Límonaði frá Díafani er nýjasta skáldsaga Elísabetar Jökulsdóttur og kallast umfjöllunarefni bókarinnar á við síðustu tvö verk hennar, Aprílsólarkulda sem kom út árið 2020 og Saknaðarilm sem kom út árið 2022 og hefur nú verið sviðsett á fjölum Þjóðleikhússins. Elísabet rýnir í veigamiklar bernskuminningar í gegnum töfra skáldskaparins. En eins og Límonaði frá Díafani sýnir fram á þá getur verið bæði sárt og erfitt að svipta dulu bernskuljómans af gömlum minningum og komast að því að þetta var ekki bara hunang á brauði og sólarstrendur.
Maginn er mjög góð áfallageymsla en þegar hún er full verður að troða þeim annarstaðar í líkamann. Þá er hann orðinn áfallahöll. (13)
Ella Stína er bara átta ára gömul þegar hún fer um borð í skip sem flytur hana, ásamt fjölskyldu hennar, til Grikklands. Hún tekur lesandann með sér í þessa söltu sjóför sem hún er bæði spennt og kvíðin fyrir. Skipsferðin er eins konar inngangur að umfjöllunarefni bókarinnar og við komumst að því að þessi ferð sé í raun og veru síðasta tilraun foreldra hennar til þess að bjarga hjónabandinu sínu. Það er þó snemma í sögunni sem við fáum að vita að þessi björgunaráætlun gekk ekki og þau skilja. Faðirinn bjó í ævintýraheimi en móðirin veltist um í raunheimum. Við sjáum síðar að faðir hennar var mjög fyrirferðarmikil persóna í lífi barnanna sinna og þrátt fyrir að hafa verið til staðar fyrir þau að þá var hann fjarlægur og hleypti þeim ekki of nærri. Ævintýri geta verið skemmtileg fyrir börn en það getur reynst þeim erfitt ef þau eru notuð til þess að sykurhúða raunveruleikann og fela öll heimsins vandamál.
Pabbi gæddi allt ævintýraljóma en ef ég þurfti að tala við hann var hann ekki til viðtals. (17)
Heimilislífið var oft krefjandi og hún minnist þess að eina leiðin til þess að lifa það af hafi verið að horfa á það sem sýningu; „Það lá við að ég klappaði stundum“ (25). Í Saknaðarilmi kafar Elísabet ofan í samband sitt við móður sína, en hér er fleiri fjölskyldumeðlimum gefið rými. Upplifun hennar af föður sínum skipar eitt stærsta hlutverkið í frásögninni en þó skoðar hún líka samband sitt við bræður sína, þá Illuga og Hrafn. Illugi var hennar helsti bandamaður þótt þau séu ólíkar persónur; Illugi var hlédrægur og nokkuð feiminn en Ella Stína er frökk og sú sem reifst við foreldra þeirra. Hrafni litla lýsir hún svo sem sólargeisla heimsins sem allir hafi viljað baða sig í og að návist hans hafi haft róandi áhrif. Faðir hennar virðist hafa verið ein af aðalpersónunum í lífi hennar, bæði í lífi og dauða. Hún talar um hann sem kló sem lifi í brjósti hennar og það hafi ekki verið fyrr en hún ákvað einn dag að sleppa tökum á klónni sem lífskrafturinn kom aftur.
Hann heyrði oft ekki það sem ég sagði. Hann var annars hugar. Hafði annan huga. (25)
Hefst þá ferðasagan
Þarna frjóvgaðist barnssálin. (37)
Þau byrja á því að stoppa í Kaupmannahöfn þar sem þau kynnast fallegum húsum með perutrjám í görðunum og ókunnugum ættingjum. Þessu lýsir hún sem jákvæðri reynslu og virðist hafa unað sér vel. Næst var ferðinni heitið til Aþenu þar sem opnaðist nýr heimur fyrir þeim systkinum. Töfraheimur fullur af ljósaskiltum, Gyðjuhofum, rúllustigum, betlurum og söluvögnum með giros sem var það ljúffengasta sem Ella Stína hafði smakkað. Þegar hún minnist þessa tímabils talar hún um að hafa upplifað hreinræktaða lífsþrá og að Grikkland hafi skotið djúpum rótum í henni, og hún í Grikklandi.
