Beint í efni

Af ljóðlist og tónlist í bókum fyrir yngstu lesendurna

Af ljóðlist og tónlist í bókum fyrir yngstu lesendurna
Höfundar
Þórarinn Eldjárn,
 Sigrún Eldjárn
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Barnabækur
Af ljóðlist og tónlist í bókum fyrir yngstu lesendurna
Höfundur
Julian Tuwim
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Af ljóðlist og tónlist í bókum fyrir yngstu lesendurna
Höfundar
Hallfríður Ólafsdóttir,
 Þórarinn Már Baldursson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Þórarinn og Sigrún Eldjárn hafa unnið saman að gerð fjölda ljóðabóka fyrir börn þar sem ljóð Þórarins og myndir Sigrúnar eru lesin saman og mynda litríka og lifandi heild. Bæði ljóð og myndir lýsa miklu hugmyndaflugi og sköpunargleði og hin nýútkomna Fuglaþrugl og naflakrafl eftir þau systkinin gefur fyrri bókum þeirra ekkert eftir. Ljóðin þar eru af ýmsum toga, mörg hver stuðluð og rímuð, og má meðal annars finna öfugmælavísur, hetjukvæði, dýravísur og orðaleiki. Myndlýsingarnar við ljóðin eru fullar af lífi og fjöri og eru ekki síður hluti af ljóðunum en textinn. Umfjöllunarefni eru í flestum tilvikum kunnugleg: afi og amma, dýrin í sveitinni og fuglar (eins og titillinn gefur til kynna), þó einnig megi finna ljóð þar sem umfjöllunarefnið er meira framandi, svo sem sjóræningjar, riddarar og ljón. Svo verður auðvitað að minnast á að nokkur ljóðanna fjalla um nafla og eins óvenjulegt og það kann að hljóma þá er það einkennandi fyrir það hvernig lesandanum er reglulega komið á óvart við lesturinn og hvernig því sem hann á von á er snúið á hvolf.

Fuglarnir sem ort er um eru bæði ímyndaðir og raunverulegir. Hér er bæði að finna lýsingu á lundarfari lunda og á naflafugli sem étur naflakusk úr börnum sem liggja í sólbaði í Nauthólsvík. Myndin sem er dregin upp af honum er óvænt, svolítið ógeðsleg og fyndin. Á myndinni sem fylgir ljóðinu má sjá naflafuglinn svífa yfir ströndinni og miða á nafla barns í sólbaði:

Þetta er hvorki þrugl né rugl
þvættingur né sífur:
Í Nauthólsvík býr nytjafugl
sem nafla á krökkum þrífur.

Á ylströndinni bjó sér ból
bæði klár og iðinn.
Leggstu þar í sand og sól
og sólbakaðu kviðinn.

Til þín fuglinn flögrar hratt,
fýsir hann í aflann.
Lækkar flug og lendir bratt,
leitar uppi naflann.

Brýnir gogg og glennir kló,
gottinu í sig treður.
Pillar kusk og losar ló,
lyftir sér og kveður. (bls. 4-5)

Í öllum ljóðunum er stutt í húmorinn og leikur að tungumálinu er áberandi. Í ljóðunum „Íslenskan“ og „Gaggalagó og mö“ er sérstaklega fjallað um tungumálið og lesandanum bent á að haninn segi ekki gaggalagú heldur gaggalagó og kýrin mö frekar en mu. Tungumálið er einnig til umfjöllunar á síðustu síðu bókarinnar en þó á allt annan hátt. Þar er að finna rímleitara, töflu þar sem hægt er að skoða hvaða stafir og hljóð ríma, og það er fróðlegt að fara yfir listann og spá og spekúlera hvað passar og hvað ekki. Eins og fram kemur í lokalínum ljóðsins um rímleitarann er hann „[g]leði- og viskuveitari“ og má með sanni segja að það eigi við um bókina í heild.

Þórarinn Eldjárn hefur einnig verið ötull þýðandi og í ár kemur út þýðing hans á rímaða ævintýrinu Örleifur og hvalurinn eftir pólska ljóðskáldið Julian Tuwim með myndum eftir Bohdan Butenko. Tuwim var þekkt ljóðskáld í heimalandinu og orti bæði fyrir fullorðna og börn. Kvæðið um Örleif og hvalinn er meðal þekktustu ljóða hans en hann var þekktur fyrir orðaleiki og hugmyndaríka nálgun á tungumálið. Bohdan Butenko er samlandi Tuwims og hefur getið sér góðs orðs fyrir myndskreytingar sínar en hann hefur meðal annars myndskreytt fjölda barnabóka og er margverðlaunaður fyrir verk sín.

