Beint í efni

Allar sögustundir eru gæðastundir

Allar sögustundir eru gæðastundir
Höfundur
Sigrún Eldjárn
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Barnabækur
Allar sögustundir eru gæðastundir
Höfundar
Útgefandi
Drápa
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Barnabækur
Allar sögustundir eru gæðastundir
Höfundar
Útgefandi
AM forlag
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Barnabækur
Allar sögustundir eru gæðastundir
Höfundur
Blær Guðmundsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Rut Ragnarsdóttir

Allar sögustundir eru gæðastundir og hérna eru nokkrar vel valdar myndabækur fyrir yngstu börnin sem allar komu út fyrir jólin 2019 og henta vel fyrir slíkar stundir.

Sigurfljóð í grænum hvelli eftir Sigrúnu Eldjárn

Sigrúnu Eldjárn þekkja allir sem unna góðum barnabókum og hér er á ferðinni ein slík fyrir yngstu börnin.

Sigrún hefur sent frá sér fjöldan allan af bókum fyrir börn á öllum aldri og hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir ritstörf sín,  meðal annars Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar, Sögustein – Barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi og fleiri. Einnig hefur hún hlotið tilnefningar til H.C. Andersen verðlaunanna og Norrænu barnabókaverðlaunanna svo eitthvað sé nefnt.

Bókin er sú þriðja í röðinni um ofurhetjuna hana Sigurfljóð sem hefur ofurkrafta, hún getur bæði flogið og er með bæði ofursjón og heyrn. Það sem mestu máli skiptir er að hún líka afar hjálpsöm og það er líklega hennar aðal ofurkraftur. Þessa krafta notar hún til góðs með því að hjálpa bókstaflega öllum sem verða á vegi hennar allt frá plöntum og dýrum til barna í stríðshrjáðum löndum. Sigrún tæklar nokkur mjög mikilvæg þemu í bókunum um Sigurfljóð. Í þeirri fyrstu, Sigurfljóð hjálpar öllum er fjallað um einelti, í annarri bókinni Áfram Sigurfljóð! er fjallað um börn og stríð og núna í Sigurfljóð í grænum hvelli skoðum við afleiðingar loftslagsbreytinga út frá sjónarhóli barnungrar ofurhetju.

Dag einn birtist græn flugeðla í garðinum hjá Sigurfljóð og eðlan þarf svolitla aðstoð við að unga út afkvæmunum sínum en svo fljúga þær saman um heiminn, Sigurfljóð, eðlan græna og allir ungarnir hennar og sjá hversu margir hafa farið illa með jörðina okkar og svo hjálpa þau auðvitað til alls staðar og reyna að fá fullorðna fólkið til hætta að menga jörðina sem er í vanda stödd.

Sigurfljóð í grænum hvelli er falleg saga með fallegan boðskap og myndirnar eins og Sigrún teiknar þær eru dásamlegar og í góðum takti við söguna. Það er gaman að sjá að langflestar persónur í bókunum hennar, sem eru eins fjölbreyttar og þær eru margar, fá allar að vera í Converse skóm!

Krókódílar stranglega bannaðir eftir Heather Pindar

Krókódílar stranglega bannaðir eftir hina bresku Heather Pindar, sem sent hefur frá sér nokkrar barnabækur, en Krókódílar stranglega bannaðir er sú fyrsta sem kemur út á íslensku, og það er Gunnar Helgason sem þýðir. Pindar er barnaskólakennari með áratugareynslu í faginu og sögurnar hennar bera þess merki að hér sé á ferðinni höfundur sem þekkir vel til ímyndunarafls barna og hversu góður innblástur það er. Þessi bók er bráðfyndin en hún fjallar um öll dýrin í frumskóginum og samskipti þeirra.

Sagan hefst á því að Sebra býður öllum dýrunum í afmælisveisluna sína, nema náttúrulega krókódílunum, því eins og allir vita þá eru krókódílar hættuleg rándýr og eru frægir fyrir að borða önnur dýr og því alls ekki óhætt að bjóða þeim í afmælið sitt. (Hérna gefst líka ágætis tækifæri fyrir okkur fullorðna fólkið til að spjalla aðeins við börnin okkar um að það sé nú ekki fallegt að skilja útundan)

En krókódílarnir eru klókir og eru með snjalla áætlun um að laumast í veisluna í dulargervi. Einn klæðir sig upp á sem býfluga, annar dulbýst sem pelikani og sá þriðji skellir sér í blettatígursbúning. Planið er svo að éta alla gestina upp til agna! Dulbúningarnir virka en svo er náttúrulega svo ofboðslega gaman í afmælisveislu með kökum, blöðrum, dansi, hoppuköstulum og flugeldum. Þá getur nú hvaða krókódíll sem er alveg gleymt sér og gleymt að borða alla upp til agna líka. En það er ekki öll von úti enn því Gíraffinn býður í afmælisveislu í næstu viku!

Myndskreytingarnar eru eftir Susan Batori og gefur hún Pindar ekkert eftir hvað hæfileika varðar. Myndir Batori gæða söguna lífi og gera hana enn fyndnari og skemmtilegri fyrir vikið.