Rætur fyrir rætur. Næringin býr í rótunum. (35)
Þegar fjölskyldan fer til Rhodos upplifa þau enn aðra veröldina sem er full af splunkunýjum eldingum, ávöxtum, kjöti, fiski, túrkísbláum himni, tréstólum og blóði, sem Ella Stína hafði aldrei áður séð. Hér talar hún aftur um muninn á sér og Illuga, að hann hafi drukkið allt í sig og lært utanbókar en að hún hafi bara verið með áhyggjur af fjölskyldunni. Að hún hafi horft á skjálfandi hendur föður síns og velt fyrir sér hvað það var sem þær þráðu svona mikið. Að hann hafi verið öðruvísi heima á Íslandi en á Grikklandi, þar sem hann starði á sjóinn en gekk ekki um sturlaður með augu sem lýstu þjáningu og firringu. Hún setur erfiðleika föður síns svo í samhengi við sína eigin baráttu við alkóhólisma, sem hún segir að sé eins og að vera læstur inni í litlu rými, sem minnki stanslaust þar til einstaklingurinn lokast þar inni og deyr eða verður geðveikur.
Sjö ára gömul horfði ég á þetta, sá þessa sturluðu skelfingu, þennan horfna pabba sem vissi ekki sitt rjúkandi ráð og það eina sem veitti honum náð var nærvera mín, að hann væri ekki einn, að það væri þarna lítil stúlka sem hann hafði búið til. (41-42)
Minningar frá Díafani
Við komum siglandi til Díafani. Það var dimmt og ekki gott í sjóinn, en stjörnubjart. Stjörnurnar hrundu af himninum og tungl óð í skýjunum. Svo birtist lítil ljósþyrping útúr engu. Verði ljós. (47)
Svo virðist sem Ella Stína hafi upplifað góða tíma í Díafani og eigi þaðan margar góðar minningar. Ein minning virðist þó leita ítrekað á hana; þar er hún lítil stúlka að rannsaka umhverfið, í stuttbuxum hlaupandi um í sólinni. Þar eru mandarínutré með mandarínum sem mátti gæða sér á, ólífutré, heiður himinn og hvítkalkað þorpið umkringt fjalladýrð og bjölluhljómi. En hún minnist líka litlu bænahúsanna sem hún taldi að hlytu að vera kirkjur fyrir börn; þar sem þau gætu dáið, grátið eða bölvað. Að þau hafi verið pláss fyrir sálina og einmanaleikann. Grikkland virðist hafa verið draumi líkast fyrir börnin, en endurminningarnar gefa hinni fullorðnu Ellu Stínu sennilega aðra mynd því að pabbi var afundinn og mamma skammaðist sí og æ. Hún minnist þess að hafa fundist greinilegt að þau systkinin voru fyrir foreldrum sínum. Hún virðist eiga sterkar minningar af barni sem var klætt í skrautleg klæði sem hún og Illugi dáðust að og veltu mikið fyrir sér. Hún lýsir því hvernig barnið hafi svifið um í fangi móður sinnar. Mögulega er þetta barn einhverskonar tákn yfir þá fegurð sem þau upplifðu í Grikklandi, eitthvað til að einbeita sér að í stað þess að hlusta á rifrildi foreldranna.
Þarna kemur barnið, hvísluðum við Illugi hvort að öðru, einsog þetta væri eina barnið í heiminum. (51)
Mylsnuást föðurs
Dæmi um sterka minningu er af henni og föður hennar þar sem þau sitja fyrir utan húsið sitt og brjóta skurnina utan af hnetum. Hún minnist þessa augnabliks sem sólríkri ljúfri stund þar sem faðir hennar kenndi henni tæknina við að brjóta hnetu með múrsteini. Hún talar um að hafa fengið hnetur hjá ömmu og afa en vill þó ekki dvelja við þá frásögn því að ekkert má skyggja á minninguna sem hún á af þessari gæðastund með föður sínum. Það er hér sem Elísabet virðist eiga í ákveðnu uppgjöri við föður sinn heitinn. Hún minnist þess að þau hafi horft á mylsnuna sem kom frá hnetunum og hún hafi talað um „mylsnuást“. Núna, fimmtíu árum síðar, segir hún föður sínum að mylsnuást sé ekki nógu góð. Það nægir ekki að gefa börnunum sínum smábita af ástinni heldur þarf maður að elska þau með hverri einustu örðu sem líkaminn manns inniheldur.