Í Örleifi og hvalnum er sagt frá hinum agnarsmáa Örleifi sem er á stærð við kaffibaun og á sér þann draum heitastan að berja augum hval. Örleifur smíðar sér bát úr hálfri hnetu, hleður hana alls konar munum sem hann gæti þurft á að halda og fær svo far með fiðrildi niður að sjó. Það er þó ekki hlaupið að því að finna hval og Örleifur siglir um höfin í hnetunni sinni í margar vikur og marga mánuði. Að lokum kemur hann að eyðieyju þar sem hann ætlar að tjalda en viti menn! Eyjan er ekkert annað en hvalur. Örleifi líst ekkert á þennan risa og forðar sér heim hið snarasta.

Það er eitthvað svo einstaklega heillandi við smáa hluti, pínulítinn grammófón sem passar í hnetu, örlítið útvarp og agnarsmáa inniskó. Andstæðurnar við ógnarstórt hafið og við hvalinn eru rosalegar. Hafið er óendanlegt og hvalurinn svo stór við hliðina á Örleifi að hann gæti allt eins verið fast land. Sögur af pínulitlum mannverum hafa ávallt notið vinsælda, samanber ferðir Gúllivers um Putaland, Indíánann í skápnum og Þumalínu (sem er reyndar blómálfur) svo dæmi séu tekin. Kannski undirstrika þessar smáu manneskjur (og blómálfar) smæð okkar í stóra samhenginu og gagnvart umhverfi okkar, þó að við lítum auðvitað ansi stórt á okkur – rétt eins og Örleifur sem lætur risahvalinn ekki slá sig út af laginu nema tímabundið. Honum tekst að gera það sem hann ætlar sér og það er feykinóg til að stæra sig af. Myndirnar sem fylgja sögunni eru einfaldar og heillandi í bláum tónum hafsins, nema hnetan hans Örleifs og húsið hans sem eru gul og Örleifur sjálfur sem er svart-hvítur. Litirnir mynda einnig skarpar andstæður og leggja áherslu á árekstur ólíkra heima, Örleifs annars vegar og hvalsins hins vegar. Þýðing Þórarins er leikandi og lipur. Hrynjandin kallar á að sagan sé lesin upphátt, helst með miklum tilþrifum, og myndirnar sem dregnar eru upp í ljóðinu verða ljóslifandi í huga lesandans.

Maxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson er fjórða bókin um tónelsku músina Maxímús Músíkús. Bækurnar um Maxímús eru liður í því að kynna starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og bjóða lesendum upp á innsýn bæði í starfsemina sem þar fer fram og í heim tónlistarinnar. Maxímús hefur hingað til kynnt sér sinfóníuna sjálfa, tónlistarskóla og ballettskóla en í þetta sinn hittir hann fyrir barnakór í kórferðalagi. Höfundar bókanna starfa báðir við sinfóníuna en Hallfríður er flautuleikari og Ólafur Már víóluleikari.

Aðalhetja sögunnar er sem sagt Maxímús Músíkús, pínulítil mús sem hefur tekið upp búsetu í sinfóníunni. Hann hefur unun af því að fræðast um alla hluti sem þar fara fram. Langafi hans hefur þó kennt honum að það sé langöruggast að láta mannfólk ekki sjá sig og hann reynir eftir bestu getu að vanda sig við að fylgja þeim ráðum. Dag einn þegar Maxímús liggur í sólbaði fær hann löngun til að heimsækja sveitina, eins og þá þar sem hann ólst upp. Hann fær óvænt tækifæri til þess að láta ósk sína rætast þegar hann sér hóp af krökkum sem eru á leið upp í rútu. Þau eru í barnakór og eru að fara í æfingabúðir í sveitina. Maxímús slæst í för með þeim en í sveitinni eru ekki bara beljur og blóm í haga heldur líka kisi sem eltir Maxímús um allt. Eftir mikinn eltingarleik tekst honum þó að hrista kisa af sér og rekst þá á stóran hóp af börnum sem æfa sig að syngja saman í kór. Börnin fara svo út til að njóta náttúrunnar og þá verður Maxímús vitni að rifrildi systkina, sem finnst gaman í sveitinni en eru með heimþrá og Maxímús ákveður að brjóta regluna um að aldrei megi láta mannfólk sjá sig til að hjálpa þeim.

Sagan af Maxímús í kórferðalagi er samtvinnuð tónlist og lögunum sem börnin æfa og flytja síðar á tónleikunum. Í lok sögunnar eru bæði Lagið hans Maxa með nótum og texta og lög sem börnin syngja. Bókinni fylgir einnig geisladiskur með tónlistinni þannig að hægt er að lesa og hlusta og upplifa þannig það sem Maxímús upplifir í sögunni. Sjónarhorn Maxímúsar á söguna er skemmtilegt og svolítið framandi, hann stendur utan við það sem gerist en er samt meiri þátttakandi en kórbörnin grunar. Maxímús Músíkús er sniðug leið til að kynna ýmis klassísk verk og þjóðlög fyrir börnum og vel er vandað til verksins. Fróðleikurinn um hvernig það er að vera í kór er fléttaður inn í söguna og verður eðlilegur hluti af henni og tónlistin sem fylgir gerir umfjöllunarefnið lifandi fyrir lesandanum.

María Bjarkadóttir, desember 2014