Beint í efni

Ævintýri tvíburanna

Ævintýri tvíburanna
Höfundur
Birgitta Halldórsdóttir
Útgefandi
Töfrakonur
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Barnabækur,
 Unglingabækur

Um bókina

Tvíburarnir, Bjössi og Begga, sem sagan fjallar um eru átta ára og búa norður í Húnavatnshreppi. Einn daginn eignast þau dásamlega ferfætta vini, en næsta dag kemur óvænt illa upp alin tíu ára frænka inn í líf þeirra. Börnin takast á við daglegt líf, óttann við að foreldrar þeirra skilji og endalausar spurningar vakna. Munu þau eignast systkini? Hvers vegna skammar amma afa ekki fyrir að taka í nefið þegar hún er á ferðalagi? Mun Kalli frændi byrja með Rósu, gellunni á mótorhjólinu?

Úr bókinni

Begga og Bjössi læddust hljóðlega inn og stóðu í ganginum fyrir framan eldhúsið. Þau voru með hálfgert samviskubit. Það var ljótt að vera svona hryllilega forvitinn. Þau heyrðu að það var amma sem var að tala. 

  - Ég veit ekki almennilega hvað ég á að gera, Vala mín. Þú manst eftir að ég sagði þér frá að Gummi sonur hennar Þóru systur minnar, er að skilja við konuna sína. Það er allt í vitleysu. Þau eiga tíu ára stelpu, sem heitir Heiðdís og nú vita þau ekkert hvað á að gera við hana. Krakkagreyið varð alveg ómöguleg af öllu þessu rifrildi og látum. Nú er verið að tala um að senda hana á heimili fyrir vandræðabörn. Þóra systir er alveg í öngum sínum. Þetta er nú eina barnabarnið hennar. Hún ætlar að reyna að hafa Heiðdísi hjá sér en getur ekki haft hana næsta mánuð, svo að hún hringdi og bað mig að hafa hana þennan tíma. Ég  veit svei mér ekki hvað ég á að gera. Stelpan er víst óskaplega ódæl og ég veit ekki hvernig áhrif hún hefði á tvíburana.

  Bjössi og Begga störðu hvort á annað. Þau skildu ekki almennilega hvað amma var að tala um nema það, að ef til vill tæki hún einhverja "vandræðastelpu" til sín í heilan mánuð. 

  Mamma var róleg eins og alltaf og sagðist ekki hafa neinar áhyggjur af tvíburunum. Amma yrði að gera það sem hún vildi helst.

  Amma stundi.

  - Já, ég veit það ekki, svei mér þá. Auðvitað vil ég gera systur minni þennan greiða. Það er rétt að tvíburarnir eru svo góðir í sér að það ætti ekki að vera nein hætta á að Heiðdís gæti fengið þau út í einhverja vitleysu.

  - Já, þau eru yndisleg, þó þau séu svolitlir prakkarar stundum, þá er það allt í góðu, sagði mamma.

  Tvíburarnir litu hvor á annan. Þau voru ekki sérstaklega góð að vera að hlera þetta samtal. Mamma og amma ættu bara að vita það. Það var líka óþægilegt að hlusta á einhvern hæla sér.

  Amma hélt áfram að tala.

  - Það er óskaplega leiðinlegt þegar fólk er að skilja. Það hugsar ekki um hvað það gerir börnunum. Þessir krakkaangar verða að hlusta á rifrildi, og svo veit helst enginn hvað á að gera við börnin. Það er ekkert skrýtið þó það sjáist á hegðun þeirra.

  Tvíburarnir röltu út í garð og settust á trébekk sem afi hafði smíðað. Þau sögðu ekki eitt einasta orð. Þessar fréttir hjá ömmu vöktu svo margar spurningar. Þau voru ekkert viss um að þau langaði að fá einhverja stelpu í ömmuhús, einhverja óþekka stelpu. En hún átti auðvitað bágt. Loks rauf Bjössi þögnina. 

  - Heldurðu að mamma og pabbi skilji?

  Begga hrökk við. Hún hafði aldrei hugsað út í það að mamma og pabbi mundu skilja. Það væri hræðilegt.

  - Það má ekki gerast.

(s. 32-33)

Fleira eftir sama höfund

Fótspor hins illa

Lesa meira

Eftirleikur

Lesa meira

Við eigum valið ef við viljum: saga Guðrúnar Óladóttur reikimeistara

Lesa meira

Andlit öfundar

Lesa meira

Dagar hefndarinnar

Lesa meira

Ljósið að handan

Lesa meira

Leyndardómar Reykjavíkur 2000

Lesa meira

Játning

Lesa meira

Renus í hjarta

Lesa meira