Beint í efni

Allir fuglar fljúga í ljósið

Allir fuglar fljúga í ljósið
Höfundur
Auður Jónsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur

um bókina:

Björt er ráfari, er í stopulli íhlaupavinnu en aðallega fer hún á milli staða í Reykjavík, fylgist með fólki og skráir hjá sér athuganir sínar. Hún leigir herbergi í hrörlegu húsnæði með öðru fólki á svipuðum stað í tilverunni, og hefur fastmótað form og rútínu á lífi sínu. Allt er í föstum skorðum – þar til hún sér Ólöfu Brá … og fær í kjölfarið bréf frá henni. Við það riðlast tilveran og lífssaga Bjartar brýst fram; vináttan við Veru, eitruð sambönd við Steingrím og Hálfdán – og smám saman flettist ofan af hinni ótrúlegu og dramatísku ævi hennar.

úr bókinni:

Ég hafði hugsað mér að halda áfram með bréfið til Hálfdáns í dag. En ég er eitthvað svo þung í mér, ég vaknaði þrett. Get ekki skrifað í þessu ástandi. Síðustu daga hef ég ekki skrásett eins reglulega og mér er tamt. Ekkert hefur gengið fyrir sig eins og ég er vön, göngutúrarnir alltof stuttir svo mig verkjar af hreyfingarlesi. Los á öllu.

Ég þarf að fá mér jógúrt áður en klukkan verður of margt, mér hefur ekki einu sinni tekist að halda dagskipan minni í mataræðinu síðustu daga. En ég er ekki svöng, frekar eins og mér sé aftur farið að vaxa í augum að borða. 

Ég þarf að muna að skrifa um stelpuna sem reif í sér hjartað við að eignast barn sem var tekið af henni og vin hennar sem situr með henni. Líka manninn sem opnaði dyrnar fyrir mér og hvarf, en hýsti fyrrverandi AA-ráðgjafann Hennig og Veru. Nóg að gera að glósa þau í bili. Mig langar raunverulega að skrifa um Hennig þegar ég verð betur upplögð, skrifa til að skilja. Í skilningnum býr svörun.

Dánir menn, þó lifandi. Þeir njóta sín í draumi, hana dreymir með þeim, draumarnir njótast. Í hrúgu.

Nálægð. Kannski er betur fyrir henni komið en mér. Í draumi annarra.

Hver dæmir um það?

Er ég kannski að stela draumum því ég á enga sjálf?

Get ekki glósað meira í augnablikinu, hugurinn þarf að róast. Verð að labba meira í dag! Ég er að missa tökin, túlkunin alveg stjórnlaus ... Hver er nú að banka? Hvað nú?

Sandra starir á mig, í hvítum náttkjól með hendur í kross eins og hún vilji halda utan um sig. Varirnar ögn opnar. Lokkaflóðið flæðir niður á upphandleggina og aðeins útstæða bringuna, toppurinn slúttir yfir augun sem eru ekki lengur ágeng, heldur vanmáttug.

Má ég vera hjá þér? spyr hún holri röddu.

Auðvitað, komdu, segi ég.

Þá kastar hún sér á mig og þrýstir mér að sér af svo mikilli ákefð að ég finn líkamann þrýstast að mér, beinin stingast í mig og hitinn smýgur í gegnum efnið og inn í húðina. Ef ég væri karlmaður risi mér hold. Meðvitund um kynferðislega nálægð frystir mig. Lyktin af henni þrengir sér inn í vitin, ég finn lyktina af kynlífi annarra, sætramma, svita hennar gerjaðan í svita hans.

Viltu setjas, styn ég.

Takk, I love you! segir hún og hlammar sér á rúmiðmitt. Situr stíf með höfuðið aðeins á ská og horfir á mig með eftirvæntingu, líkt og hún bíði fyrirmæla. Ég hika, sest síðan. Ég þarf að jafna mig, en má ekki vera of sjálfhverf, hún virðist þurfa á mér að halda. Tylli mér hjá henni og spyr: Er allt í lagi?

Þögul virðir hún mig fyrir sér. Ég er að því komin að endurtaka spurninguna þegar hún segir loks: Hvernig er allt í lagi?

(s. 274-276)

 

 

Fleira eftir sama höfund

Daarginds

Lesa meira

Folket i kjällaren

Lesa meira

Ósjálfrátt

Lesa meira

Fólkið í kjallaranum

  
Lesa meira

Litli lögfræðingurinn

Lesa meira

Stjórnlaus lukka

Lesa meira

Algjört frelsi

Lesa meira

Vetrarsól

Lesa meira

107 Reykjavík

Lesa meira