Ég elska þig, pabbi, og fyrirgef þér þótt þú sért svona rosalegur ræfill og innkaupapoki. (52)
Augu barns nema oft ekki raunveruleikann að fullu. Ella Stína upplifir Díafani sem nýjan töfraheim þar sem undrin gerðust og litirnir voru skærari. Síðar fær hún raunsærri mynd af þessum tíma frá móður sinni sem segir henni að þessi tími hafi oft og tíðum verið krefjandi og enginn dans á rósum. Barnsleg einfeldni hennar kristallast svo þegar hún snýr aftur tveimur áratugum síðar þar sem hún býst við að allir taki fagnandi á móti henni því allir myndu eftir hinum goðsagnakenndu verum sem komu frá öðrum menningarheimi. En hún þurfti heldur betur að fríska upp á minni nágranna sinna fyrrverandi til þess að þau gætu grafið upp veika minningu um rauðhærða manninn sem bjó í næsta húsi.
Ég sem hélt að allir í Díafani hefðu verið að hugsa til okkar öll þessi ár. (58)
Næsti áfangastaður fjölskyldunnar er Pigadia. Þar gerir Ella Stína merkilega uppgötvun: ef hún setur einn fótinn fram fyrir hinn að þá kemst hún áfram. En það er einmitt besta leiðin til þess að komast í gegnum erfiða tíma. Hún fer í gönguferð með föður sínum og þau hitta þar bónda. Þau skilja ekki hvort annað en þau feðgin skilja samt að hann er stoltur af akrinum sínum því hann brosir og bros þeirra allra er alþjóðlegt. Faðir Elísabetar, Jökull Jakobsson, skrifaði einmitt bókina Dagbók frá Díafani, en þaðan hefur hún þessa frásögn af bóndanum. Hún man þennan göngutúr hins vegar öðruvísi. Segja mætti að einn tilgangur bókarinnar Límonaði frá Díafani sé að svara bók föður hennar og að sýna fram á að hún, bræður hennar og móðir hafi líka verið þarna. Því að í minningu hennar var pabbi alltaf aðalnúmerið.
Kræsingar minninganna
Hunangið draup af nýbökuðu brauðinu.
Límonaðið.
Eitthvað svo þurrt og ekta.
Einsog töfralím sálarinnar. (51)
Matur er fyrirferðamikið umfjöllunarefni og fá allar þær kræsingar og lostæti sem þau fengu að upplifa í Grikklandi mikið pláss. Af hennar frásögn að dæma hafa þau lifað í vellystingum hunangs, límonaðis og brauðs. Mörgum árum síðar fær hún þó að vita frá móður sinni að það hafi ekki alltaf verið sól í Grikklandi og að þau hafi stundum verið svöng. Oft hafi þau ekki haft pening á milli handanna til þess að fæða börnin sín og að næturkuldinn hafi verið grimmur.
Það er áhugavert að stjórnarbyltingin fær ekki nema nokkrar línur í bókinni en hún nefnir að hermennirnir myndu skjóta alla sem væru úti eftir klukkan átta á kvöldin. Eitt kvöldið hafi foreldrar þeirra ekki verið komin heim fyrir klukkan átta og börnin voru þá sannfærð um að þau hefðu verið myrt. Mestar áhyggjur höfðu þau þó af því hvernig þau kæmust aftur heim til Íslands. Þessi pólitíska bylting virðist ekki hafa skipt hana miklu máli, eina sem hræddi hana var að hún gæti ekki staðið sig í hlutverki umönnunaraðila ef foreldrarnir skyldu falla frá. Hún talar um hringekju á ströndinni sem hafi verið huggun fyrir mannkynið. Hvernig hún gafst aldrei upp og fór hring eftir hring. Setti einn fótinn fram fyrir hinn og hélt áfram, áfram, áfram.
