Beint í efni

Allt sem ég man ekki

Allt sem ég man ekki
Höfundar
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Höfundur er Jonas Hassen Khemiri

Um bókina

Sumir segja að Samúel og Laida hafi verið sálufélagar, ástarsaga þeirra töfrandi, þeim hafi verið ætlað að eigast. Sumir segja að Samúel hafi verið að hefna sín, því hann var afbrýðisamur, vildi þvinga Laide til að muna eftir sér. Sumir segja að ekkert hefði gerst hefði Vandad ekki blandað sér í málin, allt hafi verið Vandad að kenna því hann gerði hvað sem er fyrir peninga …

Allt sem ég man ekki er óvenjuleg skáldsaga um ást og peninga, vináttu og ofbeldi. Örlög nokkurra einstaklinga fléttast saman í Stokkhólmi samtímans og samnefnarinn er hinn sérstæði Samúel, sem lifir áfram í minni þeirra, þótt allt sé breytt. En mynd hans er ólík eftir því hver segir frá. Hvaða frásögn er hægt að treysta? Hvaða vitnisburður felur í sér sannleikann um Samúel, eða dylst hann kannski í því sem fólk man ekki?

Allt sem ég man ekki hlaut virtustu bókmenntaverðlaun Svía, Augustpriset, sem besta skáldsaga ársins 2015.

Úr bókinni

Í sjöunda og síðasta póstinum skrifar mamman að nöldur breyti engu. Hvorki ég né dóttir mín viljum hitta þig. Ekki einu sinni í „smá kaffisopa“. Helst vildi ég biðja þig að hætta þessu öllu. Ef þú þrjóskast enn við að halda þessu áfram er mikilvægt að þú breytir öllum nöfnum og takið fram að ég hafi alls ekki „haldið mig til hlés“ eftir eldsvoðann. Innra með mér „kraumaði engin beiskja“, hvorki gagnvart Samúel né móður minni. Við systkinin ákváðum einfaldlega að deila ábyrgðinni. Eldri bróðir minn sá um praktíska hluti varðandi húsið - samskiptin við yfirvöld, tryggingafélög, slökkviliðið og lögregluna. Yngri bróðir minn sá um að mamma væri örugg á hjúkrunarheimilinu, hann lét starfsfólkið vita af því sem hafði gerst og reyndi að koma við hjá mömmu eins oft og hann gat til að halda henni rólegri. Að læknisráði ákváðum við að segja henni ekki hvað hefði orðið um húsið. Þau sögðu að það væri best að hún stæði í þeirri trú að það væri enn á sínum stað og að hún gæti farið þangað aftur ef hún vildi. Ég tók ábyrgðina á pappírum mömmu. Ég leitaði að kvittunum, kaupsamningum og teikningum og flokkaði allt í merktar möppur. En eins og venjulega hafnaði það sem ég gerði í skugganum. Þannig hefur það alltaf verið. Þegar mamma veiktist eyddi ég viku í að segja upp blaðaáskriftunum hennar, borga reikningana hennar og gera skattaskýrslu fyrir hana. Á þeim tíma kom yngri bróðir minn við hjá henni og skipti um peru í aðventustjörnu. Svo setti hann hana upp í borðstofunni og mamma talaði um þessa stjörnu í margar vikur.
   - Hún hékk svo fullkomlega í glugganum og birtan er svo æðisleg og bróðir þinn sagði meira að segja að hann gæti sett tímastilli á hana! Hann er svo sannarlega lítill rafvirki. Alveg makalaus, hvað myndi ég gera án hans?
   Á þessum tíma sá ég um öll bankaviðskipti hennar og fékk varla takk fyrir. Það var augljóslega ekkert miðað við að bræður mínir komu stundum við á hjúkrunarheimilinu og fóru með hana til Kista til að borða á bílalúgu-McDonald's. Þau drukku mjólkurhristing með banönum! Og átu eplabökur! Hún sagði frá þessu eins og það væru hennar ástsælu synir sem hefðu fundið upp mjólkurhristinginn, bílalúguveitingastaðinn, hraðbrautina, himininn og andrúmsloftið í kringum þau þegar þau sátu þarna smjattandi í bílnum. Það er álitið að sem dóttir eigi maður bara að sjá um ákveðna hluti. Þeir hlutir tóku sífellt meiri tíma. Í lokin mátti ég ekki vera að því að heimsækja hana jafn oft og bræður mínir og þess vegna fannst mér þægilegt þegar Samúel bauðst til að taka sér frí og skutla henni á sjúkrahúsið. Það var á ábyrgð bræðra minna að sjá til þess að bíllinn væri í lagi. Þeir hefðu átt að segja Samúel að bremsurnar væru lélegar og dekkin slitin. Hefðu þeir gert það hefði allt farið á annan veg.

(s. 43-44)

 

 

Fleira eftir sama höfund