leið fyrir fullorðinn mann og litla stelpu til að tengjast, en hún hafði þegar komist að því að Early Jones var sérkennilegur maður. Hann var ekki faðir hennar, en það næsta sem hún komst því að eiga slíkan. Henni fannst gaman að horfa á hann taka byssuna í sundur og á meðan lét hún spurningarnar dynja á honum. Það var hægt að finna næstum því hvern sem var ef maður var góður lygari, sagði hann. Helmingur veiðanna var að þykjast vera einhver annar en maður var, gamall vinur að leita að heimilisfangi félaga síns, löngu týndur frændi í leit að nýju símanúmeri frænda síns, faðir að spyrjast fyrir um son sinn. Það var alltarf einhver nálægt bráðinni sem hægt var að vinna með. Alltaf gluggi einhvers staðar ef ekki fundust dyr.
„Er það ekki spennandi?“ sagði hann, með tannstöngul í munnvikinu. „Þetta snýst mest um að tala til gamlar konur í símanum.“
Hann lét það að finna týnt fólk hljóma svo auðvelt að einu sinni spurði hún hvort hann gæti leitað að föður hennar. Hann leit ekki á hana, sneri burstanum í byssuhlaupinu.
„Þú vilt ekki að ég leiti að honum,“ sagði hann
„Af hverju ekki?“
„Af því,“ sagði hann. „Hann er ekki góður maður.“
(s. 93-94)