Aldrei gafst hún upp við að fara hring eftir hring, stríð friður stríð friður, þjáningar gleði þjáningar gleði, endalaust, þessi fölskvalausa barnslega gleði, einn hringur til að gleyma foreldrum, einhverntíma yrðum við stór, einhverntíma linnti ánauðinni, einhverntíma gætum við hætt að vorkenna foreldrum okkar, einhverntíma ... (82)
Aftur heim í grámann
Við komum heim í móðuharðindin, draugagang, útburði, drukknandi konur, hálshöggna menn, Heklugos, byggðir sem leggjast í eyði og fólk sem dó úr sulti var á vergangi. (83)
Öll ævintýri þurfa að enda. Fjölskyldan heldur heim til Íslands og þá breytist tónninn í textanum skyndilega og verður ekki jafn bjartur og saklaus. Allt er dapurlegt og drungalegt, nema litli skjaldbökuunginn sem faðir þeirra hafði laumað heim í vasanum sínum. En hann vill ekki salatblöðin sem þau reyna að gefa honum og að lokum veslast hann upp og deyr. Börnin snúa aftur í skólann og eru þar merkilegri en aðrir eftir að hafa farið til útlanda og séð heiminn. Það er ekki lengur giros og hunangsbrauð heldur fiskur í pottinum og svo skilja mamma og pabbi. Sem er mikið áfall fyrir ung börn. Grikklandsferðin verður þó merkilegri fyrir vikið og talar hún um hana sem gimstein bernskunnar.
...svona var hausinn á henni, bjó alltaf til eitthvað hrikalegt, hræðilegt, óafturkræft. (15)
Elísabet snýr aftur til Grikklands tuttugu árum síðar með lítinn farangur og lyklana af húsinu þeirra í Díafani sem þau höfðu alltaf átt. Mögulega gáfu þeir einhverja von um að geta snúið aftur til þessa tíma þar sem sólin skein og þau voru fjölskylda með sítrónutré í garðinum. Hún talar um að þegar hún kemur aftur til Díafani hafi hún verið að ganga aftur inn í fortíðina sem átti eftir að gleypa hana. Þegar hún sér aftur litla bláa húsið þeirra hellist yfir hana sá raunveruleiki að þau fjölskyldan eru ekki þarna. Þau eru farin. Innst inni hefur hún vonast til að geta farið aftur í tímann og upplifað ævintýrið enn á ný. Það er þarna sem hún meðtekur af alvöru að faðir hennar er ekki bara farinn, heldur er hann dáinn.
Þau eru farin og ekki bara farin heldur skil ég nú alltíeinu að pabbi minn er dáinn. Það fer inní merg og bein. Dáinn. Og þá ætla ég að fara að gráta. (89)
Hún stoppar gráturinn þó af. En rétt eins og hún talaði fyrr um að faðir hennar væri kló inn í henni að þá talar hún um að hann sé geymdur í innyflum hennar og að hann hefði sloppið með grátnum hefði hún leyft honum að brjótast út. Með því að bæla niður sorgina finnst henni eins og hún nái enn að hafa hann hjá sér og halda honum föstum í líkama sínum. Faðir hennar hefur líkamlegt tak á henni eftir dauða sinn.
Ég átti ekki líkama minn sjálf, ekki frekar en þegar ég var barn og líkami minn brann af áhyggjum. (90)
Segja mætti að Límonaði frá Díafani sé að einhverju leyti tilraun höfundar til þess að gera upp þetta tímabil í lífi sínu í formi skáldsögu og í leiðinni sættast við föður sinn. Hún ferðast aftur í tíma og rúmi og rífur ofan af gömlum sárum. Grikkland var flótti fjölskyldu sem var að hruni komin en ferðin skildi augljóslega eftir sig ljúfsárar minningar. Við sjáum hér barn reyna að bjarga foreldrum sínum, ganga bræðrum sínum í móðurstað og í raun bera heiminn á herðum sér. Lesandinn fær að fara með henni í ferðalag minninga sem eru baðaðar fallegum ljóma bernskunnar en á sama tíma skín ótti og sorg í gegnum frásögnina. Við sjáum hana bera tilfinningar sínar á borð og segja föður sínum að sú mylsnuást sem hann veitti henni hafi ekki verið nóg, enda eiga börn skilið ást sem fyllir upp í alla þá hunangsböðuðu brauðhleifi sem hafa verið bakaðir. En við fáum líka að vera hluti af því þegar hún gefur honum alla sína ást og fyrirgefningu. Barnið sem las biblíuna, með sínum fiðrildablaðsíðum, úti á rúmsjó og drakk límonaði í Grikklandi sendir hér frá sér fínpússaðar endurminningar af draumkenndum raunveruleika bernskunnar.
Ég vil þakka foreldrum mínum fyrir þá gjöf sem þau færðu mér; nýja liti, nýtt bragð, hita, eðlur, bjölluhljóm og skjaldbökur. (5)
Þóra Sif Guðmundsdóttir, nóvember 2024