Krókódílarnir eru ljúf og fyndin myndabók í passlegri lengd sem háttatímasaga.

Ræningjarnir þrír eftir Tomi Ungerer

Ræningjarnir þrír hafa verið þýddir á hátt í annan tug tungumála og selst í milljónum eintaka á þeim 45 árum sem liðin eru frá fyrstu útgáfu þeirra. Bókin er sígilt meistaraverk og nú er hún loksins komin út á íslensku í þýðingu Sverris Norland. Tomi Ungerer (1931-2019) var franskur rithöfundur og myndskreytir sem sendi frá sér fjöldan allan af bókum fyrir börn og honum hefur verið lýst sem einum hugmyndaríkasta og mikilvirkasta barnabókahöfundi okkar tíma.

Þetta er falleg bók sem kemur á óvart en sagan fjallar um hið góða og hið illa og segir frá því hvernig hið góða getur stundu fengið hið illa í lið með sér. Hún er bæði ógnvekjandi og heillandi í senn.
Eða eins og Ungerer sagði sjálfur einhverntíman: „Illskan er oft frjór jarðvegur fyrir gæskuna, og eins getur hið góða lært eitt og annað af kænsku illskunnar.“

Bókin er um þrjá grimmra, svartklæddra ræningja sem fara um allt rænandi og ruplandi vopnaðir lúðurbyssu, piparblásara og stórri, rauðri öxi. Í einni ránsferðinni hitta þeir svo litla stúlku sem nefnist Torfhildur sem er á leið heim til illa innrættrar frænku sinnar, þar sem hún á framvegis að búa. Það gleður Torfhildi að hitta ræningjana og hún fer með þeim heim í hellinn þeirra,  þar sem þeir geyma allan sinn fjársjóð, heilan haug af gulli og gimsteinum.

Torfhildur spyr hvað ræningjarnir þrír ætla eiginlega gera við öll þessi auðævi sín, en ræningjunum hefur aldrei fyrr hugkvæmst að gera eitt eða neitt við peningana sína. Sem vissulega vekur okkur til umhugsunar um gildi peninga. Brátt hafa ræningjarnir þrír breytt algjörlega um stefnu í lífinu þökk sé Torfhildi og þeir byrja að leita uppi óhamingjusöm og yfirgefin börn og kaupa handa þeim stóran kastala þar sem þau mega öll búa við öryggi hlýju.

Ungerer myndskreytir bókina sjálfur með einföldum myndum sem eru bæði fallegar og smá ógnvekjandi í senn, svona eins og bókin í heild. Ræningjarnir þrír er falleg og stutt saga um kærleik og manngæsku með örlitlu af glæpum og illsku í bland.

Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsippsúrumsipp eftir Blæ Guðmundsdóttur

Einhverjir kannast kannski við gamalt ævintýri með sama nafni en hér kemur bráðskemmtileg endursögn á því. Upprunalega ævintýrið fjallar um þrjár systur sem allar eru prinsessur og heita Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsippsúrumsipp (segðu það þrisvar sinnum hratt!). Í öðru ríki búa svo þrír prinsar, sem heita Skrat, Skratskratarat og Skratskrataratskratskúrumskrat og þau giftast öll hvort öðru. Endir. Þannig hljóðar upprunalega ævintýrið. En í þessari útgáfu eru Sipp og systur hennar ungar prinsessur á framabraut sem hafa engan tíma fyrir prinsa.

Það er mjög skemmtileg jafnréttishugsun í þessari bók þar sem allir geta verið eins og þeir vilja og þurfa ekkert að passa inn í einhverjar staðalímyndir, ein prinsessan er lögga, önnur er uppfinningamaður og sú þriðja er líkamsræktarfrömuður. Svo eru það ekki endilega prinsarnir (listamaður, endurskoðandi og heilsufæðiskokkur) sem bjarga deginum heldur eru allar persónurnar misjafnar og öll hafa þau sína styrkleika. Sagan endar svo ekki á klassískan hátt eftir að brúðkaupin þrjú hafa farið fram eins og oftast í ævintýrum fram heldur fáum við einnig að sjá hvernig lífið heldur áfram að ganga sinn vanagang eftir að þau hafa gift sig. Blær leikur sér skemmtilega með ævintýraformið í bókinni og hristir upp í staðalímyndum kynjanna á mjög fyndinn og skemmtilegan hátt.

Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsippsúrumsipp er nútímaleg saga sem er skrifuð inn í klassískar ævintýraaðstæður. Hún er uppfull af dásamlegum myndskreytingum og húmor af bestu gerð.  Blær myndskreytir bókina líka og það er margt um að vera á hverri síðu og geta myndirnar líka sagt sína eigin sögu án textans, svona eins og góðar myndskreytingar eiga að gera. Þessa bók er hægt að lesa aftur og aftur og alltaf finna eitthvað nýtt í myndunum. Blær teiknar myndirnar líka með okkur fullorðna fólkið í huga þar sem þær höfða ekki eingöngu til barnanna.

Bókinni hefur (réttilega) verið lýst þannig að hún henti öllum frá 5 til 100 ára. Dásamleg bók í jólapakkann og sögustundina!

 

Rut Ragnarsdóttir, desember 2019