Beint í efni

ANDRÝMI – SAMKOMUSTAÐUR ORÐLISTARFÓLKS

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO býður til samkomu þar sem fólki gefst tækifæri til að hittast og spjalla um orðlist, bókmenntir og bókmenntalífið í borginni. Samkomurnar, sem hafa hlotið nafnið ANDRÝMI, verða á barnum í Tjarnarbíói annan miðvikudag í mánuði hverjum og standa yfir frá kl. 20 –22. Andrýmið er vettvangur þar sem bókmenntafólk kemur saman og gefur sér tóm til að ræða málin. Á fyrstu samkomunni MIÐVIKUDAGINN 12. MARS verður boðið upp á lauflétta dagskrá og tilboð á barnum. Þorsteinn Guðmundsson, grínisti og rithöfundur, flytur stutta hugvekju, og Margrét Bjarnadóttir, dansari og rithöfundur, les upp. Alla jafna verður þó ekki um skipulagða dagskrá að ræða því Andrýmið er fyrst og fremst hugsað sem staður til að spjalla og viðra hugmyndir. Andrýmið er ætlað öllum þeim sem hafa faglega tengingu við orðlist og bókmenntir, hvort sem það eru rithöfundar, útgefendur, bóksalar, viðburðahaldarar, bókasafnafólk, fjölmiðlafólk eða aðrir sem starfa á þessum vettvangi. Fyrirmyndin er  meðal annars sótt til Bókmenntaborgarinnar Edinborgar, en þar hefur „Literary Salon“ verið haldið úti um árabil, verið vel sótt og reynst lyftistöng fyrir bókmenntalífið í borginni. Við sem störfum hjá Bókmenntaborginni Reykjavík vonumst til að sjá sem flesta sem vinna á sviði bókmennta og orðlistar í Tjarnarbíói miðvikudaginn 12. mars.